Síldarverksmiðjan Rauðka
Siglufjords
Sildeoliefabrik a/s – sem betur var þekkt sem Rauðka var reist árið 1913 af
hinum danska Sören Goos. Goos var fæddur í Kaupmannahöfn árið 1883, en kom
fyrst til Siglufjarðar árið 1906.
Rauðka dró nafn sitt af lit verksmiðjuhúsanna, sem öll voru máluð rauð. Sennilega hefur það nafn verið bæjarbúum lipurra í munni en Siglufjords Sildeoliefabrik a/s. Verksmiðjuhúsið var tvílyft og steinsteypt og upp úr þaki þess reis hlaðinn reykháfur úr brenndum múrsteini frá Danmörku. Allur tækjabúnaður og allt byggingarefni var flutt sjóleiðis til Siglufjarðar. Vélar og tæki voru knúin með sjóðheitri gufu úr gufukatli. Færibönd fluttu síldina inn í verksmiðjuna og ofan í suðukörin. Rauðka var búin gömlum dúkapressum og gat í upphafi unnið úr 250 málum síldar á sólarhring, sem ekki þótti mikið. Til samanburðar má nefna að Evangerverksmiðjan á Staðarhólsbökkum gat brætt 500 mál síldar á sólarhring. Lýsið var flutt út í 200 lítra eikartunnum og mjölið í 200 punda strigapokum.
Árið 1932 tók Steindór Hjaltalín verksmiðjuna á leigu og tveimur árum
síðar eignaðist Siglufjarðarkaupstaður Rauðku, sem og allar eigur Sörens Goos.
Bryggjur verksmiðjunnar voru þá orðnar niðurníddar og lélegar, vélakostur var
sömuleiðis úreltur. SR hafði stuttu áður hafnað boði um að kaupa verksmiðjuna
vegna ástands hennar. Árið 1934 gat Rauðka unnið úr 700 síldarmálum á
sólarhring, og enn þótti það lítið miðað við aðrar verksmiðjur.
Siglufjarðarkaupstaður setti sér það markmið að endurbæta verksmiðjuna því
vilji var fyrir því að halda atvinnufyrirtækjum bæjarins gangandi.
Lítið
virðist þó hafa verið gert fram til 1938 en þá ákvað bæjarstjórn Alþýðuflokks
og sósíalista að stækka og endurbyggja bæði Rauðku og Gránu (sem
Siglufjarðarkaupstaður hafði eignast á sama tíma og Rauðku). Rauðka var þá sögð
orðin mjög léleg, „úrelt og af sér gengin fyrir aldurssakir og vélarslits.“
Siglfirðingar vildu auka afköst Rauðku í 5.000 mál á sólarhring, en fengu ekki
leyfi frá stjórnvöldum til endurbóta sem námu meiri afköstum en 2.500 mál á
sólarhring.
Þessi ákvörðun ríkisvaldsins varð til þess að bæjaryfirvöld töldu ekki
nægilegan grundvöll til þess að ráðast í stækkun verksmiðjunnar. Árið 1944 var
þó ákveðið að ráðast í stækkun Rauðku og var allur tækjakostur endurnýjaður.
Sumarið eftir, 1945 var mikið síldarleysissumar og því gerði Rauðka lítið annað
en að auka skuldir bæjarsjóðs það sumarið. Rauðka var starfrækt til ársins 1965
en þá var síðast brædd síld í verksmiðjunni. Rauðka gamla var síðan rifin um
1980.
Mynd: SK
Athugasemdir