Ganga Ferðafélagsins

Ganga Ferðafélagsins Gangan sem Ferðafélag Siglufjarðar áformaði að fara laugardaginn þ. 16. þ.m., en var þá frestað um viku vegna þoku, var farin

Fréttir

Ganga Ferðafélagsins

Lagt af stað frá Lambanes - Reykjum.
Lagt af stað frá Lambanes - Reykjum.

Gangan sem Ferðafélag Siglufjarðar áformaði að fara laugardaginn þ. 16. þ.m., en var þá frestað um viku vegna þoku, var farin laugardaginn 23. sl. Veðrið var eins og best var á kosið, nokkrir léttir og ljósleitir skýhnoðrar svifu um á bláum himni og sólin skein í heiði.

Um það leyti sem lagt var af stað akandi frá Íþróttamiðstöðinni að Hóli kl. 14.00 e.h., sýndi hitamælirinn á Sparisjóðnum hvorki meira né minna en 20 stig. Þáttaka var ágæt og gengið var Fljótamegin á fjallið skammt frá Lambanes-Reykjum.

Farið var upp svokallaðan Skæling sem er mjög skemmtileg leið og sést á miðri myndinni. Algengara mun þó hafa verið að fara upp Bolahrygg (nefndur eftir Þorgeirsbola) þegar lagt var upp frá Brúnastöðum eða nokkru innar í Fljótunum hér áður fyrr.

Fyrst var gengið stuttan spöl frá veginum og að rótum hryggsins þar sem landið fer ört hækkandi.

Litlu munaði að ég stigi ofan á þennan lóuunga, því eins og sjá má er hann mjög samlitur lynginu og lággróðrinum. Ekkert sást til móður hans og ekkert hreiður var heldur sjáanlegt í grendinni. Hann hreyfði sig ekki og hefur eflaust verið feginn þegar hópurinn sem umkringdi hann var búinn að fá nægju sína af að ljósmynda hann og hvarf á braut.

Ofarlega í Skælingnum var kominn tími á nestisstopp. Útsýnið var alveg frábært til allra átta og þaðan sást meira að segja aðeins móta fyrir fjöllunum á Ströndum yfir Skagann.

Þá var líka tilvalið að taka nokkrar myndir af göngumönnum með Miklavatn og Fljótavíkina í baksýn.

En áfram var haldið og framundan voru nokkrar brattar brekkur. Þær reyndust mun brattari og erfiðari en sýnist á myndinni. Þar sannaðist eina ferðina enn að það ekki er allt sannleikanum samkvæmt sem augað “sér”.

Eftir Skæling tók Oddur við, en það er nafnið stórum hól sem er eins og risastór varða sem er síðasti áfanginn á undan síðustu brekkunni sem er bæði grýtt og brött.

Að henni lokinni er brúninni náð og þó rúmlega það, því komið var upp aðeins vestan við hina venjulegu leið sem stundum hefur verið kölluð Botnaskarð, en yfirleitt er þó aðeins talað um Botnaleið. Þarna uppi er fögur fjallasýn svo ekki sé dýpra í árina tekið og sést vel yfir ysta hluta Tröllaskaga. Blekkill (no. 1) er skammt austan við okkur, en Gestur fararstjóri upplýsti okkur um að u.þ.b. 5 km. loftlína er að Almenningshnakka (no. 2) frá þeim stað þar sem við komum upp og við værum komin nokkuð yfir 700 metra upp fyrir sjávarmál.

Raggi Ragg var einn göngumanna en hann er mikill göngugarpur eins og flestir Siglfirðingar vita. Gangan tók u.þ.b. 7 klukkustundir og líklega hefur hann varið drjúgum hluta af þeim tíma í að bíða eftir okkur hinum.

Það var tekið langt stopp uppi á brúninni, sest niður, nestið klárað og setið fyrir…

…rétt eins og hver maður hlýtur að sjá og skilja sem upplifir slíka náttúrufegurð sem blasti við okkur göngufólkinu.

Nokkrir stórir steinar voru alveg sérstaklega vinsælir til ásetu eins og sjá má.

En þar kom að lagt var af stað niður og það var talsvert bratt til að byrja með. Hópurinn skiptis nokkurn vegin að jöfnu, sumir fóru norðan megin við Blekkilsána…

…en aðrir sunnan megin og töldu hana hina einu réttu.

En flestir hafa eflaust verið svolítið fengir þegar niður kom, þrátt fyrir að dagurinn og ferðin hafi verið alveg frábær í alla staði.

Gestur Hansson var duglegur að taka myndir og setti sig þá gjarnan í sérstakar ljósmyndarastellingar.

Áður en gengið var niður Hólsdalinn og niður að Hóli þar sem bílarnir biðu okkar, þurfti þó að komast yfir Blekkilsána sem er nokkuð vatnsmikil um þessar mundir. En við sem gengum Botnaleiðina komum hæfilega þreytt heim, ánægð með daginn og enn betur vitandi um það en áður að fjöllin eru auðlind sem mætti alveg nýta betur.

Ljósmyndir og texti. Leó R. Ólason.















Athugasemdir

08.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst