Hafbor á leið til Ameríku
sksiglo.is | Almennt | 11.01.2014 | 13:20 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 550 | Athugasemdir ( )
Hafbor ehf. er fyrirtæki staðsett á
Siglufirði.
Ingvar Erlingsson sendi okkur upplýsingar um verkefnið sem Hafbor er að vinna í þessa stundina og það eru vægast sagt spennandi tímar framundan hjá Hafbor.
Glæsilegt þegar vel gengur og óskum við
þeim góðs gengis þar ytra.
„Tækifærin i markaðssetningu á tæknilausninni okkar í Bandaríkjunum eru
gríðarleg eftir að Skipulags- og umhverfisstofnun Kaliforníuríkis gaf í vikunni í fyrsta skipti í sögunni grænt ljós á
kræklingaeldi utan þriggja mílna fylkislögsögu,“ segir Ingvar Erlingsson, framkvæmdastjóri siglfirska nýsköpunarfyrirtækisins Hafbors
ehf. Fyrirtækið hefur á undanförnum þremur árum unnið að hönnun, þróun og prófunum á búnaði, sem festir
skrúfuakkeri í sjávarbotn með nýrri íslenskri tæknilausn. Tæknin gerir það kleift að setja niður öflugar festingar í
sjávarbotn án kafara á allt að 100 metra dýpi.
Það er nýtt fyrirtæki í skelfisk- og kræklingarækt
í Kaliforníu, Catalina Sea Ranch, sem sótti um leyfi til Skipulags- og umhverfisstofnunar Kaliforníuríkis, California Coastal Commission, um að fá að
hefja kræklingaeldi átta sjómílur úti fyrir ströndum Los Angeles. Verkfræðideild bandaríska hersins, US Army Corps of Engineers, þurfti
að samþykkja búnað Hafbors í upphafi umsóknarferilsins og voru miklar kröfur gerðar um að lágmarka umhverfisáhrif á
sjávarbotninn og lífríki. Það er því mikil viðurkenning að festingar og búnaður Hafbor varð fyrir valinu af þeim kostum sem
voru skoðaðir.
„Við höfum verið að vinna að þessari umsókn í
hálft annað ár með Catalina Sea Ranch og þessi leyfisveiting skiptir sköpum því þetta er í fyrsta sinn sem kræklingarækt er
leyfð utan þriggja mílna fylkislögsögu í Bandaríkjunum. Þar með erum við komin yfir í alríkislögsöguna og getum
nú starfað hvar sem er í Bandaríkjunum. Það sem skiptir auðvitað mestu varðandi leyfisveitinguna er það hversu umhverfisvænn
búnaðurinn okkar er sem kemur til með að setja mælikvarða á það sem koma skal og þá eflaust með fleiri samstarfssamningum við
fyrirtæki og framleiðendur vestra. Ég sé fram á að okkar búnaður verði fyrirmynd í framhaldinu enda hafa bæði akkerið og
borinn mjög lítil umhverfisáhrif og hreyfa lítið við sjávarbotni,“ segir Ingvar, sem er á leið vestur um haf á mánudag við
annan mann frá Hafbor ehf. til að hefja framkvæmdir við kræklingarækt á austurströnd Bandaríkjanna.
Þar fer fram einskonar „generalprufa“, eins og Ingvar orðar
það. Þar mun Hafbor setja niður festingar fyrir kræklingarækt við Dutch Harbour á Rhode Island. „Borinn er farinn úr landi og tilbúinn
til athafna, en verkefnið þar lýtur einnig að niðursetningu festinga fyrir kræklingarækt, en þó innan þriggja mílna
fylkislögsögu. Um mánaðamótin febrúar/mars verður svo haldið til vesturstrandarinnar til að vinna á vegum Catalina Sea Ranch.
„Það verkefni verður ákveðin prófraun og kynning fyrir okkur í leiðinni því margir hafa boðað komu sína til að
fylgjast með gangi mála, bæði fjölmiðlar og rannsakendur. Tækifærið verður notað til að sýna búnaðinn og kynna fyrir fleiri
aðilum,“ segir Ingvar, sem býst við því að verkefnið taki um tvær vikur. Verkefnið snýst um að setja niður 90 festingar í
sjávarbotn á 50 metra dýpi.


Hér eru einnig aðrar umfjallanir um verkefni Hafbors.
Athugasemdir