Gamla myndin frá Leó Óla
Gamla myndin að þessu sinni er mynd frá Leó R. Óla og texti sem hann sendi með.
Frá Leó.
Brekkuguttarnir bjuggu á brekkunni fyrir ofan bæinn eins og nafngiftin bendir til.
Sumum og þá helst einhverjum sem voru á svipuðum aldri og bjuggu í öðrum bæjarhlutum stóð ekki á sama þegar flokkar þeirra geystust fram á völlinn hvort sem sá staður var uppi í fjalli eða á götum bæjarins og þóttust láta ófriðlega. Jafnvel er hægt að ganga svo langt að segja að þeir hafi verið til sem stóð svolítil ógn af þessum vinalegu greyjum.
Öðru gilti hins vegar um villimennina í norðurbænum. Þeir voru að sjálfsögðu alveg stórhættulegir og vei þeim úr okkar hóp sem vogaði sér yfir í hverfið til þeirra. Ég tala nú ekki um ef farið var að rökkva. Sá hlaut annaðhvort að vera sérlega hugrakkur, mjög heimskur eða hvort tveggja svona í bland.
Á þessu sýnishorni af tegundinni "Brekkuguttum" má sjá eftirfarandi talið frá vinstri.
Heiðar Elíasar, Birgir Óla (Geirs), Skúli Jóhannsson, Hemmi Jónasar, svo koma tveir óþekktir, Guðni (fyrir aftan) og Jóhann (fyrir framan) Jóhannssynir (Jóa Valda og Ernu), Raggi Ragg trillukarl og göngugarpur, Óli Kára og þessi litli á endanum er bakarameistarinn Kobbi Kára (eða meistari Jakob).
Það væri náttúrulega alveg frábært ef einhver þekkti þessa tvo sem hafa verið óþekktir í tæpa hálfa öld, en mjög líklega verið gestkomandi á brekkunni þegar myndin var tekin sem var sennilega sumarið 1966.
"sama Brekkuguttagengið sem stillir sér upp við austurvegg
Aðventistakirkjunnar sem var númer 10 á Hverfisgötunni".
LRÓ.
Athugasemdir