Fréttabréf Fáum
Stjórn Fáum ákvað á síðasta fundi sínum að senda út fréttatilkynningu til allra félagsmanna. Tilkynningin kemur hér á eftir. Í framhaldi af fundinum var haldið jólakaffi Síldarminjasafnsins. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tækifæri.
Ágæti félagsmaður.
Þér er þakkaður stuðningur við FÁUM á liðnum árum. Frá upphafi var aðaltilgangur félagsins að byggja upp Síldarminjasafn – og eftir að því lauk hefur félagið m.a. það hlutverk að tilnefna aðal- og varamann í stjórn safnsins. Einnig hefur það unnið að öðrum verkefnum í þágu sögu Siglufjarðar. Þessi eru þau helstu:
FÁUM og Örnefnafélagið Snókur gerðu með sér samning á árinu 2010 sem kveður á um að FÁUM annist rekstur á heimasíðu örnefnafélagsins. Snókur hefur eftir sem áður faglega umsjá með síðunni, svo sem að uppfæra efnisatriði og svara fyrirspurnum. Til að standa straum af kostnaðarþáttum lagði Örnefnafélagið fram bankabók með verulegri upphæð. Formaður Snóks og aðalhvatamaður örnefnastarfsins er Hannes Baldvinsson. Ábyrgðarmaður um meðferð fjárins er starfsmaður Síldarminjasafnsins sem jafnframt er fulltrúi í stjórn FÁUM. Slóðin á heimasíðuna er: http://snokur.is/
Skíðaminjadeild FÁUM var einnig sett á laggirnar á árinu 2010. Þá varð Skíðafélag Siglufjarðar 90 ára og má segja að þau tímamót hafi verið kveikjan að því að nokkrir áhuga-menn fóru að huga að söfnun skíðaminja. Þeir Bjarni Þorgeirsson, Jón Andrjes Hinriksson, Benóný Sigurður Þorkelsson og Rögnvaldur Þórðarson leituðu til FÁUM um að stofnuð yrði skíðaminjadeild innan félagsins. Þessi umleitun þeirra var samþykkt á fundi FÁUM þann 20. febrúar 2010 með undirskrift formlegs samnings. Aðalmarkmið skíðaminjadeildar er að safna gripum, ljósmyndum og öðrum heimildum sem tengjast skíðaiðkun Siglfirðinga á liðinni öld svo opna megi skíðaminjasafn eða standa fyrir sýningum á þessari merku sögu. Vorið 2010 var opnaður vísir að þessu safni í gamla Ísafoldarhúsinu við Gránugötu. Starfsmenn Síldarminjasafnsins eru þeim innan handar með skráningu gripa og uppsetningu sýninga.
FÁUM styrkti þrjú verkefni á árinu 2011. Félagið styrkti útgáfu tveggja siglfirskra bóka, Sögu úr síldarfirði sem gefin var út af Síldarminjasafninu og bókina um séra Bjarna Þorsteinsson sem gefin var út af Þjóðlagasetri séra Bjarna. Auk þess hlaut Úra- og silfursmíðaverkstæðið á Eyrargötu styrk til sýningar sem þar er.
Þeir sem ekki búa í Fjallabyggð fá sendan frímiða á Síldarminjasafnið. Miðinn gildir ótímabundið sem aðgöngumiði fyrir félagsmenn. Minnum á að frítt er inn á safnið fyrir íbúa Fjallabyggðar.
Að lokum viljum við biðjast velvirðingar á því ef einhverjir sem þetta bréf fá hafa sagt sig úr félaginu. Greiðsluseðillinn fer ekki í innheimtu sé hann ekki greiddur. Athugasemdir berist í tölupósti á netfangið safn@sild.is eða í síma 467-1604.
Með bestu kveðjum og von um að við getum áfram lagt nokkuð af mörkum í þágu sögu Siglufjarðar.
Þór Jóhannsson, Sigurður Hafliðason og Rósa Margrét Húnadóttir
Sturlaugur Kristjánsson, Páll Helgason, Sveinn Þorsteinsson og Anita Elefsen
Halldóra Jónsdóttir, Hannes Baldvinsson, Þór Jóhannsson og Sigurður Haflíðason
Rósa Margrét Húnadóttir, Bjarni Þorgeirsson og Sturlaugur Kristjánsson
Texti: Rósa Margrét Húnadóttir
Myndir: GJS
Athugasemdir