Karlar sem hata konur og karlar sem elska
Í dag er annar dagur jóla, eða "annar í jólum" eins og flest okkar segja. Þess vegna ætla ég að breyta aðeins til og birta hugvekju í stað fréttar.
Það sem hér fer á eftir er hluti úr ræðu sem Sigurður Árni Þórðarson flutti 26. desember 2011 í Neskirkju, og mér finnst eiga vel við núna.
Jósef aukaleikari eða aðalmaður
Annar jóladagur í dag. Guðspjallstexti dagsins í Mattheusarguðspjalli er ljómandi til að skerpa sálar- og samfélagssjónina. Í
forgrunni er karl í vanda. Jósef hét hann, bjó í Nasaret og lenti í siðklemmu, sem hann varð að losna úr. Jósef kemur við
sögu í jólatextunum. En hvergi í Biblíunni er þó haft eftir honum eitt einasta orð. Jósef var þó maðurinn, sem gekk
Jesú Kristi í föður stað. Hann hefur ábyggilega talað mikið við Jesú í gegnum tíðina. Við getum verið viss um, að
hann hefur verið klár karl, því Jesús var háður ytri aðstæðum og uppeldi eins og við hin. Hann hefur væntanlega rabbað við
Jesú við hefilbekkinn, en í Biblíunni er Jósef þó orðlaus.
Í mest leikna leikriti veraldar, helgileikjum um fæðingu Jesú, er hann einn af leikurunum. Í uppfærslunum, t.d. í skólum og kirkjum á aðventunni, er hann jafnan í aukahlutverki og segir fátt eða ekkert. Í jólasálmunum er Jósef alltaf nærri, en segir þar ekkert heldur. Í raun gætum við alveg sagt, að hann væri alger aukaleikari í mikilvægasta drama heimsins. Vegna þess tökum við varla eftir honum. En hvernig hann tók ákvörðun í siðklemmu opinberar eftirtektarverða getu hans og manndóm.
Kostir og siðklemma
Siðklemman var þessi: María, konan sem Jósef var trúlofaður, hafði komið ólétt úr heimsókn hjá frændfólki
sínu. Þungun Maríu var metin til samfélagsflekkunar og talið svo alvarlegt mál að hana mátti lífláta. Hvað átti nú
Jósef að gera? Kostirnir voru þrír og því miður allir vondir. Jósef gat dregið Maríu til ábyrgðar og grýtt hana til
dauða. Það var nú eiginlega ekki kostur nema fyrir grimmlynda tudda. Annar kosturinn væri að skilja við hana. Aðferðirnar voru tvær: Að gera
mikið úr á torgum og slíta trúlofun með svo miklum látum, að ekki færi framhjá neinum. En svo var líka hægt að
ljúka málinu í kyrrþey, kalla til vitni á lokaðan fund, gera grein fyrir aðstæðum og slíta trúlofun í ljósi brota.
Síðasti kostur Jósefs væri svo að láta svívirðuna yfir sig ganga.
Jósef var valdi kost númer 2. Hann hafði enga löngun til að auglýsa áfall sitt í Slúðrað og Slefað sinnar samtíðar eða draga óhappakonu í svaðið umfram það sem orðið væri. En Jósef hugsaði sér að skilja í kyrrþey. En einn morguninn rumskaði hann við draum og mundi hann. Og draumurinn breytti afstöðu Jósefs. Hann gerði sér allt í einu grein fyrir að hefð og reglur væru eitt og lífið, sem væri kviknað væri annað. Jósef tók því allt aðra stefnu en búast hefði mátt við. Hann tók á móti sveininum, tók eiginlega framtíð heimsins í fang sér og breytti þar með sögunni. Tuddinn hefði meitt og drepið en Jósef gaf líf. Ein vídd helgisögu jólanna er því lífgefandi karlmennska. Karl sem elskar konu og barn. Barnahjálp Biblíunnar og þar með fyrirmynd allra, sem þora að breyta sögunni.
