Í eftirlitsflugi Sifjar
Í
eftirlitsflugi Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar aðfaranótt
föstudags, fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins, greindist í
eftirlitsbúnaði flugvélarinnar grunsamlegur bátur sem staðsettur var
16,6 sjómílur suðaustur af Otranto, í Pugliu á Ítalíu.
Á þaki bátsins sást uppblásinn slöngubátur og ofan þilja nokkrar persónur, þ.a.m. börn. Opinn hleri var á bátnum og sýndi hitamyndavél flugvélarinnar að talsverðan hita lagði út um opið. Vaknaði því grunur um að fjöldi fólks væri neðan þilja. Haft var samband við tengilið Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð Frontex í Róm og var strax ákveðið að senda varðskip í veg fyrir bátinn.
Var ítalskt varðskip staðsett í um 10 sjómílna fjarlægð frá bátnum og hélt það samstundis á vettvang. Við rannsókn þeirra um borð kom í ljós að í bátnum voru 37 flóttamenn, 27 fullorðnir karlmenn og 10 drengir. Engar konur eða stúlkubörn. Einnig voru um borð tveir skipuleggjendur smyglsins (facilitators), Rússi og Úkraínumaður. Voru þeir handteknir og fluttir til hafnar á Ítalíu.
Á stöðufundi stjórnstöðvarinnar var sérstaklega rætt um góða samvinnu og samskipti milli áhafnar flugvélarinnar, stjórnstöðvarinnar í Róm og ítalska varðskipsins.
Texti og myndir: LHG
Athugasemdir