Norrænar sumarbúðir í Ólafsfirði.
Norræna félagið í Ólafsfirði hefur undanfarin ár sent unglinga, ásamt fararstjóra, til sumarbúða sem haldnar hafa verið í Hilleröd, vinarbæ Ólafsfjarðar.
Á síðastliðnu ári gerist það síðan að upp kemur ósk frá dönunum um að sumarbúðirnar verði annarsstaðar en hjá þeim, þannig að dönsku krakkarnir fengju tækifæri til að fara og kynnast aðstæðum hjá öðrum.
Það varð því úr að búðirnar yrðu haldnar í Ólafsfirði að þessu sinni, og hafa dvalið 40 krakkar með fararstjórum í Ólafsfirði í vikunni sem tekið hafa þátt í hinum ýmsu námskeiðum, m.a. silfursmíði hjá honum Brynjari á Siglufirði, útskurði á tré hjá henni Kristínu Trampe í Ólafsfirði, golf-námskeiði hjá Rósu og Bjössa í Golfklúbbi Ólafsfjarðar ásamt því að elstu krakkarnir fóru á björgunarsveitaræfingu með björgunarsveitinni Tindi.
Ennfremur var farið í hvalaskoðun, á hestbak, gönguferð út í Fossdalr ásamt því að söfnin voru heimsótt, á Siglufirði og í Ólafsfirði.
Þetta framtak hefur gengið mjög vel og mikil ánægja meðal krakkanna með dvölina hér í Fjallabyggð, og viðburðina sem þeim hefur verið boðið uppá.
Það var Kristín Davíðsdóttir, kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar og formaður norræna félagsins í Ólafsfirði sem hafði veg og vanda af þessum sumarbúðum og skipulagningu þeirra.
Texti: Aðsendur
Myndir: GJS
Athugasemdir