UMF Glói í Nóvembermóti UFA

UMF Glói í Nóvembermóti UFA Nokkrir af yngri iđkendum Umf Glóa í frjálsum íţróttum tóku ţátt í Nóvembermóti UFA (Ungmennafélags Akureyrar) í Boganum á

Fréttir

UMF Glói í Nóvembermóti UFA

 Við höfðum samband við Þórarinn Hannesson eða Tóta eins og Siglfirðingar flestir þekkja hann og báðum hann að senda okkur upplýsingar og myndir af krökkunum sem kepptu í Nóvembermóti UFA síðustu helgi.

Tóti hefur náð góðum árangri með ungmennafélagið og er óþreytandi að þjálfa krakkana og sinna því flotta starfi sem UMF Glói sinnir.

 

En sjáum hvað Tóti hafði um mótið að segja.

Nokkrir af yngri iðkendum Umf Glóa í frjálsum íþróttum tóku þátt í Nóvembermóti UFA (Ungmennafélags Akureyrar) í Boganum á Akureyri sl. laugardag. Eldri iðkendur félagsins voru flestir annað hvort að keppa í badminton í Mosfellsbæ eða að spila fótbolta austur á fjörðum (já, það er nóg að gera í íþróttunum hjá siglfirskri æsku).

Keppendur Glóa á þessu móti voru sex talsins og kepptu þau öll í flokki 10-11 ára þó þrjú þeirra séu enn á níunda árinu og fjórir keppendanna voru að taka þátt í móti utan Siglufjarðar í fyrsta sinn. Árangur siglfirsku krakkanna var mjög góður, voru þau í verðlaunasætum í fjölda greina og settu alls 8 siglfirsk aldursflokkamet. Bjartmar Ari Aðalsteinsson (10 ára) setti 4 siglfirsk met í sínum aldursflokki, Anna Brynja Agnarsdóttir (9 ára)setti 3 met og nældi sér í tvenn gullverðlaun og Amalía Þórarinsdóttir (9 ára) setti 1 siglfirskt aldursflokkamet. Allir keppendur kepptu í  mörgum greinum og  bættu afrek sín í flestum þeirra eða voru að keppa í fyrsta sinn í þeim.

tótiKrakkarnir stolltir eftir mótið.

Til marks um hversu góður árangur krakkanna var þá má geta þess að samkvæmt afrekaskrá Frjálsíþróttasamband Íslands þá er Bjartmar Ari með besta árangur á landinu hjá 10 ára dreng í þremur greinum eftir þetta mót: 60 m grindahlaupi, skutlukasti og kúluvarpi og þann næst besta í langstökki, Anna Brynja er með besta árangurinn í 60 metra grindahlaupi og langstökki hjá 9 ára stúlkum á landinu og Amalía er með besta árangurinn á landinu hjá 9 ára stúlkum í kúluvarpi og skutlukasti.

Kristinn Dagur Guðmundsson (9 ára) stóð sig mjög vel, sérstaklega í hástökki og 60 metra hlaupi og á framtíðina fyrir sér í frjálsum, Guðríður Harpa Elmarsdóttir (11 ára) var að keppa á sínu fyrsta móti og sýndi góða takta og mikinn baráttuvilja sem án efa mun koma henni langt, hún náði m.a. í 3. sætið í hástökki og Unnur Hrefna Elínardóttir (11 ára) nældi sér í gull í 60 metra hlaupi og hafnaði í öðru sæti í öllum hinum 6 greinunum sem hún tók þátt í.

tótiAnna Brynja og Amalía

Svo má ekki gleyma því að allir keppendur skemmtu sér vel og voru vel studdir af foreldrum sínum sem fylgdust spenntir með. 

 Siglo.is þakkar Tóta kærlega fyrir að senda okkur upplýsingarnar um árangur krakkana og myndirnar.


Athugasemdir

30.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst