Úrslit í ljóðasamkeppni Glóðar og ljóðasýning í Samkaupum
Innsent efni.
Úrslit í ljóðasamkeppni Glóðar og ljóðasýning í Samkaupum
Laugardaginn 9. nóvember kl. 13.00 munu úrslit í ljóðasamkeppni Glóðar 2013 verða kunngjörð í Ljóðasetrinu. Það voru nemendur í 8. og 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar sem tóku þátt í keppninni í ár. Fór hún fram með sama sniði og undanfarin ár þ.s. nemendur yrkja út frá listaverkum úr listaverkasafni Fjallabyggðar. Nemendur koma í sal Ráðhússins eina kennslustund og virða fyrir sér verkin sem valin hafa verið fyrir keppnina, yrkja út frá þeim og skila inn afrakstrinum áður en haldið er aftur upp í skóla.
Að þessu sinni urðu til um 50 ljóð og hefur dómnefnd nú valið þau fjögur bestu. Höfundar þeirra verða verðlaunaðir í Ljóðasetrinu á morgun, laugardag 9. nóv. kl. 13.00, og kl. 13.30 verður opnuð ljóðasýning í Samkaupum á Siglufirði. Þar verður afrakstur þriggja ára í þessari keppni til sýnis og eru það um tvö hundruð ljóð og vísur.
Ljóðasamkeppnin og sýningin eru liðir í ljóðahátíðinni Glóð þetta árið og sem fyrr eru það Ungmennafélagið Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands standa að hátíðinni í sameiningu. Menningarráð Eyþings, Sparisjóður Siglufjarðar og Fjallabyggð styrkja hátíðina í ár.
Athugasemdir