Í þágu annarra
Jósef var enginn aukapersóna heldur maður sem tók ákvörðun - ekki orðlaus heldur orðvar, ekki hugsunarlaus stjúpi heldur íhugull
trúmaður, ekki maður með allt vitið útvortis í vöðvum – heldur ábyrgur maður, sem þorði að skoða fleira en eigin hag
eða langanir.
Jósefsglíman var öll á dýptina, öll hið innra. Jósef var í sambandi við sjálfan sig, samfélag sitt, gildi, Guð og heilbrigði. Ef hann hefði verið tuddi hefði hann losað sig við Maríu og farið sína leið. Saga veraldar hefði orðið önnur. En hann axlaði ábyrgð, var tilbúinn að horfast í augu við aðstæður og vinna úr krísunni. Þess vegna var hann fullkomlega heppilegur uppalandi Jesú, gat veitt honum aðhald og stuðning. Ákvörðun hans í siðklemmunni var hin afdrifaríkasta og hann hvikaði ekki frá stuðningi við konu, fjölskyldu og þar með Jesú. Ákvörðun við upphaf hjúskapar stóð allt til enda.
Hvers konar nálgun?
Hvað gerir þú, þegar þú verður fyrir áfalli eða lendir í klemmu? Veifarðu bara einum hörðum? Lemurðu frá
þér, tuddastu áfram, hreykir þú þér á annarra kostnað? Kaupir þú þig út úr kreppunni eða hugsarðu
með þér hvað þetta geti kennt þér og til hvers ákvarðanir þínar leiða? Ef þú þarft að velja um eigin hag
eða hag fjöldans ferðu leið Jóseps? Hvort gefur þú fólkinu þínu tilfinningar eða hnefann, ást eða hatur?
Í huga Jósefs var ekki aðalatriði, hvernig málin litu út hið ytra, heldur hvað hann gæti gert fyrir fólkið sitt. Líf hans var í tengslum við aðra og í samhengi. Jósef brást við með umhyggju. Hann var karl sem elskaði konu sína, elskaði börnin og gerði hvað hann gat til að næra til visku.
Hlutverk okkar?
Karlar sem hata konur - þeir eru ekki bara í útlöndum og bíómyndum. Slíkir karlar geta orðið til alls staðar, ekki aðeins í
fornöld eða Svíþjóð – nú eða einhverjum menningarkima. Slíkir karlar verða til mitt á meðal okkar, á okkar eigin
heimilum. Við eigum því að vanda okkur í uppeldi. Við eigum að styrkja feðurna enn til samskipta við börn sín. Feðraorlof er t.d.
dásamlegur vettvangur tengslamyndunar. Engir foreldrar vilja, að dætur þeirra séu beittar ofbeldi. Dætur okkar og synir, allt fólk í umhverfi okkar
á að fá að njóta hæfileika sinna án heftinga. Haturshópar eiga ekki að fá starfsfrið og ofbeldiskúltúr ætti að
senda í endurvinnsluna. Nú eigum við að leyfa draumum okkar að vitja okkar. Reynum að muna drauma okkar, vitja stóru draumanna um raunverulega karla og
raunverulegar konur. Og bönnum lausagöngu karltrölla í almannarýminu.
Svo er það aðaldraumurinn sem rætist. Hvert er mál jólanna? Að Guð elskar, kemur sjálfur, jafnvel í líki hins varnarlausa barns, sem er ofurselt vali fólks, sem getur brugðist við með ýmsu móti, allt eftir því hvaða mann það hefur að geyma. Val okkar er algert, um eigin velferð, velferð okkar fólks, já raunar alls heimsins. Sveinn jólanna líður engan tuddaskap, heldur vill upplýsa skuggaverur. Guð jólanna vill öfluga elskandi karla, en líka öflugar konur sem elska. Að Guð verður maður varðar köllun okkar til elsku, visku og öflugs ástalífs. Hvað sem þú heitir og hver sem þú ert beinist ástin að þér. Þér er boðið að elska til lífs.
Ræðuna í heild má finna hér.
Athugasemdir