Gamla myndin: Hús Gagnfræðaskólans

Gamla myndin: Hús Gagnfræðaskólans Hús Gagnfræðaskóla Siglufjarðar við Hlíðarveg var tekið í notkun árið 1957, en þá hafði skólinn verið á

Fréttir

Gamla myndin: Hús Gagnfræðaskólans

   Unnið að því að steypa upp húsið.
Unnið að því að steypa upp húsið.
Hús Gagnfræðaskóla Siglufjarðar við Hlíðarveg var tekið í notkun árið 1957, en þá hafði skólinn verið á lofti Siglufjarðarkirkju í rúma tvo áratugi. Upphaf unglingakennslu á Siglufirði má rekja til ársins 1910 en Gagnfræðaskólinn tók til starfa haustið 1934.

 

Byrjað var að grafa fyrir grunni hins nýja skólahúss sumarið 1951 en framkvæmdir gengu hægt vegna fjárskorts. Ef lítið var að gera í síldinni lánuðu Síldarverksmiðjur ríkisins menn til vinnu, án endurgjalds. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið ásamt Bárði Ísleifssyni arkitekt. Guðjón valdi staðinn, skammt frá íþróttavellinum.

 

Þegar húsið var formlega tekið í notkun, 6. október 1957, flutti Guðrún Björnsdóttir, formaður skólanefndar, ræðu þar sem hún sagði meðal annars að ef nemendurnir gerðu sér að reglu „að kasta ljósbjarma á vegferð samferðamannanna“ verði þeirra eigin gata björt um leið. Við kennarana sagði hún: „Það er meira virðingarstarf og meira ábyrgðarstarf en nokkurt annað að móta mannssálir.“ Á þessum árum voru nemendur í Gagnfræðaskólanum stundum um 200, í fjórum bekkjum og átta bekkjardeildum.

Þá var Jóhann Jóhannsson skólastjóri. Hann hafði verið kennari við skólann frá haustinu 1935 og var skólastjóri frá 1944 til 1974. Jóhann lést í lok ársins 1980. Í minningargreinum var honum lýst sem orðvörum og traustum mannkostamanni sem var virtur af samborgurum sínum.


  Efri hæðin í byggingu, sennilega sumarið 1955. Á myndinni má þekkja meðal annarra Ólaf Magnússon handlangara (við sandbinginn til vinstri) og Steingrím Kristinsson (með hjólbörur).

 

Texti: Jónas Ragnarsson.

Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.

 





Athugasemdir

30.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst