Kítónskraftur á Kaffi Rauđku laugardaginn 24.ágúst

Kítónskraftur á Kaffi Rauđku laugardaginn 24.ágúst Tónlistarkonurnar frćknu Hafdís Huld, Védís Hervör, Ragga Gröndal og Lára Rúnars leggja land undir fót

Fréttir

Kítónskraftur á Kaffi Rauđku laugardaginn 24.ágúst

Tónlistarkonurnar fræknu Hafdís Huld, Védís Hervör, Ragga Gröndal og Lára Rúnars leggja land undir fót í ágúst og spila fyrir landsmenn. Þetta er jafnframt liður í því að kynna KÍTÓN, félag kvenna í tónlist fyrir áhugasömum og hyggjast þær halda létta kynningu opna öllum kl. 17 samdægurs tónleikunum á hverjum stað. ,,Dýrindis skreppitúr um landið í faðmi skemmtilegra kvenna" segja þær um gjörninginn og hlakka mikið til að telja í. 

Lára Rúnars lauk nýlega við glæsilega tónleikasiglingu um landið með Áhöfninni á Húna og ætlar að ljúka hringnum á þjóðveginum með kynsystrum sínum sem allar eiga það sameiginlegt að vera farsælir lagahöfundar og flytjendur.

Hafdís, Védís, Ragga og Lára munu teygja anga sína á marga staði en Vestfirðirnir, Norðurland verða í aðalhlutverki í fyrsta holli túrsins eins og sjá má á dagskránni. 
 
KÍTÓN stendur fyrir konur í tónlist og er félag tónlistarkvenna á Íslandi. 
 
Félagið er stofnað 12. desember 2012 í þeim tilgangi að skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal tónlistarkvenna á Íslandi. Félagið stendur vörð um hagsmuni tónlistarkvenna og grasrót ungra tónlistarstúlkna. 

Þri 20. ágúst - Sjóræningjahúsið Patreksfirði

Mið. 21. ágúst – Bræðraborg Ísafirði

Fim. 22. ágúst – Melrakkasetrið Súðavík

föst 23. ágúst - Græni Hatturinn Akureyri

laug 24. ágúst - Kaffi Rauðka Siglufirði

Sun 25. ágúst - Gamli Baukur Húsavík 


Tónleikar hefjast kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2000 kr
 
 

Hafdís Huld hóf tónlistarferilinn með hljómsveitinni Gus Gus og síðan með bresku sveitinni FC Kahuna. Árið 2006 lauk hún framhaldsnámi frá London Centre of Contemporary Music og hefur upp frá því einbeitt sér að sólóferlinum. Hafdís Huld hefur sent frá sér fjórar plötur. Synchronised Swimmers og Dirty Paper Cup sem báðar hafa verið gefnar út á erlendum vettvangi og svo barnaplöturnar Vögguvísur og Englar í ullarsokkum sem voru gerðar fyrir Íslenskan markað. Ný plata frá Hafdísi Huld " Home " er væntanleg í haust. http://www.youtube.com/user/hafdishuld www.hafdishuld.com

 

Védís Hervör er söngkona, lagasmiður og mannfræðingur. Védís kom fyrst fram á sjónarsviðið aðeins 16 ára gömul með frumsömdu lagi sínu Finished Melody og síðasta plata hennar frá árinu 2007 A Beautiful Life - Recovery Project hlaut frábærar viðtökur og fékk hún dreifingarsamning við AWAL music að lokinni Airwaves hátíð sama ár. Védís lærði upptökustjórn og hljóðblöndun í Lundúnum. Hún starfar við ýmis konar margmiðlun, semur verk fyrir leikhús, auglýsingar og aðra tónlistarmenn ásamt því að reka lagahöfundateymi í Lundúnum. Védís hefur einnig sungið með hljómsveitinni Bang Gang víða um heim og vinnur nú að sinni þriðju sólóplötu. Nýjasta lag hennar White Picket Fence hefur vakið lukku á útvarpsstöðvum hér heima og í Skandinavíu, lagið má heyra hér: http://www.youtube.com/watch?v=FWyIakX-fkU

 

Ragnheiður Gröndal hefur verið með ástsælli tónlistarmönnum og söngkonum á Íslandi frá því hún kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2003. Hún hefur gefið út 7 geisladiska í eigin nafni með bæði eigin efni, þjóðlögum, djassi og poppi auk þess að hafa komið fram á plötum fyrir fjölmarga aðra tónlistarmenn, íslenska og erlenda, úr ýmsum geirum tónlistarinnar. Ragnheiður hefur verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna þrisvar sinnum og hlotið verðlaun þrisvar, sem söngkona ársins, bjartasta vonin og fyrir plötu ársins. Ragnheiður hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum, bæði á Íslandi og erlendis og lög með henni hafa verið mjög vinsæl í útvarpi auk þess sem plötur hennar hafa selst vel og m.a. náð platínusölu. Ragnheiður gerði samning við þýska útgáfufyrirtækið Beste! Unterhaltung um útgáfu á síðustu plötu sinni, Astrocat Lullaby í Þýskalandi og fyrirhugaðar eru tónleikaferðir á næstu mánuðum til að fylgja henni eftir. http://www.rgrondal.com

 

Tónlistarkonan Lára Rúnars sendi nýverið frá sér sína fjórðu breiðskífu, Moment. Við gerð plötunnar var Lára undir áhrifum frá tónlistarkonum á borð við PJ Harvey, St. Vincent og Lykke Li og svo tónlistarmönnum eins og John Grant en þau áhrif má finna í melódísku og angurværu indí-poppi Láru. Síðasta breiðskífa Láru Rúnars, Surprise, kom út árið 2009 en lög af henni nutu mikilla vinsælda hér á landi. Með Surprise vaknaði einnig áhugi fyrir Láru erlendis sem meðal annars lék á sérstökum tónleikum fyrir Q Magazine í London ásamt Amy MacDonald auk þess að koma fram á fjöldamörgum tónlistarhátíðum víðs vegar um Evrópu, þar á meðal SPOT, Eurosonic og The Great Escape. www.lararunars.com www.youtube.com/lararunars


Athugasemdir

04.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst