Kortakvöldið hjá Sjálfsbjörg

Kortakvöldið hjá Sjálfsbjörg Þar sem ég er fluttur niður í miðbæ Siglufjarðar þá fer svona eitt og annað alls ekki framhjá manni. Á fimmtudaginn í

Fréttir

Kortakvöldið hjá Sjálfsbjörg

Þar sem ég er fluttur niður í miðbæ Siglufjarðar þá fer svona eitt og annað alls ekki framhjá manni.

Á fimmtudaginn í síðustu viku stóð ég í stofunni heima hjá mér. Þetta var fljótlega eftir kvöldmat. Þar sem ég stend við gluggann og hugsa um hvað ég eigi að fá mér í eftir-rétt þá finn ég þessa líka offsalega fínu vöfflu lykt. Ég hugsaði með mér að nú hafi ég verið bænheyrður og Ólöf væri byrjuð að baka vöfflur handa mér. En það var nú reyndar ekki svo gott.

Ég lét Ólöfu vita að ég ætlaði að kíkja í göngutúr og taka nokkra myndir. Og ég auðvitað lofaði henni að dást að því hvað ég væri duglegur að fara út að labba. Og það var meira að segja smá hríð. Ég klæði mig pollrólegur í útifötin, lét eins og ég nennti þessu eiginlega ekki og rölti í átt að útidyrahurðinni og hugsaði með mér að lyktin gæti ekki verið frá Kobba í Aðalbakaríinu. Það var sunnudagur, klukkan hálf níu að kvöldi til og Kobbi byrjaði líklega ekki að baka fyrr en um fjögur um nóttina.

Þegar út var komið fór ég nú heldur betur að gefa í og labbaði mjög hratt í átt að vöfflu-lyktinni. Á smá tímabili var ég næstum því farin að hlaupa. Þegar ég nálgast hornið á Aðalgötu og Lækjargötu sá ég allt að því lyktina. Á horninu stóð ég í cirka 2 sekúndur og þá rann það upp fyrir mér. Sjálfsbjörg!!! Að sjálfsögðu Sjálfsbjörg (Lækjargata 2).

Ég hljóp að Sjálfsbjargarhúsinu sem er annað hús frá horninu á Aðalgötu-Lækjargötu og staðnæmdis fyrir utan dyrnar hjá þeim í líklega í 10 mínútur til þess að ná andanum eftir öll hlaupin. Inn rölti ég og býð góða kvöldið. Þar var mér tekið opnum örmum, boðið í vöfflur, kaffi og spjall. Þarna var verið að framleiða jólakort og þau voru alls ekki af verri endanum. Hægt var að versla poka með fullt af jólakortum sem átti eftir að skreyta á mjög sanngjörnu verði. Og allt skraut innifalið. Að sjálfsögðu keypti ég einn pakka handa Ólöfu sem hún getur dundað sér við að útbúa þegar ég fer í göngutúra um bæinn á kvöldin.

Ég leit líka aðeins yfir gler og keramik listaverkin sem eru framleidd hjá Sjálfsbjörgu og það er alveg óhætt að segja það að þar fást hörkuflottar jólagjafir á vægast sagt mjög góðu verði. Og takið eftir fótbolta-diskunum fyrir alla fótbolta unnendurna.  

Ég mæli sterklega með því að þið kíkið inn í Sjálfsbjargarhúsið og virðið fyrir ykkur listaverkin sem eru gerð þar og hugsanlega getið þið verslað eitthvað ljómandi fallegt. Svo geti þið líka fengið að taka þátt í listaverka-smíðunum.

sjálfsbjörgSveinn Ástvaldsson var hinn hressasti og reitti bókstaflega af sér brandarana eins og honum einum er lagið.

sjálfsbjörgÞessi unga stúlka föndraði jólakortin alveg listavel.

sjálfsbjörgAnna Vignis að spá í hvaða skraut væri best að setja á næst.

sjálfsbjörgKolla Símonar sýndi mér það sem var verið að framleiða hjá Sjálfsbjörg og þetta er vægast sagt allt saman mjög fallegt.

sjálfsbjörgHafdís, Gréta og Magna sáu um að nóg væri til af vöfflum. Þetta vöffluhorn var alveg hreint ljómandi skemmtilegt.

sjálfsbjörgSigríður Katrín eða Sigga Kata eins og flestir þekkja hana og María Lillý spá og speggúlera í skrauti.

sjálfsbjörgHér heldur Björg á sölupakkningunum sem hafa að geyma jólakortin. 

Og svo miklu meira af myndum hér.


Athugasemdir

01.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst