Jói Ott og harðfiskurinn frá Eysteini í Fiskbúðinni
Þegar Jói Ott er kominn í land eftir cirka mánuð á sjó er oft það fyrsta sem hann gerir er að hringja í mig og biðja mig um að taka nokkrar myndir af sér.
Það er ekkert sjálfsagðara en að taka myndir af þessum skemmtilega manni sem kemur mér alltaf til að hlæja. Það er einhvernveginn nóg fyrir mig að horfa á hann þá brosi ég. Ekki það að hann sé svona hlægilegur útlits, hann er bara svo hrikalega skemmtilegur.
En núna vildi Jói endilega fara í Fiskbúð Siglufjarðar og kaupa harðfisk hjá Eysteini. "Eysteinn er með bezta harðfiskinn" sagði Jói, fékk 2 harðfiskflök hjá Eysteini. "Taktu nú vel eftir" segir hann þegar við gengum út úr fiskbúðinni frá Eysteini.
Ég var ekki alveg viss um hvað hann meinti, ég var ögn áhyggjufullur yfir þessum orðum hans með að "taka vel eftir" og var orðinn smeikur um að hann ætlaði að sýna einhver töfrabrögð og troða báðum harðfiskflökunum upp í sig í einu og reyna að láta þau hverfa. Og það var nú eiginlega ekki það sem ég vildi. Að sjá Jóa Ott standa á öndinni með harfisk fastan í hálsinum út á torgi og ég að reyna að hrista flökin upp úr honum með "heimlich" takinu, væri vafalaust furðuleg sjón og alls ekki túristavæn. En svona getur óttinn og ímyndunin hlaupið með mann í gönur.
Sem betur fer var þessi ótti minn um harðfiskgleypingar Jóa Ott ástæðulausar. Um leið og Jói sást með harðfiskinn fyrir utan fiskbúðina þá byrjaði það.
Fyrstur kom Finni Hauks og nældi sér í bita. Svo kom Velli út úr Fiskbúðinni og Eysteinn á eftir. Eysteinn var að vísu ekki að reyna að ná sér í bita, hann var bara að fara að ná í Abbý.
Við gengum áfram og Finni að sjálfsögðu með okkur og náði sér í nokkra bita í leiðinni ásamt því að við ræddum aðeins um Kótelettuklúbbinn og ostborgara og franskar.
Þegar við staðnæmumst fyrir utan bankann kemur Egill Rögnvalds og fær sér að sjálfsögðu einn til tvo bita og ræddi við okkur um skíðasvæðið. Svo kemur Steinar Liverpool maður og fær að sjálsögðu að smakka.
Næstur í harðfiskinn kemur Óli Jóns bankastjóri aðvífandi og nælir sér bita líka.
Eftir örskamma stund kemur Hófí út úr bankahvelfingunni og gengur yfir götuna til okkar, án þess að horfa til beggja hliða og fær sér bita af harðfisknum góða, meira að segja nokkra.
Á þessum tímapunkti var ég orðinn gjörsamlega orðlaus af undrun og leið örugglega svipað og einum af lærisveinunum þegar Jesús var að gefa fiskinn hér forðum. Hér var ég í hlutverki lærisveins og Jói í hlutverki Jesú. Jói var búinn að metta hálfan bæinn af 2 harðfiskflökum . Í restina koma Daði Steinn og hjálpaði Jóa að klára áður en Jói komst í bankann og apótekið.
Næst þegar Jói hringir þá vona ég að hann biðji mig ekki um að koma út á Langeyrartjörn og taka myndir af því
þegar hann gengur á vatni.
En það þarf víst ekki að taka það fram að harðfiskurinn frá Eysteini er einn sá bezti sem hægt er að ná sér
í.
Jói alveg snarspentur.
Jói að kaupa harðfiskinn hjá Eysteini.
Kominn með harðfiskinn í hendurnar.
Eysteinn.
Finni Hauks var fljótur að renna á lyktina.
Eysteinn, Velli og Jói.
Finni og Óli að slást um fiskinn. Takið eftir
því hvað Jói er hissa á því hvað þeir taka mikið í einu.
Egill rann á lyktina.
Steinar mættur í fiskinn.Og Jói spáir í
það hvað sé mikið eftir.
Hófí gat ekki sleppt þessu einstaka
tækifæri.
Hófí.
Daði Steinn fékk smávegis.
Og á þessum tímapunkti var harðfiskurinn hans Jóa
Ott alveg að klárast.
Athugasemdir