Skemmtileg frétt frá 1967. Afreksmađur á skíđum
Þessi frétt var birt í Morgunblaðinu mánudaginn 17. maí 1967
Það þykja varla neinar stórfréttir þó einstakir íþróttamenn taki þátt í íþróttamótum. Mig langar þó að segja frá einum, sem tekið hefur þátt í mörgum mótum við dálítið óvenjulegar aðstæður. Það er skíðakappinn Sveinn Sveinsson, sjómaður frá Siglufirði.
Sveinn hefur umárabil verið í fremstu röð íslenska skíðamanna keppt á ótal mótum og oftast verið meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaun. Þá hefur hann m.a, sjö sinnum, orðið Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni, ganga og stökk, tvisvar Íslandsmeistari í stökki og einu sinni i 15 km göngu.
Þessi árangur Sveins er mjög athyglisverður, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, að hann hefur verið sjómaður frá 18 ára aldri.
Oft hafa einu tímarnir sem hann hefur átt til æfinga fyrir íslandsmót verið landlegudagar, þegar bátur sá sem hann var á hverju sinni, gat ekki róið og þá stundum, jafnvel ekki heldur verið veður til skíðaiðkana. Oft hefur Sveinn þó tekið sér 2-3ja vikna frí fyrir Íslandsmót.
Allan sinn sjómannsferil hefur Sveinn verið á síldar eða línubátum og á togurum, en sl. sumar breytti hann til og réðist á síldar og lýsisflutningaskipið “Haförninn”.
Í vetur hefur skipið verið í flutningum til erlendra hafna, svo Sveinn hafði engin tækifæri til æfinga i vetur, en samt hafði hann hugsað sér, ef tækifæri gæfist að fá sér frí síðasta "túr" fyrir Íslandsmót, æfa í nokkra daga og taka þátt.
Haförninn kom hálfum mánuði fyrir Íslandsmótið til Siglufjarðar og Sveinn fékk fríið sitt langþráða. Tíminn virtist heppilegur því ekki var búist við skipinu aftur heim fyrr en eftir páska.
En það fór á annan veg. Ferðin gekk óvenjulega vel, svo og losun erlendis, svo séð varð að skipið kæmi fyrir páska er skíðamótið hæfist.
Sveinn var búinn að sætta sig við það að verða af Íslandsmótinu, er hann fékk fréttir af því að félagar hans á skipinu hefðu ekki sætt sig við það, Sveinn skyldi keppa.
Þeir báðu útgerðina að óska eftir því við Svein að hann tæki þátt í Skíðalandsmótinu og fengi sér síðan flugferð eftir mótið til Þýskalands, en skipsfélagar hans, allir sem einn, greiddu kostnaðinn. Útgerðin samþykkti, Sveinn tók auðvitað þessu ágæta boði og fór að æfa af kappi, þ.e. þegar veður leyfði, en vonskuveður var flesta dagana fyrir svo og mótsdagana.
Árangur Sveins á mótinu var frábær. Í 15 km göngu varð hann að sætta sig við 11. sætið, en ég endurtek hér orð fyrrverandi Skíðakóngs Íslands, Jónasar Ásgeirssonar: “Árangur Sveins er hreint kraftaverk. Og hann hefði ekki verið nr. 11 ef hann hefði getað æft eins og hinir”.
Í stökkkeppni mótsins varð hann annar. En þar var hann óheppinn með rásmark (nr. 1) og snjókoma réði miklu um að hann hreppti ekki titilinn að dómi undirritaðs.
Í norrænni tvíkeppni varð Sveinn þriðji, en í þeirri keppni átti Sveinn lengsta stökk mótsins, 48 metra, eða 5 metrum lengra en nokkur annar stökk þennan dag.
Sveinn flaug svo utan og hitti skipsfélaga sína það er ekki að efa að þeir fögnuðu honum ákaft.
Athugasemdir