Sparslað, málað, gert og græjað á Aðalgötu 15
Þegar ég geystist niður Aðalgötuna á cirka 32 kílómetra hraða var mér litið inn um glugga á neðstu hæð Aðalgötu 15 (fyrir brottflutta: Þormóðs Eyjólfssonar, Hemma Jónasar húsið) og sá þá Steinu Matt á fullu við að sparsla, mála, gera og græja.
Vægast sagt agndofa fylgdist Brynjar nokkur Harðarson með fullur eftirvæntingar um hvað myndi töfrast næst fram frá fingurgómunum á Steinu.
Þar sem ég þekki þau nú bæði betur en báða lófana á mér ákvað ég að skunda inn og spyrja hvað
í ósköpunum væri í gangi, og það yfir háskaðræðistímann (rétt fyrir kvöldmat) svona á laugardegi?
Samkvæmt Steinu á þarna á að vera næsti viðkomustaður Kjólakistunnar, fataverslunar í eigu Steinu Matt og Söndru Finns. Brynjar
hafði hins vegar ekki hugmynd um hvað ætti að koma þarna en kvaðst vera kominn til að fá uppskrift af sósu hjá Steinu, hann og Dóri
væru nefnilega að elda pylsur og nautahrossagúllas fyrir einhverja skíðamenn.
En nóg af því og nánar um það sem er að gerast á Aðalgötu 15. Þarna er búið að stúka af og gera
mátunarklefa, sem fyrir mér virkuðu svo rúmgóðir að ég spurði hvort Hjalti Gunn (unnusti Söndru) og Dóri (unnusti eða
eiginmaður, er ekki alveg viss, mér var allavega ekki boðið í brúðkaupið, Steinu) ætluðu að máta einhverjar flíkur þarna
báðir í einu? Steina vildi þó meina að þeir máti víst ekki svona dömuföt nema eftir lokun á daginn, en bara þegar Hjalti
er í landi.
Þetta verður án vafa glæsilegt í alla staði og vonandi getum við fengið að fylgjast með Steinu, Söndru og fjélögum smella upp cirka
einu stk. af verslunarhúsnæði fyrir allskonar dömuföt, trefla og allskonar þessháttar með virkilega góðu efni í fyrir dömur á
öllum mögulegum og ómögulegum aldri. Í raun finnst mér að sem flestir sem leggja leið sína á Siglufjörð, sem er svona í
framhjáhlaupi fallegasti staður í heimi og þá dreg ég frekar úr en hitt, ættu að kíkka og skoða þessa geggjuðu verslun sem
Kjólakistan er. Ekki spurning að hún á bara eftir að verða betri eftir því sem árunum fjölgar.
Góðar stundir, sérstaklega til ykkar sem þurfið að búa annars staðar en akkúrat hérna á Sigló.
Myndir og texti:
Hrólfur Baldursson
Athugasemdir