Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi
sksiglo.is | Almennt | 11.11.2011 | 17:00 | Guðmundur Skarphéðinsson | Lestrar 742 | Athugasemdir ( )
Öllum þeim
sem starfa í ferðaþjónustu á Norðurlandi var boðið að taka þátt í uppskeruhátíð
síðastliðinn fimmtudag. Hátíðin var að þessu sinni haldin við utanverðan
Eyjafjörð og hófst með rútuferð frá Akureyri kl 10 að morgni dags.
Áfram var haldið og áður en komið var að Árskógssandi var farið í kynnisferð til feðganna frá Kálfsskinni, þar sem biðu okkar ljúffengar veitingar frá Ektafiski. Farið var í hópeflisleik með liðsinni Steina og félaga hjá Papco til að hrista hópinn saman.
Og eftir mikið sprell var kominn tími á að fá meiri hressingu og var þá að sjálfsögðu farið í bruggverksmiðjuna Kalda, þar sem besti bjór landsins er framleiddur. Um leið og bragðað var á bjórnum fengum við heilmikla innsýn í framleiðsluferlið og rekstur þessa unga en öfluga fyrirtækis.
Næst var ferðinni heitið til Dalvíkur þar sem farið var um borð í hvalaskoðunarbát – án þess þó að halda úr höfn. Fyrr um daginn vorum við svo heppin að sjá nokkra hvali að leik í firðinum og var það látið duga. Boðið var upp á grillaðan þorks og ýsu ásamt köldu hvítvíni og svo var haldið í Menningarhúsið Berg þar sem nokkrir lítrar af súpu runnu ljúflega niður í mannskapinn.
Á Dalvík fengum við kynningu frá Arcticheliskiing, Bakkabræðrasetrinu, Skeiði og ferðaþjónustunni að Vegamótum. Auk þess var Byggðasafnið Hvoll heimsótt og þaðan var haldið inn í Svarfaðardal með viðkomu á Vegamótum þar sem boðið var upp á léttar veitingar. Friðland fuglanna að Húsabakka var næsti viðkomustaður þar sem skoðuð var hin nýja fuglasýning sem þar er til húsa.
Frá Dalvíkurbyggð var haldið til Fjallabyggðar. Í Ólafsfirði var Fiskeldið Hlíð skoðað og bragðað á gómsætum eldisfiski, reyktum og gröfnum laxi, ásamt silungi. Þá var komið á Hótel Brimnes þar sem hlaðborðið svignaði undan veitingum.
Því næst var ekið í gegnum Héðinsfjarðargöng og upp í skíðasvæðið í Skarðsdal þar sem Egill Rögnvaldsson kynnti starfsemina í fjallinu og bauð upp á kakó og með því.
Þegar komið var í bæinn var byrjað á því að heimsækja Síldarminjasafnið, en þar fór fram síldarsöltun undir jólaljósum, bryggjuball og söngur.
Þaðan var haldið í Kaffi Rauðku þar sem boðið var upp á girnilegt kvöldverðarhlaðborð. Sönghópurinn Gómar skemmti gestum með fallegum söng og Friðfinnur Hauksson sá um veislustjórn. Á eftir var svo dansleikur með Stúlla og Dúa.
Eins og sjá má var um afar vandaða og metnaðarfulla dagskrá að ræða enda mikil fjölbreytni í afþeyingu og ferðaþjónustu á svæðinu.
Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar hefur verið fjölmenn síðustu ár en aldrei hafa eins margir tekið þátt og nú, eða 130 manns.
Texti: Rósa Margrét Húnadóttir
Myndir: GJS
Athugasemdir