Hafsækin starfsemi í Fjallabyggð.
Samantekt þessi er gerð af Ómari Haukssyni - og er ætlað að draga fram í dagsljósið kosti Fjallabyggðar, sérstaklega Siglufjarðar og Siglufjarðarhafnar, sem miðstöð þjónustu við verkefni er tengjast hafsvæðinu norður af Íslandi.
Siglufjörður.
Siglufjörður er staðsettur á miðju Norðurlandi nánar tiltekið á 66,10 gráður norður og 18,55 vestur lengdar. Sjá mynd nr. 1. Hafnarskilyrði eru mjög góð frá náttúrunnar hendi, auðveld innsigling og gott viðlegupláss. Staðurinn er hluti af sveitarfélaginu Fjallabyggð sem varð til eftir sameiningu kaupstaðanna Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og alls svæðis milli þessara tveggja staða.
Siglufjörður var á fyrrihluta síðustu aldar miðstöð síldveiða og síldarvinnslu á Íslandi og skipaumferð að og frá staðnum mjög mikil. Á fyrri hluta aldarinnar voru Norðmenn hér með mikla atvinnustarfssemi sem tengdist síldarvinnslunni. Þegar síldveiðar lögðust af um árið 1968 hófst skuttogaraútgerð frá staðnum og mikil fiskvinnsla. Síldarverksmiðjur (bræðslur) þær sem eftir stóðu voru notaðar til loðnubræðslu og voru þar töluverð umsvif, árstíðabundin. Á síðasta áratug aldarinnar og byrjun þeirrar 21. dró verulega úr veiðum og vinnslu á bolfiski á Siglufirði, vinnsla uppsjávarfisks lagðist nánast af og rækjuvinnsla og veiðar urðu verulegur þáttur í veiðum og vinnslu sjávarafla.
Rækjuvinnslan lagðist af þar sem veiðar á rækju minnkuðu mjög mikið og verðþróun varð greininni ekki hagstæð. Þó hefur birt til í þeirri atvinnugrein og rekur fyrirtækið Rammi hf. nú rækjuvinnslu á staðnum. Tiltölulega lítill sjávarútvegur annar er stundaður frá Siglufirði, en útgerð skuttogara er frá Ólafsfirði. Kvótastaða í sveitarfélaginu í bolfiski er fremur rýr nema hjá útgerð togaranna, Ramma hf. Á Siglufirði er helst um að ræða útgerð smábáta svo og línubáta frá öðrum verstöðum landsins yfir sumartímann og er allur sá afli fluttur til vinnslu annarsstaðar á landinu. Fiskverkun er hverfandi. Hafnarmannvirki og byggingar standa að nokkru leyiti ónotuð. Aðstaða skipa í höfninni er því ákjósanleg og einnig eru til staðar veruleg húsakynni sem gætu nýst til atvinnustarfsemi.

Mynd 1.
Höfnin og hafnarmannvirki.
Höfnin er byggð utan um eyrina sem kaupstaðurinn stendur á. Innsigling til hafnarinnar er mjög góð, auðvelt að sigla inn Siglufjörð jafnvel í verstu veðrum. Innsigling er í fjarðarmynni vestanverðu og skjól af Siglunesi í austanverðu fjarðarmynni. Nýr viðlegukantur er norðan á eyrinni, austanverðri, 155 metra langur, dýpi 9 metrar. Steypt þekja er á garðinum 30 metra breiðri á 75 metra lengd og 15 metra breiðri 80 metrar. Kanturinn er varinn af grjótgarði fyrir norðan öldunni. Sjá mynd nr. 2. All mikið athafnapláss er við og fyrir ofan steypta þekju bryggjunnar. Í samgönguáætlun, sem í gildi er, er gert ráð fyrir lengingu þessa kants til suðurs um 120 metra og lengingu grjótvarnar til suðausturs og yrði þá viðlegukantur orðinn 275 metrar að lengd með 9 – 10 metra dýpi.

Mynd 2.
Búið er að fjarlægja gömul hafnarmannvirki sem þrengdu svolítið að umferð að þessum nýja kanti. (Sjást hér til vinstri fyrir ofan miðja mynd nr. 2) Skammt frá kantinum stendur svo fiskimjölsverksmiðja sem ekki hefur tekið á móti bræðslufiski frá árinu 2005. Búið er að selja burt úr henni tæki og tól svo ærinn húsakostur er eftir. Tækin hafa þó ekki verið fjarlægð. Í næsta nágrenni er olíubirgðastöð Olís hf. leiðslur á hafnarkant, svo og móttökustöð hverskonar úrgangs, sorpmóttaka. Svæði við og umhverfis þennan viðlegukant væri ákjósanlegt fyrir þjónustu við flota sem væri í tengslum við hvers konar starfsemi á norðurslóðum.
Húsakostur og aðstaða.
Eins og að framan segir eru í nálægð við fyrrnefndan viðlegukant veruleg mannvirki sem tilheyra fiskimjölsverksmiðju í eigu SVN hf. Þar er m.a. stálgrindarhús sem lítil notkun hefur verið á hin síðari ár. Hús þetta er tæpir 6.500 fermetrar að stærð og um 85.000 rúmmetrar. Sjá mynd nr. 3. Þurrkarahús, 1600 fermetrar að stærð er byggt úr steinsteyipu árið 1998. Sjá nánar skýrslu um lóðir og mannvirki verksmiðjunnar sem fylgir hér með. Á svæðinu er einnig aflögð rækjuverksmiðja með stórum, nýlega byggðum frystiklefa í eigu Ramma hf. Húsnæði þetta er í takmarkaðri notkun.

Mynd 3.
Samgöngur á landi.
Samgöngur við Siglufjörð, landleiðina, eru góðar. Staðsetning staðarins er 100 km. frá hringvegi nr. 1 í vestur og 70 km frá hringveginum í austur. Allir vegir til Reykjavíkur og Akureyrar eru lagðir bundnu slitlagi. Daglegar ferðir vöruflutningabíla eru frá Siglufirði til Reykjavíkur og Akureyrar, í báðar áttir, allt árið.Tengsl við flugsamgöngur við Reykjavík eru frá Akureyri 80 km austan við Siglufjörð og frá Sauðárkróki, 100 km. vestan við. Á Akureyri er millilandaflugvöllur og fjöldi daglegra flugferða til Reykjavíkur. Byggingu er lokið á viðamiklu samgöngumannvirki, Héðinsfjarðargöngum, milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem tengir saman sveitarfélagið Fjallabyggð, þannig að vegalengd á milli þessara þéttbýlisstaða sveitarfélagsins er aðeins um 16 km.
Þjónusta iðnaðarmanna.
Í Fjallabyggð er starfandi fjöldi iðnaðarmanna. Öflugasta starfsemin er í járniðnaði en starfandi eru 5 öflug járnsmíðaverkstæði, vel tækum búin. Starfandi eru einnig trésmiðir, rafvirkjar, pípulagningamenn og múrarar. Reynsla þessara iðnaðarmanna er verulega af þjónustu við sjávarútveginn. Verkstæði þessi ráða þvi vel við veruleg verkefni og geta þjónustað ýmiskonar starfsemi. Frekari þjónustu iðnaðarmanna er hægt að sækja með góðu móti til nágrannastaðanna við Eyjafjörð og til Akureyrar.
Félagsmál.
Öflug félagsstarfsemi er í Fjallabyggð. Kirkjur og sóknarprestar eru í sveitarfélaginu. Þar eru starfandi tveir kirkjukórar, karlakór og kór eldri borgara. Starfandi eru íþróttafélög, skíðafélög, knattspyrnufélag, golfklúbbar, blakklúbbar, hestamannafélög, stangveiðifélög o.fl.
Heilsugæsla og læknisþjónusta
Í Fjallabyggð er starfandi sjúkrahús og heilsugæsla. Nú eru starfandi á Heilsugæslu Fjallabyggðar 3 læknar auk hjúkrunarfólks og annars starfsfólks. Lyfjaverslun er starfandi. Tannlæknaþjónusta er í Fjallabyggð. Dvalarheimili eldri borgara eru rekin í báðum byggðakjörnum sveitarfélagsins. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, hátæknisjúkrahús, er aðeins í rúmlega 70 km. fjarlægð, um 50 mínútna akstur, og þjónustar byggðalagið eins og þurfa þykir.
Önnur þjónusta.
Í Fjallabyggð er starfandi grunnskóli svo og framhaldsskóli. Internetsamband er gott og öflugt og tölvusamskipti því góð. Starfandi eru fyrirtæki í veitingasölu, góðir veitingastaðir, hótel, gistiheimili og útleiga smærri húsa og íbúða. Metnaðarfull uppbygging í ferðaþjónustu á sér stað í Siglufirði. Þá eru á svæðinu ýmiskonar verslanir, nýlendu- og byggingavöruverslanir, ritfanga- og gjafavöruverslanir og verslanir með tískufatnað. Bakarí er starfandi í Fjallabyggð. Sund- og líkamsræktaraðstaða er góð, aðstaða til skíðaiðkunar mjög góð svo og ágætir golfvellir. Snyrtiaðstaða bæði kvenna og karla er góð hjá hinum ýmsu snyrtistofum. Þvottahús og fatahreinsun er á Siglufirði. Öflug umboð olíufélaganna eru á staðnum sem veita alla almennu þjónustu slíkrar starfsemi. Aðstaða til geymslu á brennsluolíu og öðrum fljótandi efnum er fyrir hendi, mikil og góð.
Lokaorð.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að staður eins og Fjallabyggð, Siglufjörður, er ákjósanlegur kostur til að byggja upp þjónustuaðstöðu við þann flota sem starfar á og fer um norðurhöf. Hér getur líka verið ákjósanlegur kostur fyrir annan atvinnurekstur í landi sem gæti nýtt sér húsnæði það sem til staðar er. Hafnaraðstaða á staðnum er góð, hafnarmannvirki fyrir hendi, húsakostur til staðar, þjónustustig hátt miðað við stærð sveitarfélagsins, sérstaklega í járniðnaði, og ekki er séð að þjónustuaðstaða sem þessi kalli á verulegar fjárfestingar í byggingu húsa og eða hafnarmannvirkja.

Samantekt á lóðum og mannvirkjum verksmiðjunnar.
Fiskimjöls- og lýsisverksmiðja SVN á Siglufirði.
Inngangur.
Samantekt þessi um fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sem staðsett er á Siglufirði, er unnin af Ómari Haukssyni til að safna saman á einn stað og kynna aðstöðu, lóðir og húsnæði verksmiðjunnar. Verksmiðjan hefur ekki tekið á móti hráefni til vinnslu síðan árið 2005 og hefur búnaður verksmiðjunnar nú verið seldur til flutnings erlendis.
Tilgangurinn með þessari samantekt er að vekja athygli á þeim húsakosti sem til staðar er og um leið athuga hvort mögulegt er að nýta verksmiðjuna og verksmiðjuhúsin til einhverrar starfsemi annarrar.
Athafnasvæði verksmiðjunnar er neðst (austast) á eyrinni sem Siglufjarðarkaupstaður stendur á, Þormóðseyri. Veglegur húsakostur ásamt lýsis- og olíugeymum tilheyrir verksmiðjunni.
Nýr bryggjukantur, um 150 metra langur með steyptri þekju 15 metra breiðri frá kanti til vesturs, er framan við starfssvæðið. Bryggjukanturinn er í eigu hafnarsjóðs Fjallabyggðar. Gamla löndunarbryggja SR sem sést á myndinni hér fyrir neðan hefur þegar verið fjarlægð. Stórt geymsluhúsnæði, Ákavíti – mjölgeymsla, litlu ofar og norðar, er hluti af verksmiðjunni.
