Raffó ehf á Siglufirði
Raffó ehf á Siglufirði kt 540808-0820 er alhliða fyrirtæki í rafiðnaði, stofnað á því Herrans ári 2008, eigandi og framkvæmdastjóri er Aðalsteinn Þór Arnarsson.
Raffó varð til í framhaldi af því að fyrirtækið Rafbær sf var lagt niður eftir erfiðleika í
rekstri.
Raffó tók við flestum þeim kúnnum sem Rafbær hafði og nýtur góðs af þeirri traustu starfsemi sem Rafbær stóð fyrir um
áratugaskeið.
Þrír af núverandi starfsmönnum Raffó unnu hjá Rafbæ, Sigurbjörn lengst, þá Aðalsteinn nokkuð lengi og Marteinn í
stuttan tíma.
Raffó vinnur m.a. í samstarfi við Siglufjarðar-seig, hannar, teiknar og smíðar rafkerfi í báta sem Siglufjarðar Seigur ehf framleiðir, allt
með blessun og undir eftirliti Siglingastofnunnar.
Fyrirtækið þjónustar m.a. Rammann, Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar, Sveitarfélagið Fjallabyggð, Primex, Rauðku, Skíðasvæðið
o.fl.
Raffó er með þjónustusamninga vegna brunavarnarkerfa, hefur tækjakost og réttindi til að taka út aðvörunar- og brunavarnakerfi í
bátum, og vinnur með Securitas.
Meðal stórra verkefna sem Raffó hefur komið að nýlega má nefna spennubreytingar fyrir Rarik á Siglufirði, ( 3 x 230 V -> 3 x 400 V ).
Þar voru kallaðir til tveir sérsveitarmenn, þeir Björgvin Jónsson og Addi Óla, sem báðir eru miklir reynsluboltar í faginu.
Þegar Raffó var stofnað, gerðu menn ráð fyrir að til þyrfti þrjá starfsmenn, og hafa umsvifin verið meiri síðustu árin en
upphaflegar áætlanir reiknuðu með. Í kjölfar efnahagslægðarinnar margnefndu þurftu stór fyrirtæki eins og rækjuvinnslan
o.fl. að endurskipuleggja reksturinn hjá sér, sem kostaði ýmsar breytingar á þeirra starfsemi og búnaði, sem aftur skapar vinnu fyrir
þjónustufyrirtæki eins og Raffó. Agnar Sveinsson var ráðinn fjórði maður í tímabundið verkefni fyrir nokkru, en Agnar
starfar enn hjá Raffó og er allt útlit fyrir að svo verði áfram.
Oftast eru það eingöngu karlmenn sem vinna við rafvirkjun, en hjá Raffó starfar um þessar mundir Freyja Þorsteinsdóttir sem er búin með
bóklega hlutann af námi í rafvirkjun og er nú í 6 mánaða starfsþjálfun til að geta tekið sveinspróf næsta sumar.
Hún verður þá væntanlega sveinn í sumar stúlkan sú !
( Á meðan viðtalið stóð yfir birtist á kaffistofunni kúnni frá stóru fyrirtæki hér í bæ, með verkefni sem sneri
að hönnun og endurbótum á raf-stýringu í tækjasal, og var verkefnið skeggrætt yfir kaffibolla og gerð skelegg áætlun um lausn
vandans. )
Framundan eru ýmis verkefni stór og smá, nýbyggingar í sjónmáli, áframhaldandi þjónusta við fyrirtæki og skip.
Stundum má þjónustan ekkert bíða, hlutirnir þurfa að gerast hratt og örugglega, sérstaklega þegar stór atvinnufyrirtæki
þurfa þjónustu, - starfsemi sem ekki má stöðvast. Verkefnin koma þannig jafnt og þétt.
Fyrirtækið gengur vel, menn eru bjartsýnir á framtíðina, og reikna með að vera a.m.k. fjórir starfsmenn áfram.
Meðan atvinnulífið er í gangi eru yfirleitt næg verkefni. Raffómenn hafa líka þétt net samstarfsaðila þegar á þarf
að halda.
Síðustu ár hafa verið töluvert betri en reiknað var með og starfsmenn verið allt upp í sex manns öðru hverju.
Heildarumsvifin í bænum eru miklu meiri nú orðið en fyrir 8-10 árum, sem skapar verkefni fyrir fleiri menn en áður var. Tæknin nú til
dags er líka meiri og flóknari, meira um alls kyns sjálfvirkni-stýringar og þess háttar. Nú lætur fólk líka gera við
þvottavélar, eldavélar og önnur heimilistæki, í stað þess að kaupa bara nýjar græjur eins og tíðkaðist 2007 !
Aðalsteinn var sá síðasti sem tók sveinspróf í rafvirkjun á Siglufirði snemma á 9. áratugnum, og starfaði þá
hjá Rafbæ.
Aðalsteinn er auk þess rafmagnsiðnfræðingur, rekstrariðnfræðingur, og hefur réttindi til að sjá um háspennuvirki.
Sigurbjörn Jóhannsson - "bátamaður númer eitt" - hjá Raffó, er löggiltur rafverktaki með mikla reynslu og að sögn Aðalsteins
útsjónarsamasti rafmagnstöflusmiður sem þekkist.
Siglingastofnun talar um "Siglufjarðarstaðal" í bátasmíði og rafmagnsvinnu, hér skila menn fullunnum og nútímalegum teikningum og halda uppi
gæðum í hvívetna.
Raffó hefur, í ljósi reynslunnar, gert tillögur við Siglingastofnun að auknum tæknikröfum í aðvörunarkerfum í bátum og
stærri skipum.
Starfsmenn Raffó eru nú:
Sigurbjörn Jóhannsson
Aðalsteinn Þór Arnarsson
Agnar Þór Sveinsson
Marteinn Örn Aðalsteinsson
Freyja Þorfinnsdóttir
Agnar Þór Sveinsson, Marteinn Örn Aðalsteinsson, Aðalsteinn Þór Arnarsson, Sigurbjörn Jóhannsson
Agnar Þór Sveinsson og Marteinn Örn Aðalsteinsson
Myndir og texti: GSH
Athugasemdir