Mynd vikunnar- Gamla sjúkrahúsið

Mynd vikunnar- Gamla sjúkrahúsið Siglufjörður breyttist úr fámennu sjávarþorpi um aldamótin 1900, í ört vaxandi kauptún og síðar kaupstað á stuttu

Fréttir

Mynd vikunnar- Gamla sjúkrahúsið

Líkhúsið til vinstri, Sjúkrahús Siglufjarðar fyrir miðju og til hægri er Prestssetrið að Hvanneyri
Líkhúsið til vinstri, Sjúkrahús Siglufjarðar fyrir miðju og til hægri er Prestssetrið að Hvanneyri

Siglufjörður breyttist úr fámennu sjávarþorpi um aldamótin 1900, í ört vaxandi kauptún og síðar kaupstað á stuttu árabili.
Síldarævintýrið færði hinum stækkandi stað mikla vinnu og gjörbreytt mannlíf og um leið nýja siði og nýjar þarfir.

Það vantaði bryggjur, hús, vatnsveitu, vegi, rafmagn, alla heilbrigðisþjónustu og margt fleira.
Það er nauðsynlegt í hverju byggðalagi að hafa góða læknisþjónustu og geta haft aðgang að sjúkrahúsi þegar veikindi ber að höndum.
Það voru Norðmenn, sem fyrstir hófu síldveiðar, með snurpinót hér við land árið 1903.
Þeir komu sér upp aðalbækistöð á Siglufirði, byggðu söltunarstöðvar og síldarbræðslur.
Norðmönnum var ljóst hin mikla vöntun á heilbrigðisþjónustu á staðnum og sérstaklega var slæmt að hafa ekki sjúkraskýli.
Þeir byggðu því Sjómannaheimilið, stórt og mikið hús við Aðalgötuna á Siglufirði, og var það vígt 12. september 1915.
Héraðslæknirinn á Siglufirði var læknir hússins. Þarna gátu verið 10-15 sjúklingar þegar mikið lá við, en það mun hafa verið þröngt.
Árið 1920 hvetja læknar bæjarins til þess að hefja byggingu sjúkrahúss eins fljótt og hægt sé, en það er ekki fyrr en árið 1927 sem teikningar af væntanlegur sjúkrahúsi liggja fyrir, eftir húsameistara ríkisins Guðjón Samúelsson. Var þá ákveðinn staður fyrir stofnunina rétt sunnan við prestsetrið á Hvanneyri.
Sjúkrahús Siglufjarðar var vígt  1. desember 1928 að viðstöddum miklum fjölda bæjarbúa, en það hafði tekið til starfa þá um sumarið.
Fimm sjúkrastofur voru í sjúkrahúsinu og rúmaði 16 sjúklinga, en hægt var að taka á móti 4 í viðbót ef knýjandi þörf var á.
Eftir því sem tímar liðu og kröfurnar urðu meiri á ýmsum sviðum, þótti sjúkrahúsið  of lítið og ekki talið fullnæja þeim kröfum sem gerðar voru til slíkrar stofnunar, þótt það hafi verið talin stór og góð bygging á sínum tíma, sem þá fullnægði fyllst kröfum þess tíma.
Vorið 1945 var hafist handa við undirbúning að byggingu nýs sjúkrahúss og þann 15. desember 1966 fór fram vígsla á hinu nýja sjúkrahúsi og hafði þá það gamla lokið hlutverki sínu.

Heimild :  Mörg læknuð mein eftir Þ. Ragnar Jónasson.

Athugasemdir

14.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst