Nautnabelgir opnuðu í gær
Nautnabelgirnir Halldóra Gunnarsdóttir og Hreinn Hreinsson eru staddir á Sigló yfir páskahelgina til að matreiða gómsætar máltíðir fyrir gesti veitingastaðarins á nýju og glæsilegu Hótel Siglunesi.
Vart hefur farið fram hjá nokkrum Siglfirðing að unnið hefur verið hörðum höndum að endurbótum á gamla Hótel Læk sem nú hefur fengið nafnið Hótel Siglunes. Þó verkinu sé ekki lokið er neðsta hæðin tilbúin og hafa þrjú herbergi verið tekin í notkun, tvo sem enn eru laus. Lobbíið og barinn tekur vel á móti manni strax og maður gengur inn og er aðstaðan þar alveg til fyrirmyndar, hlýleg og skemmtileg. Ella Þorsteins og Ásta Júlí voru rétt í þann mund að smella niður síðustu gólfmottunni, raða upp sófasettum og skrúfa síðustu skrúfurnar þegar mér bar að garði en það er vel þess virði að kíkja við.
Veitingastaðurinn og barinn opnuðu í gær, miðvikudag, þar sem matgæðingarnir og nautnabelgirnir Halldóra Gunnarsdóttir og Hreinn Hreinsson eru mætt til að útfæra gómsæta rétti á sinn eigin máta. Þau hafa skemmtilega fjölbreyttan bakgrunn og eru miklir bragðkokkar sem finnst gaman að elda. Þegar ég datt inn var Hreinn einmitt að hræra í hægelduðu kryddjurtatómatsósunni sinni sem hafði verið látin malla í heilan sólarhring, og Halldóra að raða sítrónusneiðum á sítrónubökuna hennar Agnesar, vinkonu sinnar. Gómsætt og ylmandi.
Matseðillinn er fjölbreyttur og skemmtilegur og breytist á hverjum degi yfir páskana, hann má skoða betur á heimasíðu Nautnabelgja
Nautnabelgirnir Halldóra og Hreinn
Sítrónubakan hennar Agnesar og hægeldaða kryddjurtatómatsósan
Allt á fullu í eldhúsinu.
Glæsileg húsakynni
Athugasemdir