Kertamessan í Siglufjarðarkirkju
sksiglo.is | Almennt | 29.10.2013 | 12:30 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 493 | Athugasemdir ( )
Eftir sunnudagssteikina síðastliðið sunnudagskvöld ákvað ég að skella mér í kertamessu í Siglufjarðarkirkju á meðan hún Ólöf mín gekk frá eftir matinn og kom stúlkunum okkar í rúmið.
Hvað er betra eftir góða sunnudagssteik en að skella sér í kertamessu?
Þeir tóku þar á móti mér skólabræðurnir Sigurður prestur og Jón Andrjes meðhjálpari. Þegar þeir sáu að svona rammvilltur og týndur sauður var að koma til kirkju lifnaði yfir þeim og þeir breiddu út faðminn og föðmuðu mig af alúð og buðu mig velkominn. Mér leið svo undarlega vel eftir þessar móttökur að þetta var svipað því að fá blandaða sykraða ávexti í skál og rjóma yfir allt saman eftir steikina.
Þægileg birta af kertunum, ómþýð rödd séra Sigurðar og tveggja fermingarbarna vetrarins, Guðmundar Árna Andréssonar og Klöru Rutar Gestsdóttur, sem lásu þar hugvekjur með honum, allt sameinaðist þetta um að gera stundina sem eftirminnilegasta. Og svo kirkjukórinn á fremsta bekk syngjandi eins og englar. Þetta var allt svo róandi og þægilegt að ég held svei mér þá að ég hefði getað setið rólegur þarna í 2 tíma án þess að sofna. Og það er víst ekkert sjálfgefið segir Ólöf að ég geti setið rólegur einhversstaðar.
Alveg hreint ljómandi gott sunnudagskvöld og ég mæli hiklaust með því að kíkja í kertamessu þau sunnudagskvöld þegar hún er.
Hér er Sigurður að fara yfir hugvekjuna fyrir messu sem Klara las upp.
Jón Andrjes bíður spenntur eftir kirkjugestum.
Hérna var Séra Siggi nýbúin að faðma mig og bjóða týnda sauðinn velkominn til kirkju.
Hér sést Guido organisti og kórinn á fremsta bekk.
Hér er Guðmundur Árni Andrésson að lesa upp hugvekju.
Hér er Klara Rut Gestsdóttir að lesa upp hugvekju.
Athugasemdir