Siglfirðingar síga í Grímsey

Siglfirðingar síga í Grímsey Í nærri tuttugu vor hefur Gunnar Júlíusson vélstjóri og útgerðarmaður siglt með vinum sínum og félögum út í Grímsey til að

Fréttir

Siglfirðingar síga í Grímsey

Í nærri tuttugu vor hefur Gunnar Júlíusson vélstjóri og útgerðarmaður siglt með vinum sínum og félögum út í Grímsey til að siga eftir bjargfuglaeggjum.

Lengi var Rögnvaldur Gottskálksson sigmaður í þessum ferðum, nokkrum sinnum hefur Gunnar sjálfur hætt sér fram af brúninni en mörg undanfarin ár hefur sonur hans Gunnar Þór verið aðalsigmaðurinn.



Að þessu sinni, dagana 21. og 22. maí, var það Arnar Björnsson sem sýndi þá hugdirfsku sem þarf til að spranga um í þverhníptu bjarginu. Hér er hann ásamt Gunnari tilbúinn í sitt annað sig í Grímsey.



Hér gengur Gunnar kyrfilega frá sigbeltinu tengdu traustum nælonvað og gætir fyllsta öryggis.



Arnar festir á sig hjálminn, sennilega traustur skíðahjálmur þetta. Arnar er sonur Maríu Jóhannsdóttur og Björns Ólafssonar og á því ættir að rekja til hraustra bænda og sjómanna í Héðinsfirði, á Siglunesi og í Fljótum.



Svo er eggjakarfan spennt sigmanninum á bak. Áður fyrr höfðu menn um sig strigapoka, sem kallaður var hempa eða sigmannsskyrta, sem þeir fylltu eggjum.



Allt að verða klárt, sigmaðurinn á brúninni með eggjaháf og talstöðin reynd. Þrettán manns voru í þessum leiðangri og spenna lá í loftinu því sumir höfðu ekki orðið vitni að bjargsigi fyrr.



Sigmaðurinn heldur afslappaður um vaðinn annarri hendi og svo er lagt ofan brúnina. Svarrandi brimið á skerjum allt að 105 metrum neðar.



Vaðurinn í traustum höndum Óskars Ólafssonar bónda í Svartárdal. Honum hefur verið brugðið um kopp á "Ramanum" hans Gunnars og Orri dóttursonur hans og Jóhann sonur Óskars aðstoða við að gefa eftir.



Raminn uppi á bjarginu og Arnar sem nær ósýnilegur depill í hengifluginu. Kvöldsett er, sólin skín úr norðvestri og fjarlægur brimgnýr og garg þúsunda fugla fyllir loftið.



Eftir ríflega hálftíma kallar Arnar: hífa! Og þá leggur raminn hægt af stað og Gunnar stýrir suður þýft eylendið og er í stöðugu sambandi við sigmanninn. Áður sátu sex og sjö menn undir vaðnum og drógu upp.



Eggjakarfan losuð af Arnari – þetta getur orðið nokkur byrði þegar 150-180 egg hafa verið tekin í einni ferð.



Eggin í körfunni. Þarna liggja þau í margvíslegum litbrigðum, langvíueggin, sem eingöngu eru tekin. Einstaka stuttnefjuegg gæti þó leynst innanum en egg ritunnar, álkunnar, lundans og fýlsins eru látin óhreyfð.



Þarna telja þeir eggin úr körfunni, Vigri dóttursonur Gunnars og Stefán Gissurarson ... 73, 112, 150, 121 og 93 egg bar karfan á þessu vori.



Myndað í bak og fyrir. Í för voru Spánverjarnir, Carla Andrade ljósmyndari og Lois Patino kvikmyndagerðarmaður, en þau hafa dvalið á Siglufirði í sjö vikur við vinnu sína, fyrst í Herhúsinu og síðan í Sæluhúsinu.



Gunni Júl, reynir fyrsta eggið og sýpur – og það er nýorpið og óstropað!



Kominn nýr dagur og sól skín hátt á lofti þegar sigið hefst á ný. Kvöldið áður voru tekin þrjú sig í landi Orra Vigfússonar en nú var komið í bjarg í eigu Grímseyinga og þar renndi Arnar sér tvisvar fram af brúninni.



Neðst í bjarginu til vinstri má greina gulan depil: Arnar í síðasta og lengsta siginu – 85 metrar niður!



Fengurinn og farangur kominn á stað heim. Um 550 egg í körfum og sumir reynslunni ríkari.



Eftir talsverða brælu á útleið en skaplegri heimferð, „Siglu fríði fjörðurinn faðminn býður móti“ ferðalöngum.

Texti og myndir: Örlygur Kristfinnsson















Athugasemdir

21.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst