Lati-Brúnn fundinn

Lati-Brúnn fundinn Skrokkur hákarlaskipsins Lata-Brúns er fundinn. Það var kafarinn Erlendur Guðmundsson á Akureyri sem fann hann er hann kafaði í

Fréttir

Lati-Brúnn fundinn

Mynd af hafsbotni
Mynd af hafsbotni

Skrokkur hákarlaskipsins Lata-Brúns er fundinn. Það var kafarinn Erlendur Guðmundsson á Akureyri sem fann hann er hann kafaði í Siglufirði 1. júlí síðastliðinn.

Með honum í för var Pétur Davíðsson. Meðfylgjandi mynd tók Erlendur og sendi Síldarminjasafninu og sjást þar tvö af böndum skipsins sem rísa upp úr sandbotninum og móta útlínur skipsins. Fyrir þremur árum stóð safnið að leit sem gerð var að Lata-Brún í samvinnu við kafaraklúbb í Reykjavík þar sem Einar Magnús Magnússon og Árni Kópsson komu við sögu ásamt Björgunarsveitinni Strákum.

Leitin að þessu gamla skipi bar þá ekki árangur vegna slæms skyggnis af völdum þörungagróðurs. Lati-Brúnn var eitt af fyrstu þilskipum Siglfirðinga og byggður á Eyrinni 1857 af Jóhanni Kröyer í Höfn. Hann gekk til hákarlaveiða til 1910 en eftir það notaður til síldveiða í allmörg ár og síðast var hann notaður sem slógprammi í höfninni.

Hann sökk 1928 þar sem hann lá bundinn við Svíastaurana svokölluðu syðst á Pollinum.

Staðsetning á Lata-Brún kemur heim og saman við upplýsingar frá Jörgen Hólm og Birni Þórðarsyni frá árinu 1990 og teiknað var þá á kort Síldarminjasafsins yfir fornleifar á hafsbotni Siglufjarðar.


Texti: ÖK

Mynd: Kafarinn Erlendur



Athugasemdir

08.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst