Megi það sterklega slá og lengi
Þingmennirnir Árni Páll Árnason og Kristján L Möller komu í opið hús Sparisjóðs Siglufjarðar í gær þar sem fagnað var 140 ára afmæli sparisjóðsins.
Kristján L Möller tók til máls og óskaði viðstöddum gleðilegs árs með þökkum fyrir það liðna, og óskaði okkur öllum jafnframt til hamingju með 140 ára afmæli sparisjóðsins okkar sem er elsta starfandi peningastofnun landsins.
Kristján sagði að Snorri Pálsson hinn mikli frumkvöðull sem stofnaði Sparisjóð Siglufjarðar 1. janúar 1873 væri nýsköpunarráðherra ef hann væri á Alþingi í dag, atorkan alveg ótrúleg, innleggin og stofnféð í sparisjóðinn komu frá stóru svæði bæði í Eyjafirði og Skagafirði, "enda sæmir það Siglfirðingum að fara víða".
Kristján afhenti glæsilega blómakörfu sem Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra sendi og flutti frá
henni kærar kveðjur í tilefni af 140 ára afmæli Sparisjóðs Siglufjarðar.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er að sögn Kristjáns mikill sparisjóðamaður og þekkir vel
til starfseminnar hér.
Össur sendi einnig blóm og þessa kveðju:
"Sparisjóðurinn er hjarta Siglufjarðar. Megi það sterklega slá og lengi. Til hamingju með 140 ára afmælið, Össur
Skarphéðinsson utanríkisráðherra"
Kristján sagði einnig m.a.:
"Við ætlum að halda okkar sparsjóði í að minnsta kosti 140 ár í viðbót".
Ólafur Jónsson sparisjóðsstjóri tök við gjöfum og kveðjum og þakkaði öllum fyrir komuna og ráðherrunum fyrir höfðinglegar gjafir og sérstaklega góðar kveðjur. Ólafur sagði þetta einnig sýna hug ráðherranna til sparisjóðsins, og sagði greinilegt að við eigum þarna góða bandamenn á áhrifastöðum.
Myndir og texti: GSH
Athugasemdir