Vigdís Finnbogadóttir vígði Ljóðasetur Íslands

Vigdís Finnbogadóttir vígði Ljóðasetur Íslands Ljóðasetur Íslands var vígt við hátíðlega athöfn hér á Siglufirði í gær. Vel á annað hundrað manns var

Fréttir

Vigdís Finnbogadóttir vígði Ljóðasetur Íslands

Opnunarhátíð
Opnunarhátíð

Ljóðasetur Íslands var vígt við hátíðlega athöfn hér á Siglufirði í gær. Vel á annað hundrað manns var við vígsluna og var búið að koma fyrir hátalara fyrir utan setrið svo þeir sem ekki komust inn fyrir dyrnar gætu hlýtt á það sem fram fór.

Þórarinn Hannesson, forstöðumaður og frumkvöðull setursins, stjórnaði dagskránni. Í upphafi bauð hann gesti velkomna og sagði stuttlega frá tilurð setursins, uppbyggingunni og sögu hússins. Setrið er að Túngötu 5, þar sem Guðrún Rögnvaldsdóttir rak m.a. hatta- og dömubúð um árabil og áður var Skattstofa Norðurlands vestra í húsinu. Einnig færði Þórarinn ýmsum aðilum þakkir fyrir þeirra þátt í að þessi draumur væri orðinn að veruleika.

Páll Helgason var næstur á mælendaskrá, flutti hann frumsamið ljóð og færði síðan setrinu veglega gjöf frá sér og fjölskyldu sinni. Þar var um að ræða ritsafn Jóhannesar úr Kötlum, í glæsilegu bandi,  sem Páll batt sjálfur inn á árum áður.

Þórarinn Eldjárn var sérstakur gestur við vígsluathöfnina, flutti hann gestum hugleiðingu um ljóðið og vitnaði í Gísla sögu Súrssonar, enda nýkominn af söguslóðum Gísla á Vestfjörðum. Síðan flutti hann tvö af ljóðum sínum við góðar undirtektir.

Næst stigu á stokk kvæðamenn í Fjallahnjúkum og fluttu þrjú íslensk kvæðalög. Tvö þessara laga voru sungin við texta Páls Helgasonar.

Matthías Johannessen færði Þórarni forstöðumanni áður óbirt ljóð á dögunum, þegar þeir áttu fund í Reykjavík, og óskaði eftir að það yrði flutt við vígsluna þar sem hann kæmist ekki sjálfur til að vera viðstaddur. Ljóðið heitir Þú ert minning og frumflutti Þórarinn það fyrir gesti. Einnig flutti hann gestum kveðju frá Sigurbjörgu Þrastardóttur, ljóðskáldi, sem gat ekki verið við vígsluna þar sem hún var stödd á ljóðahátíð í Kólumbíu og las ljóð sem hún sendi til flutnings við þetta tilefni.

Rakel Björnsdóttir, formaður Siglfirðingafélagsins, kom færandi hendi og færði setrinu styrk frá félaginu og einnig ljóðaþýðingar sem unnar voru vegna bókamessu í Þýskalandi á dögunum en þar var Ísland í brennidepli. Þarna var um að ræða þýskar þýðingar á nokkrum verka Þorsteins frá Hamri sem og stórt ljóðasafn frá ýmsum tímum. Auk þess færði Rakel setrinu videóverk sem unnin voru við þessi ljóð af nemum í Listaháskólanum.

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, færði setrinu styrk frá sveitarfélaginu í tilefni opnunarinnar og flutti góðar kveðjur frá bæjarstórn.

Þórarinn gerði svo grein fyrir glæsilegri bókargjöf sem setrinu barst á vordögum en þar var um að ræða mörg hundruð ljóðabækur úr safni Baldurs Pálmasonar útvarpsmanns og ljóðskálds sem lést sl. haust.  Arnold Bjarnason fjármagnaði kaup á þessu safni og gaf setrinu til minningar um afa sinn sr. Bjarna Þorsteinsson.

Að lokum steig heiðursgestur vígsluhátíðarinnar í pontu, frú Vigdís Finnbogadóttir. Flutti hún ávarp þar sem hún fjallaði um gildi ljóðlistarinnar fyrir okkur sem þjóð og mikilvægi ljóðanna í að viðhalda tungumálinu í gegnum aldirnar. Furðaði hún sig á því að engum skyldi hafa dottið í hug fyrr að setja upp safn eða setur um ljóðlistina eins stóran sess og hún skipar í menningu okkar og sögu. Lýsti hún yfir mikilli ánægju með framtakið og þann stórhug sem þar væri að baki. Þar næst færði hún setrinu  ljóðabók sem tengist Siglufirði með sérstökum hætti. Þetta var bókin Hrannir eftir Einar Benediktsson en bókin var áður í eigu Jóns Gíslasonar og Helgu konu hans sem bjuggu á Siglufirði. Þótti þeim það mikið til innihalds þessarar bókar koma að þau skýrðu dóttur sína Hrönn í höfuðið á bókinni. Var það í fyrsta sinn sem barn var skýrt þessu nafni á landinu og gerði sr. Bjarni engar athugasemdir við nafngiftina. Færði Vigdís setrinu bókina með kveðju frá fjölskyldu Hrannar og síðan opnaði hún setrið formlega.

Greinilegt var á viðbrögðum gesta að þeir voru ánægðir með það sem fyrir augu og eyru bar og greinilegt er að hér er komin enn ein rósin í safnaflóru Siglufjarðar.

Þess má geta að lokum að setrið verður opið kl. 14 -18 alla daga það sem eftir lifir af sumri og á hverjum degi kl. 16.00 – 16.30 verður boðið upp á lifandi viðburði.

Í dag kl. 14.30 mun Þórarinn Eldjárn lesa úr verkum sínum og kl. 16.00 mun Ásdís Óladóttir lesa úr nýrri ljóðabók sinni. Á sunnudaginn kl. 15.00 verður svo ljóðaupplestur á vegum verkefnisins List án landamæra og þar munu nokkrir íbúar Fjallabyggðar lesa.




Þórarinn Hannesson að setja hátíðina.



Páll Helgason að flytja ljóð.



Pál Helgason að færa ljóðasetrinu gjöf.



Þórarinn Eldjárn að flytja ljóð.



Fjallahnjúkar að kveða.



Bæjarstjórinn að afhenda gjöf frá Fjallabyggð.



Guðrún Árnadóttir að færa setrinu gjöf.



Vigdís Finnbogadóttir heiðursgestur að vígja Ljóðasetrið.



Gestir við opnunina.



Gestir við opnunina.

Gestir við opnunina.



Rakel Björnsdóttir formaður Siglfirðingafélagsins í Reykjavík að færa gjafir.



Vigdís að lesa upp úr bók sem hún var beðin að færa setrinu.



Gestir.



Hressir gestir við opnunina.



Túngata 5 Siglufirði.

Texti: ÞH
Myndir: GJS























Athugasemdir

08.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst