Gamla myndin: Hótel Hvanneyri
sksiglo.is | Almennt | 19.11.2011 | 12:00 | Finnur Yngvi Kristinsson | Lestrar 718 | Athugasemdir ( )
„Sigtryggur Benediktsson, sem áður rak Hótel Akureyri, hefir opnað nýlega stórt og vandað gistihús hér á Siglufirði er hann nefnir Hótel Hvanneyri,“ sagði í frétt í Vísi 1. júní 1934. Sigtryggur var þá orðinn 67 ára og mun ekki hafa rekið hótelið í mörg ár. Hann var tengdafaðir Jórunnar dóttur Ole Tynes síldarsaltanda.
Sennilegt er að Guðmundur Guðmundsson hafi teiknað þetta hús. Hjá tæknideild Fjallabyggðar eru til teikningar, merktar honum, af þriggja hæða húsi í sama stíl og endanlega byggingin. Síðan virðist sú stefna hafa verið mörkuð að reisa fjögurra hæða hús við Aðalgötuna og var hún enn í gildi þegar Útvegsbankahúsið var byggt og fleiri hús, en af sumum þeirra var aldrei reist nema neðsta hæðin.
Sagt er að norski vélfræðingurinn Gustav Blomquist, sem vann hjá Sören Goos, hafi staðið fyrir byggingu hótelsins. Sparisjóður Siglufjarðar keypti húsið ófullgert árið 1936 og hafði aðstöðu á jarðhæðinni í rúma þrjá áratugi.
Hótelið var auglýst til leigu árið 1939, en Edward Frederiksen hafði þá séð um reksturinn um tíma. Þórarna Erlendsdóttir Kristjánsson rak hótelið í nokkur ár en sumarið 1943 tók Gísli Þ. Stefánsson við ásamt Helga Gíslasyni. Nokkrum árum síðar keypti Gísli Hótel Siglunes við Lækjargötu, breytti nafni þess í Hótel Höfn og byggði við það. Hann rak bæði hótelin saman þar til hann lést af slysförum árið 1958, 38 ára að aldri.
Þórarna mun hafa rekið Hvanneyri á ný í eitt eða tvö ár. Síðan rak Freysteinn Þorbergsson það og svo Vilhjálmur Schröder. Steinar Jónasson tók við rekstri beggja hótelanna í lok sjöunda áratugarins. Á þeim árum var Hótel Hvanneyri einkum opið á sumrin og rætt var um að gera það að heimavist á veturna, til að auka nemendafjölda í Gagnfræðaskólanum.
Árið 1976 keypti Þormóður rammi Hótel Hvanneyri af Sparisjóðnum fyrir skrifstofur og gistiaðstöðu fyrir starfsfólk. Jafnvel var talað um verbúð. Um tíma á níunda áratugnum var Tónskóli Siglufjarðar þarna til húsa.
Aftur var farið að bjóða aðstöðu fyrir ferðamenn sumarið 1995, þegar Álfheiður Stefánsdóttir opnaði þar Gistiheimilið Hvanneyri. Þá hafði húsnæðið verið gert upp. Síðustu ár hefur Birgitta Pálsdóttir rekið Hvanneyri, en faðir hennar var þekktur veitingamaður á sinni tíð, alltaf nefndur Páll á Hótelinu.
Hótel Hvanneyri var lengi einn helsti samkomustaður Siglfirðinga. Í tilefni af því að séra Bjarni Þorsteinsson var gerður að heiðursborgara Siglufjarðar, fyrstur allra, á 75 ára afmæli sínu, 14. október 1936, var haldið heiðurssamsæti á Hótel Hvanneyri. Þegar krónprinshjónin komu til Siglufjarðar sumarið 1938 bauð bæjarstjórnin þeim og fylgdarliði þeirra „til hressingar að Hótel Hvanneyri og voru þar ræður haldnar, en auk þess söng Karlakórinn Vísir nokkur lög,“ sagði í Vísi. Lýðveldisstofnuninni 1944 var fagnað þar og stríðslokunum 1945.
Mörg félög héldu reglulega samkomur í hótelinu og þar voru skákmót og fleiri viðburðir. Haustið 1977 var hótelið notað sem „leikmynd“ þegar tekið var upp sjónvarpsleikrit sem átti að gerast árið 1940.
Á síldarárunum áttu gestir hótelanna á Siglufirði oft erfitt með svefn vegna hávaða á götum bæjarins. Á Hótel Hvanneyri dvöldu síldarspekúlantar vikum saman og þar var því oft einnig glatt á hjalla innan dyra, ekki síður en úti.
Í lokin er rétt að minna á blaðaauglýsingu frá árinu 1939: „Hótel Hvanneyri veitir bezta gistingu, bezt fæði og beztu umgengni.“

