Seglbáturinn Ugla
Ugla,
seglbáturinn sem nú stendur fyrir framan Seiglu og bíður viðgerðar hefur áður
komið til Siglufjarðar eða árið 1987 en skútan var þá í eigu Valtýs
Sigurðssonar. Í millitíðinni er Ugla búin að fara víða.
Það var 15. apríl 1984 er ég leit Uglu fyrst augum þar sem hún lá við bryggju í Västerby skammt sunnan við Stokkhólm. Með mér voru Stefán Már Stefánsson og Reynir Ragnarsson en skútuna höfðum við þá keypt nýja í gegnum Rolf Johannsen.af tegundinni Storebrå Royal 33 feta.
Nokkrum dögum síðar héldum við af stað til Köge í Danmörku, fullir sjálfstrausts enda allir nýlega búnir að taka „pungapróf“. Við áttum það hins vegar sameiginlegt að enginn okkar hafði um borð í seglskútu stigið. Til Köge komumst við með einu smávægilegu strandi á leið til hafnar í Borgholm.
Næstu árin flæktumst við um hafnir í Danmörku, sigldum í gegnum Limafjörðinn, fórum til Gautaborgar og þaðan til Osló. Við þræddum skerjagarðinn til Kristiansand á rúmlega viku og fórum inn í hvert krummaskuð. Skipsdagbókin greinir frá ýmsum uppákomum og veseni einkum í skerjagarðinum en þar þurfti nánast að skipta um blaðsíðu í kortabókinni á 10 mílna fresti.
Í júní 1986 sigldum við Uglu frá Bergen til Íslands með viðkomu í Hjaltlandi og Færeyjum. Þegar til Íslands kom voru Hornstrandir teknar fyrir.
Það var 10. ágúst 1987 kl. 16:00 að ég tók stefnuna frá Djúpuvík á Ströndum til Siglufjarðar. Þangað kom ég um morguninn eftir ævintýralega fallega siglingu en fjörðurinn skartaði sínu fegursta, úti var blanka logn (sem er að vísu ekki gott fyrir skútur) og heiðskírt. Mun sú stund mér lengi í minni verða er ég leið inn fjörðinn. Frá Siglufirði fór ég síðan til Grímseyjar með viðkomu á Siglunesi en með mér þá voru þrjár ungar dætur mínar og tveir þjóðverjar. Í skipsdagbók stendur um Siglunes: „Farið á léttabát í land. Hittum innfædda og var boðið að skoða gamla muni og smakka Black Death frá Familie Sigurðsson made in Luxemburg.“
Árið 1990 var Ugla flutt með Hvítanesinu til Portugal þar sem við tókum á móti henni í Oporto. Síðan tók við sigling í áföngum til Torrevieja á Spáni þar sem Ugla var geymd yfir vetur. Þar í höfninni kom lítið gat á hana þannig að hún seig smátt og smátt. Þegar þetta uppgötvaðist um mánuði síðar var sjór kominn upp á miðjar innréttingar og héldum við þá að allt væri ónýtt.. Það ber hins vegar vott um hvílík gæðasmíði hér var um að ræða að enn þann dag í dag eru sömu innréttingar í skipinu og hafa þær ekki verið lakkaðar. Ugla var í nokkur ár staðsett á Mallorca þaðan sem við flæktumst um Miðjarðarhafið.
Ég seldi minn hlut í Uglu 1998 en þá höfðu orðið tíð eigendaskipti. Fyrir nokkrum árum frétti ég af skútunni þar sem hún lá í miklu reiðuleysi á Mallorca. Ég held að það hafi verið Akureyringur sem keypti hana nú fyrir skömmu, sigldi henni til Íslands og byrjaði að gera hana upp. Þá var það ekki síður ánægjulegt að sjá Uglu aftur á Siglufirði eftir öll þessi ár.
Sagt er að mestu ánægjustundir skútueigandans sé dagurinn sem hann kaupir skútuna og svo dagurinn sem hann selur hana. Þetta getur að hluta til verið staðreynd í það minnsta var ég feginn þegar ég seldi hlut minn í Uglu. Þessu fylgdi þó viss eftirsjá og síðar keypti ég hlut í 50 feta skútu sem við vorum með nokkrir eigendur í nokkur ár í Slóveníu og Króatíu.Þrátt fyrir að sú skúta væri mikið glæsifley kom hún aldrei aldrei í stað Uglu. Munaði þar mest um þá öryggistilfinningu sem ég hafði ætíð er ég sigldi Uglu. En það er nú önnur saga.
1984 Ugla ný í Vasterby í Svíþjóð
Í sænska skerjagarðinum, Stefán Már og Valtýr
Í Djúpuvík á Ströndum 1987
Á nætursiglingu til Siglufjarðar 1987
Leitað að hafnarstæði í Lissabon 1990
Komið við á Benidorm að heilsa upp á pabba og mömmu. Á myndinni má einnig sjá Friðrik Arngrímsson.
Á leið frá Benidorm til Mallorca 1991. Hásetarnir eru að gera klárt fyrir Ibiza.
Á legu við Menorca 1992
Texti: Valtýr Sigurðsson
Aðrar myndir: Valtýr Sigurðsson
Athugasemdir