Örstutt sunnudagaskólaferðasaga

Örstutt sunnudagaskólaferðasaga Síðasti sunnudagaskólinn var haldinn hátíðlegur í Hrísey síðustu helgi, nánar tiltekið sunnudaginn 17.mars, og við ákváðum

Fréttir

Örstutt sunnudagaskólaferðasaga

Siglt út í eyju
Siglt út í eyju

Síðasti sunnudagaskólinn var haldinn hátíðlegur í Hrísey síðustu helgi, nánar tiltekið sunnudaginn 17.mars, og við ákváðum að skella okkur með Sigurði prestakalli til Hríseyjar. Það voru auglýstar pylsur eftir messuna í Hrísey þannig að það var bara ekki hægt að sleppa þessu. Það voru samt allt of margir sem slepptu því að koma frá Sigló.

Klukkan 07:00 hringdi vekjaraklukkan með skilaboðunum "Pylsur í Hrísey kl 09:30 þú manst!!". Við þurftum að vera komin í skip fyrir klukkan 09:30 og ekki seinna, og trúið mér það var ekki farið seinna frá landi. Sem er mjög gott, svona áætlunarferðir eiga að standast áætlun. En til þess að vera komin í skip fyrir þennan 09:30 tíma þarf mín fjölskylda helst að vera komin á fætur klukkan 07:00. Það er cirka 45 mínútna akstur á Árskógsand. Það eru 3 konur á heimilinu og að koma 3 konum út á réttum tíma er eins og að troða körfubolta í gegn um nálarauga. En jæja, það hafðist.

Um leið og við komum um borð sá ég að sr. Sigurður var komin með sín börn og líka Kalli Guðmunds stýrimaður ásamt sínum börnum og Ási Tona ásamt fjölskyldu og svo loks sá ég vin minn Hjalta Gunnarsson í drommandi fýlu við eitt borðið í skipinu. Ég fór nú að ræða aðeins við kallinn og þá fljótlega kom í ljós að ástæða óánægjunnar var sú að það mátti ekki borða um borð í skipinu og hann með ferðatösku af nesti með sér. Fyrst á annað borð að hann var kominn um borð þá langaði hann að borða um borð. Þetta rjátlaði fljótlega af honum þegar ég sagði honum frá pylsunum sem biðu eftir okkur í Hrísey og varð hann sífellt glaðari eftir því sem við nálguðumst eyjuna meir og meir. Um borð var mikið spjall og vægast sagt alveg hrikalega gaman og mikið af sögum sem fengu að flakka og ekki hægt að tíunda hér.

 Sunnudagsskólinn

Hjalti sár yfir þessari tilkynningu.

Svo var farið að rukka fyrir bátsferðina og vélstjórinn gekk manna á milli og rukkaði. Þegar kemur að Sr.Sigurði þá spyr ég hann hvort hann borgi ekki örugglega fyrir alla sem koma frá Sigló, og bætti við að við værum sjö fullorðnir (frítt fyrir börn) og hvort hann "borgi ekki bara fyrir þá alla? er það ekki?"og klappaði honum á bakið. Hann var fljótur að snúa sér við og segir "Nei, Hrólfur minn, ég borga fyrir tíu". Ég spurði hann hvort hann væri að borga fyrir fleiri en Siglufirðingana? Og hann svarar "Jú, sjáðu til, Faðirinn, Sonurinn og Heilagur andi eru líka með í för. Ég fer ekkert án þeirra." Og glottir. Þannig að ég lofaði honum bara að borga fyrir þessa þrjá í viðbót þótt þeir séu nú alls staðar yfir og allt um kring og það hafi ekki tíðkast að borga aukalega fyrir þá hingað til held ég.

Sunnudagsskólinn

Hríseyjarkirkja er falleg.

Þegar við komum í land í eynni var strauið tekið beint upp í kirkju þar sem prestar frá allskonar köllum þarna í kring (prestaköllum) voru með sameiginlegan sunnudagaskóla. Á ákveðnum tímapunkti þegar vel var liðið á tíma sunnudagaskólans sást hungursáraverkurinn á allavega tveimur feðrum á aftasta bekk til vinstri. Ási og Kalli sátu framar en þessir svöngu og gátu bara ekki annað en sungið og leikið með af bullandi sannfæringu og leikgleði. Loksins kom að því. Jíbbíjei , pylsuveisla og leikir. Sum pylsubrauðin voru svo stór að maður fór létt með að smella í eina tvíhleypu eftir að Kalli kenndi mér allt um tvíhleypuna. Hann torgaði allavega þremur tvíhleypum. Tvíhleypa eru tvær pylsur í einu brauði og er það alveg fáránlega gott.

Þá var farið í ratleiki með Prins Póló og ég held að það sé besti ratleikur sem ég hef farið í. Þú átt að leita að einhverju, og svo þegar þú finnur það þá éturðu það. Feðurnir voru fyrstir út að leita og ruddust ansi hreint fimlega framhjá börnunum. Einn presturinn þarna var til dæmis mjög sniðugur að láta aðra leita fyrir sig. (Ekki Siggi samt, heldur hinn Prestakallinn). "Lofið Prins Pólóinu að koma til mín og bannið því það eigi", datt mér í hug. Eftir pylsupartýið, spjall og brandara sem ekki er við hæfi að láta fljóta með í þessari frásögn var haldið aftur um borð í skipið en þar var aftur meira spjall, fleiri brandarar og meira spjall.

Ég vil nota tækifærið og þakka Siglfirðingunum, Ólafsfirðingum og Dalvíkingum fyrir samveruna og alveg hrikalega skemmtilegan dag og Hríseyingum alveg sérstaklega fyrir að taka svona vel á móti okkur. Hríseyingar mega vera stoltir af eyjunni, fólkinu og held ég megi segja öllu sem þar er. Svo koma nokkrar myndir að sjálfsögðu með.


Kv.Hrólfur Baldurs.

Sunnudagsskólinn

Sigurður Ægis og Ólöf. Svo sést í Kalla inn í horni.

Sunnudagsskólinn

Þessi mynd var tekin rétt áður einhver varð sjóveikur.

Sunnudagsskólinn

Þessi mynd var tekin rétt eftir að einhver varð sjóveikur.

Sunnudagsskólinn

Hér gæti einhver verið sjóveikur.

Miklu fleiri myndir hér


Athugasemdir

28.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst