Lokadagur Glóðar
Ljóðahátíðinni Glóð lauk á laugardaginn með þremur viðburðum. Aðalgestur hátíðarinnar var Einar Már Guðmundsson og las hann úr verkum sínum í Kaffi Rauðku um miðjan dag.
Fór hann sérstaklega yfir feril sinn sem ljóðskáld og las úr ljóðabókum sínum. Auk þess las hann úr nýjustu bókunum sínum þar sem hann fjallar um bankahrunið og þátt útrásarvíkinganna og stjórnmálamannanna í því. Skrifar hann um þessi alvarlegu mál með sínum skemmtilega húmoríska stíl og skelltu áheyrendur oft uppúr. Nýjustu bækur Einars voru til sölu á staðnum og áritaði hann þær fyrir kaupendur í lok dagskrár.
Þórarinn og Einar Már í Kaffi Rauðku
Einar Már Guðmundsson
Gestir að hlýða á Einar Má
Að loknum lestri Einars Más var haldið yfir í Ráðhús þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir þrjú bestu ljóðin í ljóðasamkeppni hátíðarinnar. Í henni tóku þátt nemendur í 8. og 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og alls urðu til um 60 ljóð í tengslum við hana. Eins og oft áður voru það stúlkur sem áttu vinningsljóðin þrjú. Þetta voru þær Rakel Rut Heimisdóttir, Sigríður Alma Axelsdóttir og Erla Vilhjálmsdóttir. Var Einar Már hrifin af ljóðunum og las þau fyrir gesti um leið og úrslitin voru kynnt.
Erla Vilhjálmsdóttir vinningshafi.
Sigríður Alma Axelsdóttir vinningshafi.
Rakel Rut Heimisdóttir vinningshafi.
Þórarinn, vinningshafarnir og Einar Már.
Hátíðinni lauk svo á Kósíkvöldi í Ljóðasetrinu þar sem boðið var uppá söng, gítarspil og ljóðalestur auk léttra veitinga. Þar kom fram sönghópurinn Gómar ásamt Sturlaugi Kristjánssyni, Svilabandið, sem skipað er þeim Daníel Pétri og Tóta og lesin voru ýmiskonar ljóð með misjafnlega alvarlegan undirtón.
Á hátíðinni voru 11 viðburðir og alls voru lesin ljóð fyrir rúmlega 400 manns þessa þrjá daga sem hún stóð.
Sönghópurinn Gómar.
Þórarinn og Daníel.
Texti: Þórarinn Hannesson
Myndin af Einari Má er tekin af netinu
Myndir: GJS
Athugasemdir