Klippari, áhugaljósmyndari, braskari og nú fréttamaður
Það hefur aldrei farið lítið fyrir klipparanum, áhugaljósmyndaranum og braskaranum Hrólfi (Rebel) Baldurssyni sem nú er loksins fluttur aftur heim á Sigló með konu sinni, Ólöfu, og dætrum, Emmu og Ellen. Einn af fréttamönnum Sigló.is hitti Hrólf og skrifaði síðan viðtal við hann.
Að sögn klipparans finnst honum gjarnan best að vera heima hjá mömmu og láta hana stjana við sig meðan hann situr uppí sófa með tærnar uppí loft. „Það er lífið“ segir hann og glottir í gegnum samanofið gráleitt (og rautt) skeggið um leið og hann súpir af kappútjínóinu sínu. En þeir sem þekkja Hrólf vita að raunin er önnur og að hann getur sjaldan setið rólegur, þó latur sé. Vitandi þetta sat Sigló.is fyrir braskaranum í Strákagöngum við komu í bæinn og gaf sig ekki fyrr en hann hafði verið fiskaður í fréttaskrif á síðuna.
Aðspurður svaraði Hrólfur engu svo fréttamaður hélt áfram að skálda í eyðurnar. Iðandi í stólnum hélt hann um Níkoninn sinn og sagði að hann hugsaði um myndavélina eins og kjellinguna sína, með þeldökkan húmor sagði hann að það væri frábært að kíkja í hana og prufa nýja hluti. Það er skemmtilegast að leika sér í hinum ýmsu birtuskilyrðum og frábært að dúndra á norðurljósin en dæmi þess má sjá hér að neðan.
Þó svo að Hrólfur hafi ekki fengið að skrifa þessa grein sjálfur hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að Rebelinn er mættur á stjá með sinn skemmtilega skrifanda. Er því gott að eyða vinnudegi sínum í að lesa greinar þessa fjölhæfa klippara.
Sigló.is býður fjölskylduna velkomna heim og lætur nokkrar myndir áhugaljósmyndarans flakka með.
Ljósmyndari: Hrólfur Baldursson
Athugasemdir