Fimmhundruðþúsund um Héðinsfjarðargöng

Meðalumferð um Héðinsfjarðargöng á öllu árinu var 548 bílar á sólarhring, samkvæmt yfirliti sem birt er á vef Vegagerðarinnar. Er það talsvert meiri umferð en spáð var áður en framkvæmdir hófust. Fyrirfram var reiknað með að 350 bílar færu um göngin á dag og í mesta lagi 500.
Umferðin er því 57% meiri en búast hefði mátt við og tæplega 10% meiri en gert var ráð fyrir í allra bjartsýnustu spám Vegagerðarinnar.
Héðinsfjarðargöngin tengja saman Siglufjörð og Ólafsfjörð og þar með Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið. Með þeim skapast möguleiki á hringakstri um Tröllaskaga. Göngin voru tekin í notkun í byrjun október 2010.
Meginhluti umferðarinnar er að sumrinu. Þannig er helmingur ársumferðarinnar á fjórum mánuðum, frá maí til ágúst.
Athugasemdir