Minni á hreinsunarátakið hjá Fjallabyggð 28. maí
Bæjarstjórn Fjallabyggðar og Íslenska Gámafélagið ehf. hafa tekið höndum saman um snyrta og fegra umhverfi sveitafélagsins. Ætlunin er að Fjallabyggð verði ætíð til fyrirmyndar í snyrtimennsku og taki sérstaklega vel á móti gestum sínum í sumar. Að því tilefni verður staðið fyrir hreinsunarátaki í sveitafélaginu með íbúum og fyrirtækjum.
Hreinsunarátak með íbúum og fyrirtækjum í Fjallabyggð verður laugardaginn 28. maí og hefst formlega kl. 10. Á föstudegi verða settir út brotajárnsgámar, merktir Íslenska Gámafélaginu, við gámasvæðin. Fyrirtæki get óskað eftir því við gámafélagið að fá gáma undir meiriháttar magn af úrgangi.
Gámar undir annarskonar úrgang verða staðsettir á opnum svæðum í þeim hverfum sem fjærst eru gámasvæðunum, á Siglufirði verða gámar norðan Eyrarflatar og á malarvellinum en í Ólafsfirði á túni norðan við Brimnes hótel. Gámasvæðin verða opin frá 10 - 16, Íslenska Gámafélagið verður með opið hús í Seyruhúsinu þar sem íbúar geta skoðað jarðgerðavél sem smíðuð var hjá SR á Siglufirð. Þar er framleidd molta sem er tilbúin til notkunar.
Kl. 16 á laugardegi verður boðið uppá grillaðar pylsur í boði Fjallabyggðar og Íslenska Gámafélagsins.
Í Ólafsfirði verður grillað við Tjarnarborg en á Ráðhústorgi á Siglufirði.
Bæjarstjórn hvetur fyrirtæki og almenning að taka til hendinni og gera bæina okkar hreina og fína, stefnum á að Fjallabyggð verði snyrtilegasta sveitafélag á landinu.
Lagt er til að hverfi eða götur taki sig saman og vinni að hreinsun á sínu svæði og komi svo í grill á eftir.
Garðaúrgangur og múrbrot
Garðaúrgangur
Siglufjörður. Við Öldubrjótinn hefur verið útbúið svæði til að losa garðaúrgang.
Ólafsfjörður. Í gömlu grjótnámunni við Múlaveg er svæði til að losa garðúrgang.
Vinsamlegast farið eftir leiðbeiningum á staðnum og losið aðeins garðaúrganga á svæðið, plast og annan úrgang skal losa á gámasvæðin. Lóðarhafar skulu koma sínum garðaúrgangi á losunarstað.
Múrbrot
Vinsamlegast hafið samband við bæjarverkstjóra eða umhverfisfulltrúa varðandi losun á múrbrotum og steypuafgöngum.
Fyrir hönd bæjarstjórnar.
Bæjarstjóri Fjallabyggðar og umhverfisfulltrúi.
Athugasemdir