Special Tours og Artic Seatours sameinast
Innsent efni.
Special Tours, fyrirtæki sem staðsett er við gömlu höfnina í Reykjavík og sérhæfir sig í sjóferðum fyrir ferðamenn, hefur nú fært út kvíarnar norður yfir heiðar, en eigendur fyrirtækisins hafa keypt helmingshlut í Arctic Sea Tours á Dalvík. Special Tours bjóða upp á eitt fjölbreyttasta úrval sjóferða á Íslandi, og má þar helst nefna hvalaskoðun, lundaskoðun, sjóstangveiði, norðurljósaferðir og kvöldverðarsiglingar.
Freyr Antonsson stofnaði Arctic Seatours árið 2009 og hefur tekist einstaklega vel til í rekstri þess undanfarin ár með stöðugum vexti og fjölgun ferða. Í þessum ferðum sjást ósjaldan stórhveli, svo sem hnúfubakur og steypireiður. Freyr mun áfram sjá um rekstur Arctic Sea Tours og starfa þar sem framkvæmdastjóri.
„Við viljum bjóða fleiri ævintýraferðir á sjó í Eyjafirði og það var okkar markmið að fá einhvern í lið með okkur til að framkvæma það. Viðræður við Special Tours tóku stuttan tíma og það var strax samhljómur í því sem við ætluðum að gera. Við erum því mjög ánægð að tengjast eigendum og starfsfólki Special Tours og spennt fyrir framtíðaruppbygginu í Eyjafirði.” segir Freyr Antonsson framkvæmdastjóri og einn af eigendum Arctic Sea Tours
Þetta er einstakt tækifæri fyrir bæði fyrirtækin. Special Tours hefur vaxið hratt og vel undanfarin ár með ferðir sínar frá Reykjavík og bæði fyrirtækin hafa byggt upp mjög gott orðspor, bæði innanlands og utan, í hvalaskoðun og sjóferðum á Íslandi. Má til gamans geta að Arctic Sea Tours er með hæstu mögulegu einkunn á Tripadvisor, sem er vinsælasta ummælasíða heims.
„Við sjáum mikil tækifæri í afþreyingu á sjó á utanverðum Eyjafirði. Special Tours hefur verið í fararbroddi við að koma með nýjar afþreyingarferðir á sjó og mun sú þróun verða enn hraðari með tilkomu Arctic Sea Tours inn í hópinn. Við erum þegar með nokkrar ferðir á teikniborðinu á Eyjafirði, allt frá Akureyri og út undir Grímsey. Það er aukin umferð um Dalvík og um Tröllaskagann þar sem leið fjölda ferðamanna liggur ár hvert, og hefur verið mikil og vaxandi uppbygging í ferðaþjónustu á þessum slóðum síðastliðin ár. Við hlökkum til að taka þátt í þessari uppbyggingu með Frey og öðrum heimamönnum." segir Hjörtur Hinriksson, framkvæmdastjóri og einn af eigendum Special Tours.
Athugasemdir