Létu ekki ófæran eyðifjörð stöðva sig

Létu ekki ófæran eyðifjörð stöðva sig Bakaríisbíll, reiðhjól, vélsleði, fólksbíll, dráttarvél og tveir jafnfljótir. Svona hefst stórskemmtileg grein eftir

Fréttir

Létu ekki ófæran eyðifjörð stöðva sig

Félagarnir Daníel Pétur Daníelsson og Guðni Brynjó
Félagarnir Daníel Pétur Daníelsson og Guðni Brynjó

Bakaríisbíll, reiðhjól, vélsleði, fólksbíll, dráttarvél og tveir jafnfljótir.  Minna dugði ekki til að tveir Siglfirðingar og áhugaleikarar kæmust á æfingu í Ólafsfirði í óveðrinu sem gekk yfir landið. Vandræði höfuðborgarbúa við að koma sér í vinnuna í gær blikna í samanburði við ófærðina sem þeir Daníel Pétur Daníelsson og Guðni Brynjólfur Ágústsson sigruðust á.

„Við verðum enn innilokuð hér eins og áður en göngin komu, en það má alltaf redda sér. Allt fyrir leiklistina!“ segir Daníel Pétur sem lét ófærðina í Fjallabyggð ekki stoppa sig frá því að mæta á leikæfingu, enda verður frumsýnt annað kvöld.

Göngin breyttu miklu en ekki öllu

Á reiðhjólum með körfu og skíðagleraugu í Héðinsfjarðargöngum.

Á reiðhjólum með körfu og skíðagleraugu í Héðinsfjarðargöngum.Ljósmynd/Daníel Pétur Daníelsson

Um er að ræða fyrstu sameiginlegu uppsetningu leikfélags Ólafsfjarðar og leikfélags Siglufjarðar, leikritið Stöngin inn í leikstjórn Guðmunds Ólafssonar. Að sögn Daníels Péturs er þetta fyrsta skrefið í átt að sameiningu leikfélaganna tveggja, en áður en Héðinsfjarðargöng voru opnuð árið 2010 var lítill grundvöllur fyrir sameiginlegu félagsstarfi milli bæjanna.

Daníel Pétur segir göngin mikla samgöngubót en það breytir því þó ekki að stundum, eins og í gær, er samt sem áður kolófært milli bæja. Að minnsta kosti að nafninu til, en úrræðagóðir menn grípa til sinna ráða þegar mikið liggur við.

„Gengið í vinnuna dagurinn“

„Við erum tvisvar búnir að þurfa að redda okkur til að komast á leikæfingu í þessari viku. Á þriðjudaginn löbbuðum yfir Héðinsfjörðinn í brjáluðu veðri og svo beið okkar bíll í göngunum hinum megin,“ segir Daníel Pétur en þeir Guðni eru einu leikararnir Siglufjarðarmegin, en æfingar fara fram á Ólafsfirði. Í hljómsveit leikfélagsins eru líka menn frá Siglufirði og Dalvík en ekki liggur eins mikið við að þeir mæti á hverja æfingu.

Á þriðjudag fengu þeir far heim af leikæfingu með traktorsgröfu.

Á þriðjudag fengu þeir far heim af leikæfingu með traktorsgröfu. Ljósmynd/Daníel Pétur Daníelsson

Í gærkvöldi blasti aftur við að Daníel Pétur og Guðni kæmust ekki á æfingu vegna ófærðar og þótt þeir hafi grínast með „Gengið í vinnuna daginn“ á þriðjudag ákváðu þeir að róttækari aðgerða væri þörf í þetta skiptið og var hver fararskjótinn á fætur öðrum nýttur til að gera þeim ferðina auðveldari.

Drösluðu hjólunum gegnum snjóskafla

Þeir fengu lánaðan sendiferðabíl Bakarísins á Siglufirði og  keyrðu eins langt og þeir komust með reiðhjól aftan í geymslunni. Um 600 metra frá gangnamunnanum Siglufjarðarmegin var ófært og drösluðu þeir hjólunum í hundleiðinlegu veðri yfir skaflana inn í göngin þar sem þeir hjóluðu sem leið lá til Héðinsfjarðar. 

„Mér leið eins og í skandinavískri bíómynd að horfa á Guðna hjólandi, í göngunum, með skíðagleraugu, á körfuhjóli!“ segir Daníel Pétur en eins og gefur að skilja var talsvert fljótlegra að hjóla en ganga gegnum göngin, sem eru um 4 km löng, og að sjálfsögðu var engin umferð. Þegar í Héðinsfjörðinn kom beið þeirra vélsleðamaður frá Ólafsfirði sem flutti þá að næstu göngum og þar kom bíll til móts við þá sem skutlaði þeim á æfingu.

Þokkaleg spá á frumsýningardaginn

Daníel Pétur segir að eftir æfinguna hafi verið búið að skafa veginn og því gekk heimferðin ljúflega fyrir sig. Generalprufan fer fram í kvöld og á morgun, föstudag, verður Stöngin inn frumsýnt í Tjarnarborg á Ólafsfirði klukkan 20. 

Og hvernig lítur svo veðurspáin út fyrir frumsýningarkvöldið? „Ég þori eiginlega ekki að skoða hana,“ segir Daníel Pétur og hlær. „Nei, nei, ég held hún verði fín á morgun, við ættum alveg að komast þetta.“


Athugasemdir

28.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst