Það getur líka rignt á Sigló
Vottað hefur fyrir einhverri vætu á Siglufirði síðustu daga og er nú sérlega blautt orðið á því mikla undirlendi sem við eigum á eyrinni.
Mikil hálka fylgir vætunni að þessu sinni enda liggur nú rennblautur klaki yfir öllu og því verulega varhugavert að vera á ferð. Sá sandur sem stráð hefði verið á götur bæjarins er nú að miklu horfinn af íshellunni og því lítið grip fyrir akandi vegfarandur og þá sérstaklega þá gangandi.
Ekkert lát virðist vera á rigningu í kortum veðurstofunnar en á morgun verður grenjandi rigning og á sunnudag úrhelli. Verða snúrustaurarnir því væntanlega heldur sparaðir næstu daga.
Veruleg hálka er við smábátahöfnina og nær klakabreiðan fram af bakkanum.
Mikil hálka er á bílastæðinu hjá SR sem og flestum öðrum bílastæðum bæjarins.
Það var öldugangur í Ísafoldarsundi og krap lág yfir vatnsaganum sem safnast hafði þar saman yfir stífluðum ræsunum.
Athugasemdir