Hótel Hvanneyri, Aðalgötu 10. Áletrunin „Til loftvarnabyrgis“ gæti bent til þess að myndin hafi verið tekin á stríðsárunum eða fljótlega eftir þau.

Teikning af þriggja hæða húsi með risi, merkt Guðmundi Guðmundssyni. Húsið hefði óneitanlega orðið svipminna svona.
Hér er búið að teikna fjórðu hæðina eins og hún var byggð. Handskriftin gæti bent til þess að þetta sé verk eigandans, Gustav Blomquist.

Sumarið 1942 hélt Óskar Halldórsson síldarsaltandi upp á það að aldarfjórðungur var síðan hann hóf starfsemi á Siglufirði. Hann bauð þá völdum hópi til kvöldverðar á Hótel Hvanneyri og sendi þeim þetta boðskort. Barnabarn Óskars segir að setningunni um hversdagsklæðnað hafi verið ætlað að koma í veg fyrir að þeir sem ættu ekki spariföt sætu heima.

Sparisjóður Siglufjarðar var á neðstu hæðinni á Aðalgötu 10 í þrjá áratugi. Þá var þetta merki notað á tékkhefti, víxileyðublöð og fleiri gögn.
Texti: Jónas Ragnarsson (jr@jr.is).
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.
Dökk teikning: Guðmundur Guðmundsson, Tæknideild Fjallabyggðar.
Ljós teikning: Tæknideild Fjallabyggðar.
Boskort: Eigandi Guðrún Ólafsdóttir (barnabarn Óskars Halldórssonar).
Merki Sparisjóðsins: Síldarminjasafnið.
Sennilegt er að Guðmundur Guðmundsson hafi teiknað þetta hús. Hjá tæknideild Fjallabyggðar eru til teikningar, merktar honum, af þriggja hæða húsi í sama stíl og endanlega byggingin. Síðan virðist sú stefna hafa verið mörkuð að reisa fjögurra hæða hús við Aðalgötuna og var hún enn í gildi þegar Útvegsbankahúsið var byggt og fleiri hús, en af sumum þeirra var aldrei reist nema neðsta hæðin.
Sagt er að norski vélfræðingurinn Gustav Blomquist, sem vann hjá Sören Goos, hafi staðið fyrir byggingu hótelsins. Sparisjóður Siglufjarðar keypti húsið ófullgert árið 1936 og hafði aðstöðu á jarðhæðinni í rúma þrjá áratugi.
Hótelið var auglýst til leigu árið 1939, en Edward Frederiksen hafði þá séð um reksturinn um tíma. Þórarna Erlendsdóttir Kristjánsson rak hótelið í nokkur ár en sumarið 1943 tók Gísli Þ. Stefánsson við ásamt Helga Gíslasyni. Nokkrum árum síðar keypti Gísli Hótel Siglunes við Lækjargötu, breytti nafni þess í Hótel Höfn og byggði við það. Hann rak bæði hótelin saman þar til hann lést af slysförum árið 1958, 38 ára að aldri.
Þórarna mun hafa rekið Hvanneyri á ný í eitt eða tvö ár. Síðan rak Freysteinn Þorbergsson það og svo Vilhjálmur Schröder. Steinar Jónasson tók við rekstri beggja hótelanna í lok sjöunda áratugarins. Á þeim árum var Hótel Hvanneyri einkum opið á sumrin og rætt var um að gera það að heimavist á veturna, til að auka nemendafjölda í Gagnfræðaskólanum.
Árið 1976 keypti Þormóður rammi Hótel Hvanneyri af Sparisjóðnum fyrir skrifstofur og gistiaðstöðu fyrir starfsfólk. Jafnvel var talað um verbúð. Um tíma á níunda áratugnum var Tónskóli Siglufjarðar þarna til húsa.
