Rauðka: Snorri Stefánsson
Einn af þeim sem mikið bar á og ekki af ástæðulausu, í þessu mikla ævintýri, hét Snorri Stefánsson. Ég vil hér með nokkrum línum minnast þessa merka manns, Snorra Stefánssonar, verksmiðjustjóra, og síðar framkvæmdastjóra Síldarverksmiðjunnar RAUÐKU
Snorri Stefánsson, fæddist á Akureyri þann 6. ágúst 1895 Árið 1906 fór hann með föður sínum Stefáni Ólafssyni, þá 11 ára gamall, á litlum árabát undir seglum frá Akureyri, áleiðis til Siglufjarðar, en þangað kom hann eftir sjö daga hrakninga. Móðir Snorra Anna Sigurbjörg Jóhannesdóttir og systir höfðu fengið far með norsku skipi til Siglufjarðar, en þau hjónin höfðu hug á að hefja búsetu á Siglufirði, en mikið atvinnuleysi var á þessum tíma á Akureyri. Þetta sumar fór Snorri að vinna við síldarsöltun með móður sinni, hjá Bakkevig. Þetta
![]() |
Gamla húsið, Hlíðarhús |
fyrsta sumar bjó fjölskyldan í einu herbergi undir súð, en næsta vor fluttu þau með sína búslóð til Siglufjarðar,. Faðir Snorra hafði fest kaup á litlu húsi, Hlíðarhúsi, og borguðu þau 700 krónur fyrir það. Aðeins voru tvær hliðar þess úr timbri, en hinar hlaðnar úr torfi og grjóti, en það hús var byggt árið 1898.
Snorri fékk snemma áhuga á öllu sem að vélum snéri, og árið 1913 hóf Snorri nám í járnsmíði hjá Gustav Blomquist, sem hingað kom frá Noregi til að byggja síldarverksmiðju, sem nefnd var Goos verksmiðjan og vann Snorri við byggingu hennar. Að loknu námi árið1916 fór hann til Noregs, undir verndarvæng Blomquist og stundaði þar iðn sína, en 1920 innritaðist hann í Vélstjóraskóla
![]() |
Gamla Rauðka 1913 |
Íslands og lauk þaðan prófi 1922. Hann stundaði sjóinn sem vélstjóri á togara og flutningaskipi til 1924, þar til hann tók við verkstjórn og síðar verksmiðjustjórn verksmiðjanna, en árið 1933 keypti Siglufjarðarkaupstaður Rauðku og Gránu.-Árið 1934 tók Snorri verksmiðjurnar (Gránu og Rauðku) á leigu, í félagi við aðra og stjórnaði rekstri þeirra næstu árin. Sumarið 1937 tók svo Siglufjarðarbær við rekstri Rauðku og var Snorri ráðinn framkvæmdastjóri hennar. Árið 1945 var Rauðka endurbyggð með fimmföldum afköstum, einnig undir Snorra stjórn.
![]() |
Frá Gömlu Rauðku |
Það er óhætt að segja, af öðrum ólöstuðum að enginn Siglfirðingur (hann leit sjálfur svo á að hann væri Siglfirðingur, þó hann væri fæddur á Akureyri) hefur öðlast jafn víðtæka reynslu á síldarbræðslu, lýsisvinnslu og síldarverksmiðjurekstri almennt, en Snorri.
Hann
byrjar sem unglingur að fást við vélarnar, og á ferli sínum sem
verksmiðjustjóri, þróaði hann ýmsan búnað við verksmiðju sína Rauðku,
sem og aðrar verksmiðjur tóku upp eftir honum síðar.
Snorri var oftast kallaður "Snorri í Rauðku", og allir þekktu hann undir því nafni hvar sem var á landinu, ef viðkomandi á annað borð kom nálægt síld, eða síldarvinnslu.
Snorri var framkvæmdastjóri Rauðku allt til þess að hann varð að hætta störfum 1963 vegna heilsubrests, en hann varð fyrir þeirri þungu raun að missa sjónina vegna gláku, en sá sjúkdómur var honum ættgengur. Að öðru leyti var Snorri við góða heilsu og vel ern.
Auk verksmiðjustarfa sinna gaf hann sér tíma til hinna ýmsu starfa fyrir bæjarfélagið, átti aðild að ýmsum hlutafélögum og rekstri.
Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast Snorra persónulega, sem unglingur, en ég vann við innheimtustörf fyrir föður minn, sem var útvarpsvirki, og átti því oft erindi til Snorra, sem sá um og reddaði ýmsu fyrir útgerðir og félög, tengd Rauðku.
Þegar
ég síðast hafði tal af Snorra þá var hann orðinn blindur, og var að
spóka sig í sólinni, og sat þá í grasinu norðan við hús sitt, Hlíðarhús.
Venjulega
var hann sunnan við húsið, en hann var að þessu sinni, meðal annars að
hlusta eftir vélarhljóðum sem bárust til hans nokkru norðar og neðar úr
hlíðinni, (hús Snorra Hlíðarhús, endurbyggt er staðsett ofarlega í
hlíðinni) hann hafði verið að velta fyrir sér hvaða vélbúnaður þarna
væri á ferðinni. Ég var á þessum tíma kranamaður, og var þarna, sem
véldynurinn kom frá, að vinna við steypuvinnu við nýtt hús Björns
Jónassonar þ.v. sparisjóðstjóra, og hljóðin sem Snorri hafði hlustað
eftir voru; kraninn, steypuhrærivél, og vibrator, ásamt köllum smiðanna,
sem tóku á móti steypunni.
Það varð um klukkustundar hlé á vinnunni og ég gekk þá upp hlíðina í góða veðrinu og sá þá Snorra, ég fór til hans, hann mundi vel eftir því hver ég var og rabbaði ég við hann nokkra stund, og lýsti ma. fyrir honum, hvað verið væri að gera. Það kom berlega í ljós að þarna var sami ærðulausi og góði maðurinn sem ég hafði kynnst sem unglingur, engin beiskja, né hatur, þrátt fyrir að hann var orðinn blindur, hann var sáttur við tilveruna og lék á alls oddi með bros á vör.
Snorri og kona hans Sigríður, eignuðust eina dóttur Önnu Snorradóttir.
Snorri Stefánsson lést 23. janúar 1987
Í þessari stuttu grein, er að miklu leiti stuðst við Skólaverkefni Óskars Einarssonar, í ofanrituðu.
Þeim sem vilja kynnast frekar sögu síldarmjöls og lýsisvinnslu, frá upphafi á Siglufirði, geta kynnt sér söguna, þar sem bæði Snorri og Rauðka taka stóran þátt í, á vefnum Mjöl og Lýsis Saga
Steingrímur
Athugasemdir