Símaskránni dreift til íbúa á Siglufirði
Ný símaskrá fyrir 2012/2013 kemur út í dag. Íbúar á Siglufirði geta nálgast nýju símaskrána í afgreiðslu Póstsins við Aðalgötu 24. Þangað má einnig skila gömlum símaskrám til endurvinnslu.
Símaskráin í ár er helguð
sviðslistum og tók Frú Vigdís Finnbogadóttir við fyrsta eintakinu af skránni
við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu fyrr í dag. Meðfylgjandi er
fréttatilkynning vegna útgáfu símaskrárinnar.
Baksvið Borgarleikhússins er innblástur Símaskrárinnar 2012-2013. Frú Vigdís Finnbogadóttir tók við fyrsta eintakinu. Íslenska Símaskráin hefur komið út frá árinu 1905. Símaskráin er 1584 bls. í einu bindi og er prentuð í 140.000 eintökum. Almenningur getur nálgast skrána á um 100 stöðum um land allt.
Magnús Geir: „Við viljum að leikhúsið sé í virku samtali við samfélagið, spyrji áleitinna spurninga sem þjóðin vill heyra og þarf að heyra. Leikhúsið á að vera opið og með breiðan faðm. Enginn hefur gert þetta betur en Vigdís og því er við hæfi að hún fái fyrsta eintakið af þessari bók“
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, tók í dag við fyrsta eintakinu af Símaskránni úr hendi Magnúsar Geirs Þórðarsonar, núverandi leikhússtjóra, í Borgarleikhúsinu að viðstöddum leikurum og öðrum starfsmönnum leikhússins. Kápa Símaskrárinnar og myndskreytingar á innsíðum hennar eru að þessu sinni helgaðar leikhúslífi og þeim sess sem leikhús skipar hjá þjóðinni. Starfsfólk leikhússins vildi beina athyglinni að hlutverki leikhússins í samfélaginu, samtalinu sem það á við þjóðina og því starfi sem fer fram á bakvið tjöldin í leikhúsinu. Kápa Símaskrárinnar sýnir svo það sjónarhorn sem blasir við leikurum á sviði leikhússins þegar þeir horfa út til áhorfenda. Valin var mynd þar sem andlit áhorfenda eru vel greinanleg til að minna á að áhorfendur taka virkan þátt í þeirri upplifun sem hver leiksýning er. Innsíður Símaskrárinnar eru svo með 800 litmyndum af fólki við störf sín bakviðs í leikhúsinu og það er skemmtileg nýjung að myndirnar eru útfærðar á þann veg að með því að fletta síðum Símaskrárinnar hratt þá má búa til litlar hreyfimyndir af leikhúsfólkinu við störf. Vonast er til þess að myndefnið opni lesendum heim að tjaldabaki leikhúsa sem þeim er að jafnaði hulinn og auki þannig áhuga á leiklist meðal þjóðarinnar.
Yfir hundrað ára
útgáfusaga
Símaskráin kom fyrst út árið 1905 og inniheldur öll skráð símanúmer
einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi. Nú sem endranær má finna ýmsar
upplýsingasíður í skránni, meðal annars lista yfir þær bæjar- og
menningarhátíðir sem fram fara á árinu og einnig ýmis kort sem margir nýta sér.
Símaskráin kemur út í 140 þúsund eintökum og er 1584 blaðsíður að þessu sinni
sem er aukning um 24 síður. Skráin er prentuð á umhverfisvænan hátt líkt og
undanfarin ár. Allir geta fengið eitt eintak án endurgjalds með karton
kiljukápu. Einnig er hægt að kaupa Símaskrána innbundna og stór hópur velur að
fá skrána þannig.
Aðgengileg á yfir 100
stöðum um land allt frá og með deginum í dag
Á höfuðborgarsvæðinu verður
Símaskráin aðgengileg í anddyri Borgarleikhússins, í öllum verslunum Símans og
Vodafone, við bensínstöðvar Olís og Skeljungs, verslunum Krónunnar og á
skrifstofu Já, í Glæsibæ frá og með deginum í dag. Á landsbyggðinni verður hægt
að nálgast Símaskrána á afgreiðslustöðvum Póstsins og verslun Vodafone og
Símans á Akureyri. Fólki er bent á að hægt er koma með eldri símaskrár til
endurvinnslu á eftirtöldum stöðum: Bensínstöðvum Olís og Skeljungs, við
verslun Símans Ármúla og á öllum afgreiðslustöðvum Póstsins á
landsbyggðinni.
Magnús Geir Þórðarson,
leikhússtjóri Borgarleikhússins:
„Okkur þótti einstaklega
ánægjulegt að ákveðið hefði verið að í Símaskránni 2012 væri sjónum beint að
leiklistinni, en sem kunnugt er hefur íslensk myndlist og ljósmyndir gjarnan
prýtt forsíðu Símaskrárinnar. Við tókum þá ákvörðun að leggja áherslu á
áhrifamátt leikhússins og mikilvægi þess í samfélagslegu tilliti. Við
kappkostum að draga fram þá samhyggð sem skapast þegar leiklistin mætir
áhorfendum. Þannig kusum við að halda Borgarleikhúsinu sem slíku í
aukahlutverki en beina kastljósinu þess í stað að leiklist í landinu og þau
áhrif sem hún hefur á þjóðina og samfélagið. Okkar keppikefli var að opna
leikhúsið fyrir landsmönnum og sýna þeim inn í heim sem er þeim að jafnaði
hulinn. Við erum ánægð með útkomuna og vonum að hún kveiki áhuga nýrra
leikhúsunnenda.“
Sigríður Margrét
Oddsdóttir, forstjóri Já:
„Samstarfið við starfsfólk Borgarleikhússins hefur verið ákaflega ánægjulegt og
ég er ánægð með hvernig þau hafa sett mark sitt á Símaskrána. Áherslan er ekki
á einstakar sýningar eða leikárið sem slíkt heldur á störfin sem unnin eru í
leikhúsi og þann þjóðarspegil sem leikhúsið er. Hlutverk leikhússins er
mikilvægt og það er ánægjuefni að bókin sem inniheldur nær alla Íslendinga og
fer inn á flest heimili landsins varpi kastljósinu á leikhúsið.“
Nánari upplýsingar veita:
Magnús Geir Þórðarson,
leikhússtjóri í s. 698-5262 magnusgeir@borgarleikhus.is
Hildur Harðardóttir, markaðsstjóri Borgarleikhússins í s. 897-8809 hildur@borgarleikhus.is
Guðmundur H. Björnsson, vörustjóri Já í s. 845-8200 gudmundur@ja.is
Kv. Herdís Ósk Helgadóttir
Athugasemdir