Horfin verkþekking

Horfin verkþekking Ég hef verið að fylgjast með bátasmíði að gamalli fyrirmynd hjá Hjalta Hafþórssyni undanfarið á síðunni www.tile.is sem gengur öðru

Fréttir

Horfin verkþekking

Ég hef verið að fylgjast með bátasmíði að gamalli fyrirmynd hjá Hjalta Hafþórssyni undanfarið á síðunni www.tile.is sem gengur öðru nafni undir heitinu Bátasmíðavefur- arfur aldanna.
 
Hjalti er sonur Hafþórs Rósmundssonar og Brynju Gísladóttur.
 
Á síðunni er mikið af fróðleik og myndum, hvort sem það er í sambandi við smíði á bátum að gamalli fyrirmynd til hjátrúar við smíði á bátum fyrr á öldum.
 
Hjalti hefur fengið dygga aðstoð hjá föður sínum sem hefur aðstoðað hann eftir fremsta megni í sambandi við smíð á bátnum.
 

Ég hafði samband við Hjalta og leitaði eftir upplýsingum um bátinn og hvers vegna Hjalti hefði ákveðið að fara út í að smíða akkúrat svona bát. 

tile

Og hér fyrir neðan er svo svarið sem Hjalti sendi mér.
 
 
Frá Hjalta.
 
Það er til teiknuð mynd af þessum bát í Jónsbókarhandriti frá síðari hluta 15 aldar. Myndin er auðvitað kubbsleg og öll úr hlutföllum. Lúðvík Kristjánsson fjallar lítilega um þessa mynd í Íslenskum sjávarháttum. Um teikninguna segir hann, "myndin, sem mun eiga að sýna setningu, gæti teiknarinn hafa haft í huga réttan borðafjölda í byrðingi og lot,  sem væru ekki fjarri lagi. Hafi svo verið, hefur báturinn verið mjög breiðbyrtur. Framstefni kemur nær lóðrétt á kjöl, en hinsvegar eru nokkur afturlot". með öðrum orðum, mögulega er höfundur myndar að sína okkur hvernig fiskibátar þess tíma litu út.

Við fyrstu skoðun á myndinni virðist um venjulegan feræring að ræða, en þegar nánar er litið á myndina sést að báturinn er umfarinu hærri að framan en aftan. Til að ganga úr skugga um það að ekki væri um mistök að ræða hjá teiknara dró ég myndina upp aftur í myndvarpa, en án fólksins, og sést þá vel að línurnar eru dregnar eins á stjórnborðs- og bakborðshlið. Af því má ætla að báturinn sé rétt dreginn upp hjá höfundi myndar. Er því hér kominn teikning af bátagerð sem er alls ólík því sem við síðar þekkjum af bátagerð okkar.  Það er því skemmtilegt til þess að hugsa að þarna sé eitthvað nýtt og ólíkt því sem við þekkjum í bátagerðum hjá okkur.
 
tileHér er myndin úr handritinu sem Hjalti talar um.
 
tile

Vegna þessa sérstaka útlits ákvað ég að nota þessa teikningu sem fyrirmynd af þeim báti sem ég smíðaði í II hluta verkefnisins, Horfin verkþekking, þar sem ég held áfram í því að þreifa mig áfram í þeim vinnubrögðum sem forverar okkar notuðu við smíðar á svona bát, ásamt því sem fylgir í vali á rekavið til smíðanna en efnið í bátinn kemur frá Ströndum, nánar tiltekið frá Sigursteini í Litlu Ávík.
 
Verkefnið er styrkt af Mennta og menningarmálaráðuneyti Íslands. 
 
tile
Myndir við umfjöllun eru fengnar af síðunni hjá Hjalta. www.tile.is
 
tile
 
tile
 
tileHér eru þeir feðgar við bátinn, Hjalti og Hafþór.
 
tileHafþór að spá aðeins í þetta.
 
tile
 
Þetta er sannkölluð glæsismíð og það verður gaman að fylgjast nánar með Hjalta í framtíðinni.

Athugasemdir

30.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst