Gamla myndin: Oddur á Nesi
Flestar myndanna í eldri hluta Ljósmyndasafns Siglufjarðar tók Kristfinnur Guðjónsson ljósmyndari, en sumar þeirra eru eftir aðra.
Oft var komið með gamlar myndir til Kristfinns og hann beðinn um að „taka eftir“ þeim vegna þess að ættingjarnir vildu fá „kópíu“. Oftar en ekki voru myndirnar daufar og skemmdar og þá þurfti hann að „retúsera“ og skerpa drættina.
Meðfylgjandi mynd er dæmi um þessa þjónustu Ljósmyndastofu Siglufjarðar, sem Kristfinnur rak, lengst af við Eyrargötu. Myndin sýnir Odd Jóhannsson hákarlaskipstjóra og fjölskyldu hans. Afkomendurnir fullyrða að ljósmyndarinn sé enginn annar en séra Bjarni Þorsteinsson, sem var mikill vinur Odds. Miðað við aldur barnanna gæti myndin verið tekin um 1905. Bjarni keypti sér myndavél þegar hann fór til Kaupmannahafnar vorið 1899 og verið iðinn við myndatökur. Nokkrar myndir frá honum eru í Þjóðminjasafni Íslands en einnig er nokkuð um myndir á siglfirskum söfnum, sem að öllum líkindum eru verk Bjarna.
En hver var Oddur Jóhannsson?
Hann var einn af siglfirsku hákarlaskipstjórunum sem settu svip á mannlífið á síðustu áratugum nítjándu aldar og við upphaf þeirrar tuttugustu. Oddur Jóhannsson var fæddur á Engidal, vestan Siglufjarðar, 9. nóvember 1866. Foreldrar hans voru Jóhann Þorvaldsson bóndi þar og Sæunn Þorsteinsdóttir, ættuð frá Staðarhóli. Oddur var af hinni nafnkunnu Dalaætt, sonarsonur Þorvaldar ríka á Dalabæ. „Hafa þeir langfeðgar verið viðurkenndir sjósóknarar og aflagarpar og hinir mestu atorkumenn í hvívetna, var Oddur enginn ættleri, og talinn drengur hinn besti af öllum þeim er nokkur kynni höfðu af honum,“ sagði í Fram.
Hann var á Engidal fram yfir tvítugt en var síðan vinnumaður á Dalabæ og Máná í fimm ár, til 1892. Þá varð hann bóndi á Engidal í áratug og byggði þar upp. Síðan bjó hann á Siglunesi í tvo áratugi.
Þegar Oddur keypti fimmta hluta Sigluness, upp úr aldamótum, tók hann lán fyrir kaupverðinu en greiddi það upp á fjórum árum, slíkar voru tekjur hans á þessum árum.
Maður sem var með honum á hákarlaveiðum sagði hann alltaf hafa verið léttan í lund. Annar háseti sagði í grein í Vísi að hann hafi verið orðlagður um þessar slóðir sem ágætasti skipstjóri og verið veðurglöggur. „Hann þótti farsæll, gætinn og öruggur, stilltur maður og orðvar. Menn vildu gjarnan vera í skiprúmi hjá honum. Hann mun einnig hafa verið aflasæll. Sagt var að hann væri sjóveikur, þótt hann stundaði mjög sjóinn og þætti í þeim efnum bera af mörgum öðrum. Svo fastheldinn var hann við forna venju að hann vildi láta lesa sjómannabæn þegar lagt var úr höfn í fyrsta skipti á vorvertíðinni.“
Oddi er þannig lýst í Morgunblaðinu að hann hafi verið „einn með allra duglegustu og þekktustu formönnum norðanlands,“ en hann fékkst við sjómennsku frá barnæsku. Oddur á Nesi var skipstjóri meðal annars á Stormi, Kristjönu, Víkingi, Njáli og á Samson.
Þriðjudaginn 9. maí 1922 hélt Samson á hákarlaveiðar frá Siglufirði. Um helgina fór veðrið að versna og áttu menn þá von á honum inn. Biðu menn milli vonar og ótta í nokkra daga en um síðir var hann talinn af. Veður þetta var nefnt krossmessugarðurinn og sagði Fram hann hafa verið „af öllum sem vita hafa á slíku talinn einhver hinn versti sem komið hafi nú síðustu áratugina.“ Alls fórust í þessu veðri fimm skip með 55 mönnum.
„Við fráfall Odds er stórt skarð höggvið eigi aðeins í flokk sjómanna vorra, þar sem hann ætíð þótti standa fremstur í fylkingunni, heldur og í flokk bænda hér, því Oddur var þar einnig í fremstu röð,“ sagði í Fram. „Oddur var 55 ára að aldri, en hraustur og heilsugóður, enda þrekmaður hinn mesti.“ Í minningarljóði í Fram sagði: „Þú gleymist ei því góður varstu drengur / og göfug ætíð lifir minning þín.“
Á Samson voru sjö menn frá Siglufirði og Siglunesi. Eigandi var Þorsteinn Pétursson á Siglufirði. Auk Odds voru í áhöfninni:
Bjarni Gíslason, 30 ára, faðir Bjarna sjómanns (frænda Hannesar Garðarssonar), mágur Jóns Jóhannessonar fræðimanns.
Bæringur Ásgrímsson vélamaður, 19 ára, bróðir Páls sem bjó lengi á Siglufirði.
Guðlaugur Jósefsson, 20 ára, fóstursonur Odds, bróðir Jóhannesar vörubílstjóra og fiskmatsmanns.
Ólafur Ásgrímsson frá Kambi, 22 ára, bróðir Kristjáns á Kambi og Helga, föður Ragnars og þeirra bræðra.
Ólafur Sigurgeirsson, 34 ára, bakari, ættaður úr Eyjafirði.
Sigurður Gunnarsson, 40 ára, fæddur í Héðinsfirði.
Einn af nýjustu siglfirsku bátunum er nefndur Oddur á Nesi, sennilega eftir Oddi Jónssyni föður eigandans, en gæti allt eins verið nefndur eftir Oddi Jóhannssyni, langafa eigandans.
Fjölskylda Odds Jóhannssonar bónda og hákarlaskipstjóra á Siglunesi við Siglufjörð. Aftari röð: Sæunn Oddsdóttir húsmóðir á Siglufirði (f. 1895, d. 1938), Oddur Oddsson trésmiður á Siglufirði og í Reykjavík (f. 1894, d. 1981), Jóhann fóstursonur. Fremri röð: Guðrún Ingibjörg Sigurðardóttir húsfreyja, ættuð úr Flókadal (f. 1860, d. 1915), Jón Oddsson bóndi á Siglunesi (f. 1903, d. 1994), Oddur Jóhannsson (f. 1866, d. 1922), Ólöf Oddsdóttir húsfreyja í Lónkoti í Skagafirði (f. 1896, d. 1976).
Texti: Jónas Ragnarsson (jr@jr.is).
Ljósmynd: Bjarni Þorsteinsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.
Athugasemdir