Stangveiðifélag Siglfirðinga

Stangveiðifélag Siglfirðinga Ég get nú aldeilis sagt ykkur frá því að ég er orðinn stolltur meðlimur í Stangveiðfélagi Siglfirðinga

Fréttir

Stangveiðifélag Siglfirðinga

Ég get nú aldeilis sagt ykkur frá því að ég er orðinn stolltur meðlimur í Stangveiðfélagi Siglfirðinga.

Ég var boðaður á haustfund laugardaginn síðastliðinn, 19. október.

Mér leið eins og ég væri að fara í skólann í fyrsta skiptið, og sagði frúnni að ég væri að fara á fund og hún mætti bara alls ekki koma með og hún þyrfti ekki að vaka eftir mér, ekki frekar en hún vildi, sem ég vissi að hún vildi alls ekki. En hún vill alls ekki vaka eftir mér vegna þess að ég vill alltaf fara að danza þegar ég kem heim eftir gott kvöld úti með strákunum. Stundum hefur hún meira að segja þóst vera sofandi. En nóg um það. 


Spenntur, stolltur, örlítið grobbinn, furðu lítið stressaður og algjörlega ósveittur og offsalega glaður var ég þegar Jói Ott sótti mig til að fara á fundinn.

Ég mæti á fundinn og fæ mér sæti og þá voru flest allir mættir ef ekki bara allir. Þannig að nú leið mér eins og ég væri of seinn í skólann fyrsta skiptið og allt í mínus. En ég var lítið ef þá nokkuð skammaður og líklega eru engar orðuveitingar fyrir mætingu. En það þarf svosem ekki að hafa áhyggjur af mætingu, ég mun mæta á alla svona fundi sem verða ef ég á þess nokkurn kost.

Byrjað var á undirskrift samnings fyrir veiði í Flókadalsá efri. Undir skrifuðu þeir Örn Þórarinsson fyrir hönd Flóka og Gunnlaugur Guðleifsson fyrir hönd Stangveiðifélagsins.

3 nýir félagar voru teknir inn í félagið að þessu sinni, þeir Jón Hrólfur Baldursson (semsagt ég), Birgir Már Bragason og Ómar Óskarsson.   

Haustfundur Stangveiðifélags Siglfirðinga var ansi hreint skemmtilegur fundur, mikið spjall og mikið hlegið (og stundum jafnvel grátið úr hlátri). Sögurnar sem fengu að fjúka þarna voru kostulegar, bæði veiðisögur og aðrar sögur og þegar yfir lauk þá toppaði Pétur Bjarna með þeirri sögu að hann náði hval á land í Fljótaánni. Hvalurinn var nýlega búinn að gleypa sel, og allt saman náðist þetta á Rauðan Francis. Baráttan var ógurleg og tók hátt í 2 klukkutíma og sagan líklega líka, þvílík voru tilþrifin. Þess má geta að Pétur hefur 2x hlotið þann heiður að veiða minnsta laxinn í Fljótaá, 31 cm og 34 cm.

Hannes Pétur Baldvinsson var sæmdur heiðursmerki félagsins fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og ég held að ég tali fyrir munn allra að Hannes átti þetta heiðursmerki fyllilega skilið, en ég held að Hannes hafi haft afskipti af félaginu í 25 ár.

Einnig voru sæmdir gullmerki félagsins þeir Ómar Hauksson, Þorgeir Bjarnason og Sigurbjörn Jóhannsson fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Einhverjir stóðu upp og fóru með smá tölu og oftar en ekki var hlegið að því sem kom fram í ræðum og spjalli.

Eins og gengur og gerist á aðalfundum var boðið upp á mat og drykk og var það vel veitt og skemmtunin magnaðist þegar leið á kvöldið. Það er mér líka ljúft og skylt að taka það fram að þjónustan sem Valdís María Stefánsdóttir bauð upp á var alveg hreint til sóma og Valdís sá svo sannarlega til þess að ekkert vantaði upp á. Takk fyrir mig og okkur Valdís.

Ég held líka að Hörður Júlíusson eigi að fá klapp á bakið fyrir ljómandi gott grillað lambakjöt, sósu en um meðlætið sáu þeir Eiður Hafþórsson og Pétur Bjarnason sem var líka svona ljómandi gott. Ég var svo spenntur fyrir matnum að ég gleymdi að taka myndir af úlfahjörðinni sem ruddist að borðinu.

Ég ætla að misnota aðstöðu mína hér og þakka kærlega fyrir mig, bæði það að vera tekinn inn í félagið og þessa skemmtilegu stund sem ég átti með þessum heiðurs mönnum.

Svo tók Jóhann Ottesen fullt af myndum sem þið getið dáðst að og eru í flipa undir myndunum hér fyrir neðan.
En þess má geta að Jói er mjög öflugur að mynda þegar hann fær Nikon í hendurnar og tók held ég allt í allt 348 myndir. Sumar voru af því sama en allar held ég bara mjög listrænar og fallegar.

Og svo bendi ég á þessa síðu hér fyrir neðan sem er vefsíða Stangveiðfélags Siglufjarðar.

www.salmon.is
 

stangoÖrn Þórarinsson og Gunnlaugur Guðleifsson að handsala samninginn.

stangoHér tekur Hannes Bald við heiðursmerki Stangveiðifélags Siglfirðinga, Hörður Júlíusson í miðið og Gunnlaugur Guðleifsson

stangoGullmerki félagsins fengu þeir Ómar Hauksson, Þorgeir Bjarnason og Sigurbjörn Jóhannsson fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Gunnlaugur lengst til vinstri, Ómar, Þorgeir og Sigurbjörn.

stango2 nýliðar að taka við merki félagsins. Hjalti Gunnarsson til vinstri, Hrólfur Baldurs og Gunnlaugur að rembast við að festa merkið.

stangoFrá vinstri, Jón Heimir Sigurbjörnsson, Þorgeir Bjarnason, Hannes Bald og Gunnlaugur.

stangoOrri Vigfússon og Gunnlaugur.

stangoHörður Júlíusson. Þarna var hann að segja "ég fékk bara einn, pínulítinn". 

stangoÓmar Hauksson.

stangoSkarphéðinn Guðmundsson og Jóhann Sv. Jónsson

stangoValdís María stjanaði hreinlega við okkur.

stangoOg svo myndasmiðurinn Jóhann Ottesen og Gunnlaugur.

Miklu meira af myndum hér.


Athugasemdir

02.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst