Gleðilegt sumar!
Þessi góði dagur, svo mikilvægur í sögu okkar er runninn upp: Sumardagurinn fyrsti! Annar tveggja daga þegar fólk gaf hvert öðru gjafir og vissan um hækkandi sól og komandi vor var staðfest – jafnvel þótt öskuþreifandi blindbylur geisaði úti.
Enn til staðestingar komandi sumri eru farfuglarnir farnir að kvaka og syngja vorsöngvana sína – eða synda og vaða um í þögulli þörf fyrir nýja orku eftir Atlantshafsflugið eins og rauðhöfðar og grágæsir. Stelkar, tjaldar og hrossagaukar láta heyra í sér að ónefndum hettumávunum sem fáa gleður.
Svo eiga þeir eftir að birtast hver af öðrum misyndislegir eins og gengur, en með þessi fallegu nöfn sem bera með sér tilfinningu fyrir gleðilegu sumri: heiðlóa, maríuerla, steindepill, jaðrakan, sandlóa, lóuþræll, spói, kjói, þúfutittlingur, urtönd, skúfönd, duggönd, óðinshani. Og síðast en ekki síst: krían sem ýmist kætir eða ergir.
Að lokum hver er vorfugl Siglfirðinga? Tæplega lóan – því flestir sem áhuga á fuglakomunum spyrja: eru álftirnar komnar eða hvenær kemur krían?
Texti: ÖK
Mynd: SK
Athugasemdir