KF- vann stórsigur á Drangey
sksiglo.is | Almennt | 08.05.2012 | 12:00 | Guðmundur Skarphéðinsson | Lestrar 255 | Athugasemdir ( )
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar KF vann nokkuð þægilegan og öruggan sigur á Drangey um síðustu helgi í Bikarkeppni KSÍ í Boganum á Akureyri í fyrsta alvöru leik sumarsins.
Nokkuð mikið var í húfi því sigur í þessum leik þýddi að sigurliðið tæki á móti Þór miðvikudaginn 16. maí.Leikurinn byrjaði mjög vel fyrir KF því strax á 5 mín, gerðu leikmenn Drangey sig seka um mistök í vörninni og Sigurbjörn Hafþórsson komst inni í sendingu varnarmanna, hann rendi boltanum mjög óeigingjarnt á Arnór Egil Hallsson sem gat ekki annað en skorað og KF komið yfir, margir héldu eftir þessa byrjun að yrði því þægilegur dagur sem væri framundan fyrir okkar drengi. En það var nú ekki svo.
Drangeyjar strákar komust hægt og bítandi inní leikinn án þess þó að skapa sér mikið af færum. En voru hreint ekki síðri það sem eftir lifði hálfleiksins. Lárus Orri þjálfari KF var ekki par sáttur með sína drengi í hálfleik. Hann lét þá vel heyra það og skilaði það sér ágætlega inn í síðari hálfleikinn.
En drengirnir úr skagafirðinum gáfust samt ekki upp og voru nokkuð hættulegir fram á við, alveg þangað til KF bætti við öðru marki en það eru pínu áhöld um hver skoraði það mark, því Magnús Blöndal átti fasta sendingu fram völlinn á félaga sinn Arnór Egil Hallsson sem virtist aðeins snerta boltann eða a.m.k. fipa markmanninn þannig að boltinn fór beint fram hjá honum og í autt markið.
Eftir þetta mark tóku okkar drengir öll völd á vellinum og komu 3 mörk á síðustu 15 mínútum leiksins, fyrst var það Sigurjón Fannar Sigurðsson sem skoraði eftir góða hornspyrnu Eiríks Inga Magnússonar, því næst var komið að þætti Sigurbjörns Hafþórs, sem bætti við tveimur mörkum annars vegar eftir hörku skot frá Páli Einarssyni, sem er kominn að láni til KF frá ÍA og síðan bætti hann við öðru marki sínu og 5 marki KF eftir hornspyrnu aftur var það Eiríkur Magnússon sem gaf fyrir.
Drangeyjar menn skoruðu reyndar eitt mark undir lokinn og lokatölur því 5-1, nokkuð sannfærandi en samt erfiður sigur. Markmiði leiksins var þó náð en það var að komast áfram í næstu umferð og spila við Þórsara miðvikudaginn 16. maí en sá leikur verður væntanlega spilaður í Ólafsfirði, en nánar um það síðar.
Mynd á forsíðu tengist leiknum ekki.
Texti: Þorvaldur Þorsteinsson
Mynd: Aðsent
Athugasemdir