Ný hitaveita á Skarðdal í Siglufirði.
Hafnar eru framkvæmdir nýja virkjun á Skarðdal í Siglufirði og lagningu 3,2 km aðveituæðar frá virkjuninni til Siglufjarðar.
Helstu verkþættir við hitaveituna voru boðnir út. Þann 27.7.2011 voru undirritaðir samningar milli RARIK og Byggingafélagsins Bergs ehf um byggingu borholuhúss, afgösunarhúss og stjórnstöðvarhúss sem staðsett verður við kaldavatnsgeymi bæjarins og þann 4.8.2011 var undirritaður samningur milli RARIK og G.V Gröfur ehf um lagningu aðveituæðarinnar frá Skarðdal til Siglufjarðar.
Hönnuðir steypumannvirkja eru Verkfræðistofa Siglufjarðar og hitaveitulagna WVS-Verkfræðiþjónusta ehf. Aðrir helstu ráðgjafar við jarðhitaleit og virkjun borholu eru ÍSOR og Íslensk Jarðhitatækni ehf. Starfsmenn RARIK í samráði við WVS-Verkfræðiþjónustu hanna stjórnkerfi veitunnar og sjá um eftirlit með framkvæmdum og uppsetningu á búnaði við borholur og stjórnstöð.
Niðurstöður dæluprófana úr borholunni á Skarðdal benda til þess að holan gefi a.m.k. 25 l/s (lítrar á sek) af 75,6 gr. heitu vatni að meðaltali og mestu augnabliksafköst geti orðið allt að 40 l/s. Meðaltalsvatnsnotkun á Siglufirði hefur verið um 20 l/s undanfarin ár og mesta álag um 47 l/s þannig að holan á Skarðdal er góð viðbót við orkuframleiðsluna í Siglufirði og olíukyndistöðin sem hefur verið notuð til að hækka hitann á vatninu yfir kaldasta tímann fer úr notkun.
Vatnið á Skarðdal er heitara en í Skútudal og ekki þarf að blanda natríumsúlfíti í vatnið til þess að eyða súrefni úr því eins og gert er í Skútudal en súrefni í heitu vatni er eins og margir vita mjög skaðlegt vegna tæringar.
Gert er ráð fyrir að meginframkvæmdum við hitaveituna ljúki að fullu fyrir 15. nóvember og virkjunin verði komin í notkun fyrir áramót. Áætlaður heildarkostnaður er um 200 mkr.
Athafnasvæðið við borholuna.
Dæluholan í Skarðsdal.
Starfsmenn Bergs h/f.
GV Gröfur á Akyreyri fengu lögnina í bæjinn.

Undirskrift á samningi: Þorsteinn verkfræðingur, Björn og Þorsteinn frá Berg og Haukur Ágeirsson frá Rarik.

Undirskrift á samningi við GV Gröfur ehf.
Núverandi dæluhús í Skútudal.
Hér á að rísa stjórnstöð og afgösunarhús.
Stjórnstöð rís hér.
Aðventustöðin við Norðurgötu: Verið að snyrta lóð.
Texti Haukur Ásgeirsson
Tvær myndir við undirskrift: Aðsendar
Aðrar myndir: GJS
Athugasemdir