Gamla myndin: Hús Gagnfræðaskólans
Byrjað var að grafa fyrir grunni hins nýja skólahúss sumarið 1951 en framkvæmdir gengu hægt vegna fjárskorts. Ef lítið var að gera í síldinni lánuðu Síldarverksmiðjur ríkisins menn til vinnu, án endurgjalds. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið ásamt Bárði Ísleifssyni arkitekt. Guðjón valdi staðinn, skammt frá íþróttavellinum.
Þegar húsið var formlega tekið í notkun, 6. október 1957, flutti Guðrún Björnsdóttir, formaður skólanefndar, ræðu þar sem hún sagði meðal annars að ef nemendurnir gerðu sér að reglu „að kasta ljósbjarma á vegferð samferðamannanna“ verði þeirra eigin gata björt um leið. Við kennarana sagði hún: „Það er meira virðingarstarf og meira ábyrgðarstarf en nokkurt annað að móta mannssálir.“ Á þessum árum voru nemendur í Gagnfræðaskólanum stundum um 200, í fjórum bekkjum og átta bekkjardeildum.
Þá var Jóhann Jóhannsson skólastjóri. Hann hafði verið kennari við skólann frá haustinu 1935 og var skólastjóri frá 1944 til 1974. Jóhann lést í lok ársins 1980. Í minningargreinum var honum lýst sem orðvörum og traustum mannkostamanni sem var virtur af samborgurum sínum.
Efri hæðin í byggingu, sennilega sumarið 1955. Á myndinni má þekkja meðal annarra Ólaf Magnússon handlangara (við sandbinginn til vinstri) og Steingrím Kristinsson (með hjólbörur).
Texti: Jónas Ragnarsson.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.
Athugasemdir