Horft yfir brekkuna

Horft yfir brekkuna Mér reiknast svo til að þessi mynd sé tekin snemma vors árið 1967, en það gæti þó vel verið árinu fyrr eða síðar. Ég fæ ekki betur séð

Fréttir

Horft yfir brekkuna

Mér reiknast svo til að þessi mynd sé tekin snemma vors árið 1967, en það gæti þó vel verið árinu fyrr eða síðar. Ég fæ ekki betur séð en að sá sem er þarna lengra til vinstri sé Óli Kára og sá sem stendur fyrir framan hann sé Úlli Gull bróðir m.a. Erlu og Birnu Gull. Annars eru fordæmi fyrir því að ég sé ekki sá allra gleggsti á gamlar mannamyndir eins og nýleg dæmi sanna og einhverjir lesendur siglo.is hafa kannski orðið varir við.

Eitt af því sem gæti vakið athygli þeirra sem ekki þekkja eða muna þennan tíma, er bræðslureykurinn sem liggur yfir bænum eins og þokuslæða. Hann var á sínum tíma talinn skýrt merki um að hjól atvinnulífsins snérust með nokkuð eðlilegum hætti, að atvinnuástandið væri þar af leiðandi í góðu lagi sem þýddi góða afkomu og velsæld bæjarbúa. 
Annað sem í það minnsta gamlir Brekkubúar rækju eflaust augun í, eru húsin við Háveg og Hverfisgötu sem nú eru horfin fyrir margt löngu síðan og komin er tenging milli Hverfisgötu og Hávegs í formi ávalrar og mikið uppbyggðar risabeygju.

leó

Húsið sem er merkt no. 1 á þessari kroppuðu mynd er Aðventistakirkjan, en hún bar á sínum tíma húsnúmerið 10 og tilheyrði Hverfisgötunni. Einhvern tíma nokkru fyrir miðja síðustu öld mun hafa verið lítill söfnuður Aðventista á Siglufirði sem átti og rak þetta guðshús og mínar heimildir herma að Hólmkell Jónasson verkamaður (1893-1955) og Jósefína Hólmfríður Björnsdóttir húsfrú (1894-1981) hafi haft einhvers konar umsjón með því síðustu árin sem einhver starfsemi var þar. Þau munu þá hafa búið í næsta nágrenni við kirkjuna, eða að Hverfisgötu 12 sem merkt er no. 3 á myndinni. Mig minnir að í gólfi hússins hafi verið svolítil þró sem gegndi hlutverki laugarinnar sem notuð var til niðurdýfinga sóknarbarna. Í minni barnæsku stóð það lengst af autt og ónotað, eða allt þar til það var selt og því breytt í bílageymslu. Kaupendur hússins voru lítill hópur bíleigenda úr næsta nágrenni þess, Siggi Þór, Raggi Sveins, hugsanlega Elli Magg og líklega einhverjir fleiri. Húsið var svo rifið þegar gatan var breikkuð og malbikuð, en lóðin gerð af bílastæði sem nýttist stundum afar vel sem snjógeymsla yfir háveturinn.

Í húsinu sem er númer 2 á myndinni bjuggu Páll og Gyða ásamt börnum sínum sem voru Svanur, Valur, Örn, Björg, María, Guðmundur og Kristín (vonandi fer ég rétt með), en það hefur verið þröngt á mannskapnum því eins og sjá má, því greinilegt er að ekki hafa verið margir fermetrar til skiptanna. Mig minnir að húsið hafi verið rifið eitthvað í kring um árið 1970. Algengast var að gömul hús eins og þau sem hér eru til umfjöllunar, hafi verið klædd með bárujárni, en þetta var að því leyti frábrugðið að það var klætt með tjörupappa sem var síðan annað hvort kalkaður eða bronsaður.

Í húsinu númer 12 við Hverfisgötu ásamt meðfylgjandi gripahúsi sem merkt er no. 3 á myndinni og áður er getið, bjuggu í mínu ungdæmi þau Elías Ísfjörð (1927-1988) og Aðalheiður Þorsteinsdóttir (1925-2000) ásamt börnum sínum Kristjáni, Þorsteini, Rafni, Gísla, Dagmar, Heiðari, Sólrúnu og Sigurbjörgu. Þar hefur einnig verið þröngt á þingi í litlu húsi eins og var reyndar svo víða fyrir u.þ.b. hálfri öld. Ekki veit ég hverjir eigendur þess voru áður en þau Hólmkell og Jósefína bjuggu þar, en mig minnir að Björn Jónasson hinn eldri sem oft var kallaður “Keyrari” hafi annað hvort átt það í stuttan tíma á eftir þeim eða þá séð um sölu þess til Elíasar og Heiðu. Það er auðvitað mjög sennilegt þar sem Björn og Hólmkell voru bræður. Húsið var síðan rifið annað hvort um svipað leyti og Aðventistakirkjan eða fáeinum árum síðar.

Í húsinu sem er númer 4 á myndinni bjuggu hjónin Garðar Jónasson (1898-1981) sem var bróðir þeirra Björns og Hólmkells og Guðrún Ástvaldsdóttir (1892-1966) ásamt sonum sínum Óskari og Jónasi. Jónas flutti að heiman og úr bænum þegar hann óx úr grasi, en Óskar var heimakærari og eftir fráfall þeirra bjó Óskar (1924-2003) þar einn. Húsið var skráð númer 14 við Hverfisgötu þrátt fyrir að standa miklu nær Brekkustíg. 
Þetta hús var þó ekki rifið eins og hin, heldur fluttu þeir “Stormabræður” Ómar Hauksson og Árni Jörgensen það yfir á Saurbæjarás handan fjarðarins. Þar er það nú nýtt sem frístundahús og er í eigu Ómars “síldarspegúlants”.
Garðar hélt nokkar kindur í útihúsi á lóðinni eins og svo algengt var í bænum hér áður fyrr, en fluttist svo með þær í fjárhúsin sem stóðu fyrir ofan Jónstúnið. Þá fékk útihúsið á lóðinni nýtt hlutverk og var breytt í bílskúr. Það var annað hvort árið 1962 eða 63 sem Óskar keypti sér splunkunýja og fagurrauða Volkswagen bjöllu sem hann átti allt fram á sinn síðasta dag. Sögur gengu um að í kring um árið 2000 hafi bíllinn ekki verið ekinn nema 7000 km, aðrir sögðu 14.000 km. Það má svo sem einu gilda því hvort tveggja er órtúlega lítið miðað við næstum því 40 ára gamlan bíl. Einnig gekk sú saga að Hekla sem var og er umboðsaðili fyrir Volkswagen, hafi boðið honum nýjan Póló í skiptum fyrir bílinn, en Óskar sem var bæði fastheldinn á sitt og lítið gefinn fyrir breytingar, hafi bara viljað eiga sinn Bjöllu áfram. Hvort satt er eður ei, þá er sagan góð og segir alveg heilmikið um manninn. En það er hins vegar alveg víst að bíllinn var geymdur stærsta hluta ársins inni í skúrnum og númerin ekki sett á hann fyrr en sumarið var alveg örugglega komið. Þá voru teknir fáeinir bíltúrar niður í bæ næstu vikurnar og bíllinn færður til skoðunar. Þegar haustið nálgaðist voru númeraplöturnar svo lagðar inn aftur og hin fagurrauða Bjalla hvarf sjónum manna fram á nærsta sumar.

Flestar upplýsingarnar hér að ofan eru skráðar samkvæmt minni sem er langt frá því að vera óbrigðult og sumar minningarnar eru reyndar farnar að hverfa örlítið inn í lágþokubakka gleymskunnar. Allar leiðréttingar svo og viðbótarupplýsingar eru því þegnar með miklum þökkum.

Mynd og texti: Leó R. Ólason.

Athugasemdir

27.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst