Snjóflóð víða og nokkuð stór
Fyrir nokkru féllu snjóflóð í Skjaldargili ofan við hesthúsin á Siglufirði en töluvert hefur fallið af litlum og stórum flóðum undanvarna viku á svæðinu enda hefur snjóað óvenju mikið.
Snjóflóðið í Skjaldargili er svokallað kóf hlaup þar sem mikið snjóský myndast við flóðið en það byggist upp af miklum massa sem skríður fram af miklum hraða. Fyrir neðan gilið hefur staðið járntankur til lengri tíma en samkvæmt Gesti Hansa er hann nú farinn á hliðina. Það sem vegfarendur sjá ofan við hesthúsin eru í raun tvö flóð sem hafa fallið með stuttu millibili.
Annars hafa snjóflóð fallið víða og nokkur til að mynda í Skútudal en húsin þar eru nú á kafi. Þrjú flóð hafa fallið við Núpuskálar utan við Kálfsdal, þar af eitt sem hefur farið alla leið út í sjó.
Eins og sést á vedur.is þá er töluverð hætta á flóðum núna enda ný snjóalög að myndast og því gott að fylgjast með vefspánni. Mikilli hættu hefur verið lýst yfir á utanverðum Tröllaskaga síðastliðna viku og núverandi spá gildir út mánudaginn 22.apríl.
Athugasemdir