Skíðaminjasafn á Siglufirði
sksiglo.is | Almennt | 20.05.2011 | 12:00 | Guðmundur Skarphéðinsson | Lestrar 443 | Athugasemdir ( )
Þann 1. mars 2010 var gerður samningur milli FÁUM, félags áhugamanna um minjasafn, og nokkurra áhugamanna um varðveislu skíðaminja á Siglufirði. Stofnuð var sérstök skíðaminjadeild innan FÁUM í samvinnu við Síldarminjasafnið, en starfsmenn safnsins annast skráningu gripa sem berast deildinni.
Nú þegar hefur verið sett upp sýning í gamla Ísafoldarhúsinu við Gránugötu, en eigandi húsnæðisins er Ýmir ehf. sem hefur lánað afnot af húsinu undir starfsemina. Standsetning hússins er langt komin og hefur öll vinna verið unnin í sjálfboðavinnu en efnið hefur verið fjármagnað með styrkjum úr ýmsum áttum. Má þar nefna Menningarsjóð Sparisjóðs Siglufjarðar, Menningarsjóð KEA og Fjallabyggð. Mikið var til af munum þegar lagt var af stað með verkefnið og er grunnurinn safn Birgis Guðlaugssonar heitins, eins fremsta skíðamanns Siglufjarðar. Segja má að aðstandendur skíðaminjadeildar, þeir Bjarni Þorgeirsson, Jón Andrjes Hinriksson, Benóný Sigurður Þorkelsson og Rögnvaldur Þórðarson hafi tekið við kyndlinum, en kapparnir vilja færa skíðasögu Siglufjarðar til vegs og virðingar. Markmið skíðaminjadeildar er að safna gripum, ljósmyndum og öðrum heimildum sem tengjast skíðaiðkun siglfirðinga á liðinni öld. Vel hefur gengið að safna gripum og er enn mikið í farvatninu. Við hvetjum alla sem eitthvað eiga af skíðamunum og ekki síst ljósmyndum að hafa samband. Jón Andrjes 866-3970, Bjarni Þorgeirs 867-1590, Valdi Þórðar 899-0905. Sýningin er opin samkvæmt samkomulagi og er hægt að hafa samband við ofantalda ef áhugi er á að skoða safnið.
Texti. Jón Andrjes
Ljósm. GJS
Athugasemdir