Myrknætti kynnt á Siglufirði í dag, föstudag.
Glæpasagan Myrknætti kom út í gær. Höfundurinn, Ragnar Jónasson, er væntanlegur til Siglufjarðar í dag, föstudag, og mun hitta lesendur og árita bækur í Samkaupum/Úrvali á milli kl. 16 og 18.
Eins og fram hefur komið gerist nýja bókin að miklu leyti á Siglufirði og er sjálfstætt framhald Snjóblindu.
Ragnar er nýkominn af bókamessunni í Frankfurt þar sem Fischer Verlage útgáfusamsteypan kynnti þýska útgáfu Snjóblindu, sem kallast Schneebraut þar í landi. Bókinni hefur verið hampað í þýsku pressunni og á vefsíðu stórblaðsins Spiegel (Spiegel Online) var fjallað um bókina í tilefni af bókamessunni.
Þar sagði að fléttan væri vel heppnuð og að þetta væri sígild morðgáta þar sem heill leikflokkur lægi undir grun. „Og í lokin reynist sá seki ekki einn af þeim sem maður hafði búist við. Hvað getur maður beðið um meira,“ sagði Spiegel Online. Eschborner Stadtmagazine í Þýskalandi sagði meðal annars um bókina:
„Frábært verk til að kynnast Íslandi, landinu sem í ár er gestur Bókamessunnar.“ Bókabloggari einnar elstu bókabúðar heims, Die Orell Füssli í Sviss, lofaði bókina líka og sagði m.a.: „Sérstaða bókarinnar í felst andrúmsloftinu í dimmum smábæ en hinir raunverulegu töfrar koma fram í tungutakinu, sem er ljáð flestum persónunum.“
Það er því óhætt að segja að Siglufjörður sé tekinn að vekja athygli í hinum þýskumælandi heimi.
Texti: Aðsendur
Mynd: GJS
Athugasemdir