Aftur var farið að bjóða aðstöðu fyrir ferðamenn sumarið 1995, þegar Álfheiður Stefánsdóttir opnaði þar Gistiheimilið Hvanneyri. Þá hafði húsnæðið verið gert upp. Síðustu ár hefur Birgitta Pálsdóttir rekið Hvanneyri, en faðir hennar var þekktur veitingamaður á sinni tíð, alltaf nefndur Páll á Hótelinu.
Hótel Hvanneyri var lengi einn helsti samkomustaður Siglfirðinga. Í tilefni af því að séra Bjarni Þorsteinsson var gerður að heiðursborgara Siglufjarðar, fyrstur allra, á 75 ára afmæli sínu, 14. október 1936, var haldið heiðurssamsæti á Hótel Hvanneyri. Þegar krónprinshjónin komu til Siglufjarðar sumarið 1938 bauð bæjarstjórnin þeim og fylgdarliði þeirra „til hressingar að Hótel Hvanneyri og voru þar ræður haldnar, en auk þess söng Karlakórinn Vísir nokkur lög,“ sagði í Vísi. Lýðveldisstofnuninni 1944 var fagnað þar og stríðslokunum 1945.
Mörg félög héldu reglulega samkomur í hótelinu og þar voru skákmót og fleiri viðburðir. Haustið 1977 var hótelið notað sem „leikmynd“ þegar tekið var upp sjónvarpsleikrit sem átti að gerast árið 1940.
Á síldarárunum áttu gestir hótelanna á Siglufirði oft erfitt með svefn vegna hávaða á götum bæjarins. Á Hótel Hvanneyri dvöldu síldarspekúlantar vikum saman og þar var því oft einnig glatt á hjalla innan dyra, ekki síður en úti.
Í lokin er rétt að minna á blaðaauglýsingu frá árinu 1939: „Hótel Hvanneyri veitir bezta gistingu, bezt fæði og beztu umgengni.“

Hótel Hvanneyri, Aðalgötu 10. Áletrunin „Til loftvarnabyrgis“ gæti bent til þess að myndin hafi verið tekin á stríðsárunum eða fljótlega eftir þau.

Teikning af þriggja hæða húsi með risi, merkt Guðmundi Guðmundssyni. Húsið hefði óneitanlega orðið svipminna svona.

Hér er búið að teikna fjórðu hæðina eins og hún var byggð. Handskriftin gæti bent til þess að þetta sé verk eigandans, Gustav Blomquist.

Sumarið 1942 hélt Óskar Halldórsson síldarsaltandi upp á það að aldarfjórðungur var síðan hann hóf starfsemi á Siglufirði. Hann bauð þá völdum hópi til kvöldverðar á Hótel Hvanneyri og sendi þeim þetta boðskort. Barnabarn Óskars segir að setningunni um hversdagsklæðnað hafi verið ætlað að koma í veg fyrir að þeir sem ættu ekki spariföt sætu heima.

Sparisjóður Siglufjarðar var á neðstu hæðinni á Aðalgötu 10 í þrjá áratugi. Þá var þetta merki notað á tékkhefti, víxileyðublöð og fleiri gögn.
Texti: Jónas Ragnarsson (jr@jr.is).
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.
Dökk teikning: Guðmundur Guðmundsson, Tæknideild Fjallabyggðar.
Ljós teikning: Tæknideild Fjallabyggðar.
Boskort: Eigandi Guðrún Ólafsdóttir (barnabarn Óskars Halldórssonar).
Merki Sparisjóðsins: Síldarminjasafnið.
Athugasemdir