Smá föl
Þegar ég tók kvöldrúntinn í gærkvöldi, sunnudagskvöldið 6. okt. þá fannst mér einhvernveginn vera ögn jólalegt um að litast.
Ég fór að sjálfsögðu að hugsa um hvað ég ætti að hafa í jólamatinn. Það verður nú að vera eitthvað alveg sérstaklega huggulegt og mikið af því. Humar? Já hugsanlega í forrétt (vonandi smjörsteiktan í hvítlauk) og einhverjar fleiri matarpælingar komu upp í kollinn í cirka 25 mínútur ef ég á að vera alveg heiðarlegur og hafði ég virkilega gaman af þessum pælingum.
Alls konar hugmyndir um eldunar aðferðir á hinu og þessu hráefni komu upp í hugann ásamt því að hugsa út í vanlíðan og buxnafráhneppingar af ofáti sem er samt eitthvað svo undursamlega notaleg tilfinning. Mér datt í hug setningin sem faðir minn segir stundum "manni líður ekki vel fyrr en manni líður illa af of-áti" . Meira þarf ekki að segja, þetta er bara sönn setning. En nóg af matarpælingum.
Því næst hugsaði ég út í hvað hún Ólöf mín myndi nú gefa mér fallegt og mikið í jólagjöf. Þegar ég var búinn að pæla ögn í þessum jólalegu hugsunum um hvað Ólöf myndi gefa karli í jólagjöf skaut niður í kollinn á mér að ég þyrfti að finna einhverja jólagjöf handa henni. Og þegar ég var búinn að hugsa um það eitt agnarlítið augnablik voru þessar hugsanir hættar að vera jólalegar hugsanir og pælingar og hugsanirnar og pælingarnar orðnar sambland af stressi, ótta, kvíða og höfuðverk ásamt smá svitaperlum á enni. En ég huggaði mig við það að jólaölið er komið í búðir og snarhætti svo að hugsa um jólin, fór í sjoppuna og keypti mér ís og Jólaöl frá Egils. Þetta á ekki að vera dulbúin auglýsing fyrir Egils, það var bara ekkert annað jólaöl komið í sjoppuna.
En veðurstofan spáir cirka 7-10 stiga hita þegar líður á vikuna þannig að þessi snjóföl verður líklega ekki langlíf, sem betur fer segja sumir og aðrir segja því miður og líklega eru þeir eitthvað aðeins færri í seinni hópnum en ég held samt sem áður með þeim hópi.
Múlaberg SI-22
Athugasemdir