Sunnudagaskólinn
sksiglo.is | Almennt | 27.09.2013 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 378 | Athugasemdir ( )
Sunnudagaskólinn.
Að fara í sunnudagaskólann til þeirra Sigga Ægis, Rutar Viðars, Viðars Aðalsteins og fermingarbarna er alveg meiriháttar fjölskyldustund.
Sunnudagaskólinn byrjar klukkan 11:15 og að sjálfsögðu erum við fjölskyldan alltaf í seinni kantinum að mæta í kirkjuna. Og ástæðan er sú að það tekur nefnilega þónokkurn tíma og alveg heilan helling af þolinmæði (sem ég stundum ekki hef) að koma 3 kvennmönnum út úr húsi nákvæmlega rétt dressuðum fyrir kirkjustund.
Jafnvel þó að dömurnar mínar viti að það eru í boði ávextir og grænmeti, stundum vöfflur (ég er nú reyndar aðeins minna fyrir ávextina og grænmetið) eða eitthvað annað alveg hrikalega gómsætt eftir sönginn niðri í kirkju og ég yfirleitt alveg að drepast úr hungri á sunnudagsmorgnum.
Það er nefnilega þannig að þegar börnin eru búin að syngja í kirkjunni (sem er ákaflega skemmtilegt, sérstaklega "Ég vil líkjast Daníel og Rut" söngurinn) við undirleik séra Sigurðar eða Sigga prestakalls eins og ég kalla hann stundum þá er farið upp í safnaðarheimili að föndra. Jafnhliða föndrinu eru bornar fram veitingar, enda þá komið hádegi. Þegar til dæmis vöfflur eru bornar fram er eins og heilagur andi hreinlega hríslist um mann allan og maður verður staðfastari í trúnni á eilíft líf og allsnægtir.
Börnunum finnst þetta skemmtilegt og það sem meira er að foreldrunum finnst nú bara nokkuð skemmtilegt að dunda sér í föndrinu. Mér persónulega finnst skemmtilegra að dunda mér við vöfflur með sultu og rjóma, en svo eru til dæmi um menn eins og Gauta Sveins sem gleymir sér algjörlega í föndrinu. Ég sá hann aldrei fara í vöfflurnar, mér til léttis að sjálfsögðu því þá var meira fyrir mig. Hann föndraði húsnúmer allan tímann sem hann var á svæðinu af svo mikilli nákvæmni og sjálfhverfri íhugun að annað eins hefur ekki sést. Ég man ekki heldur eftir því að hafa séð hann vera að syngja niðri í kirkjunni, hann hefur líklega farið beint upp í föndrið og sleppt söngnum.
Ég verð reyndar að skjóta ögn á kynbræður mína sem ég sá ekki í sunnudagaskólanum þó konur þeirra og börn væru mætt í vöfflumessuna góðu (eins og ég kalla sunnudagskólann stundum).
Eins og til dæmis Óla Biddýjar. Hvar var Óli? Var hann bara heima að skrúfa í sundur grillið? Og Addi Múr sonur Lalla Múr? Hvar var hann? Eyjó, Guðjón Marínó, Ingvar Erlings, og fleiri. Ég held að ég geti fullyrt það að þessir drengir séu nú ekkert sérstaklega matgrannir og rólegir við eldhúsborðið þegar kemur að mat og matarvenjum þannig að vöfflurnar ættu nú að freista þeirra. En svo voru menn sem báru af hvað varðar almennan kirkjuþokka og klæðaburð eins og Sigurgeir Haukur, Gauti Sveins, Maggi í SR og að sjálfsögðu ég.Mætingin síðasta sunnudag var mjög góð eða um 75 manns.Ég ætla að hrósa þeim Sigga, Rut og Viðari alveg sérstaklega fyrir að halda þessu starfi gangandi og gera fjölskyldustundina eins skemmtilega og hún er. Já og veitingarnar jafn góðar og þær eru.Ég gleymdi víst að nefna það það að síðast var líka boðið upp á saltstangir. Það er nefnilega mjög gott að fá saltstangir til að maula á svona meðfram föndrinu þegar maður er orðin stútfullur af vöfflum og kaffi.
Þetta er meiriháttar góð fjölskyldustund sem ég vill alls ekki missa af þó svo að það verði aðal áherslan lögð á ávexti og annað hollustumeti í framtíðinni. Þau hljóta nú að smella í eina og eina vöfflu með kaffinu þegar nær líður jólum.
Fermingarbörnin sem sáu um veitingarnar og að strauja perlurnar fyrir Gauta. Rut stendur hjá þeim og Viðar og Séra Siggi á bak við og klukkuna vantaði cirka 17 mínútur í 12:00.
Edda var mætt en Addi sást ekki.
Verðandi fermingarbörn stóðu sig með sóma.
Viðar er ómissandi þegar kemur að verkefnum í kring um sunnudagaskólann.
Gauti að perla. Þið sjáið son hans þarna til hægri að bíða eftir perluspjaldinu.
Sigurlaug að perla.
Gauti stoltur með dagsverkið.
Meira af myndum hér.
Athugasemdir