Í samantekt þessari eru heimildir og upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins, tæknideild Fjallabyggðar og frá starfsmönnum SVN þeim Þórhalli Jónassyni og Þórði Andersen.
Bryggjukantur við athafnasvæði verksmiðjunnar.
Lóðir.
Lóðir þær sem verksmiðjan hefur til afnota eru í eigu Fjallabyggðar og leigðar verksmiðjunni með leigulóðarsamningum til langs tíma. Lóðirnar eru Verksmiðjureitur 1, iðnaðar- og athafnalóð 16.868 fermetrar, landnúmer 143065. Verksmiðjureitur 2, iðnaðar- og athafnalóð 7308 fermetrar, landnúmer 143066 og Verksmiðjureitur SR46, iðnaðar- og athafnalóð 6.935 fermetrar. Landnúmer fasteignamats 143064. Vetrarbraut 12, viðskipta- og þjónustulóð 466 fermetrar, landnúmer 143033.
Mannvirki.
Á framangreindum lóðum standa mannvirki verksmiðjunnar. Næst bryggjukanti eru löndunarmannvirki. Skammt þar frá er Vogarhús, byggt úr steinsteypu árið 1999, 103 fermetrar. Sunnar á lóðunum eru hráefnisgeymar byggðir árið 1933 og 1935 úr stáli. Geymarnir eru samtals 227 fermetrar. Þar við hliðina er yfirbyggð Síldarþró SR46, hráefnisgeymsla, byggð úr stáli og steypu árið 1946. Þróin er 1.961 fermetri að stærð. Ketilhús og geymslur byggt úr stáli og timbri árið 1998 eru 648 fermetrar. Soðstöð,823 fermetrar var byggð úr stáli og timbri árið 1987. Síldarverksmiðja SR46 er byggð úr stáli og steinsteypu árið 1946. Húsnæðið er 2.189 fermetrar. Við hlið verksmiðjunnar er lýsisgeymir byggður árið 1991. Norðan verksmiðjunnar er Þurrkarahús byggt úr steypu árið 1998. Húsið er 1.623 fermetrar að stærð. Soðstöð eldri er hús frá 1943, steypt, 238 fermetrar. Vestar er Varnarþró, steypt árið 1997. Innan þróarinnar eru lýsis- og olíutankarásamt Dæluhúsi. Ákavíti, geymsluhúsnæði, er svo á Verksmiðjureit 2, eilítið norðar og vestar. Stálgrindarhús, byggt árið 1946, 6.559 fermetrar að stærð og 84.935 rúmmetrar. Skrifstofuhús, byggt úr timbri árið 1918, stendur svo við Vetrarbraut 12. Mannvirki, hús og tankar, þau er standa á Verksmiðjureit 1 og Verksmiðjureit SR46, eru alls að rúmmáli um 67.000 rúmmetrar.
Þannig er heildarstærð allra eigna verksmiðju SVN á Siglufirði rúmlega 14.300 fermetrar og liðlega 150.000 rúmmetrar. Í þessari tölu eru tankar nokkuð fyrirferðamiklir.
Öll eru
þessi mannvirki í ágætis ástandi og hafa þau elstu verið endurbyggð, breytt og
aðlöguð breyttum aðstæðum.
Athafnasvæði frá bryggjukanti og að vogarhúsi og gömlu soðstöð.
Fjarst yfirbyggðar hráefnisþrær og hráefnisgeymar.
Norðurendi þurrkarahúss er lengst til hægri á myndinni.
Þurkarrahús séð frá vestri.
Þurkarrahús séð frá norðri.
SR-46 verksmiðjan séð frá norðri.
Mjölgeymsla"Ákavíti" séð frá norð-vestri.
Verksmiðjuhús séð frá vestri.
Byggingar SVN með rauðum þökum.
Samantekt þessi er gerð af Ómari Haukssyni
Athugasemdir